Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 16:52:08 (4434)

1997-03-13 16:52:08# 121. lþ. 90.2 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[16:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt. Í fyrra lagi spurði ég hæstv. ráðherra út í hvernig túlka bæri 6. gr. frv. og hvaða viðmiðun 35% talan sem þar er afgerandi skyldi taka, þá lægri eða þá hærri, þ.e. hvort það ætti að vera 35% af nafnverði hlutafjár eins og það verður í upphafi og allt í eigu ríkisins eða hvort meðeigendurnir mættu eiga 35% af auknu hlutafé eins og það yrði eftir aukninguna. Ég vildi gjarnan fá svör við þessu.

Í öðru lagi verð ég að segja að ég er algjörlega ósammála þeirri uppsetningu hæstv. ráðherra að það sé réttari leið, upp á það til að gera að halda opnum þeim möguleika að sameina ríkisbankana, að breyta þeim fyrst sitt í hvoru lagi í hlutafélög og svo eigi að sjá til. Ég held að þetta sé mjög vanhugsað. Það er þannig að ríkið er vegna eignar sinnar, ekki bara á bönkunum heldur líka sjóðunum í alveg einstakri aðstöðu til þess að stokka þessa hluti upp og hagræða þeim nú vegna þess að þetta eru bein ríkisfyrirtæki sem lúta sérlögum, koma ekki undir hlutafélagalög eða önnur slík ákvæði þannig að aðferðafræðilega er staða ríkisins eins sterk og hún getur nokkurn tíma orðið núna, núna á meðan ríkið á bankana og sjóðina 100% og er ekki bundið af einu eða neinu í sjálfu sér með það hvernig það fer með það, hvernig það stokkar þetta upp, endurskipuleggur þessi mál eins og hvern annan hreinan ríkisrekstur. Þetta liggur alveg á borðinu.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fara yfir það hvaða flækjur geti skapast einmitt í þessu sambandi bara við það eitt að breyta bönkunum í hlutafélög.