Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 17:44:59 (4440)

1997-03-13 17:44:59# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[17:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú eru hér á dagskrá tvö af þessum bankasjóðafrumvörpum sem eru hér fyrirferðarmikil og það er auðvitað spurning hvort ekki hefði verið einfaldast að slengja þessu öllu saman og hafa um þetta einn almennilegan eldhúsdag í svona þrjá, fjóra daga því auðvitað eru öll þessi frumvörp að nokkru leyti samhangandi. Þau varða skipulag banka og fjárfestingarsjóða í landinu og auðvitað er þetta nátengt.

Ég get tekið undir ýmislegt af því sem fram kom í máli síðasta ræðumanns varðandi það að margt lyktar nú eiginlega af hagsmunagæslu gömlu valdablokkanna bæði í þessu kerfi sem slíku og svo að sjálfsögðu stjórnarflokkanna sem þarna hafa greinilega ætlað sér að passa vel og dyggilega upp á sitt. Þó að það sé í sjálfu sér margt jákvætt við að fækka þessum sjóðum og sameina þá út frá almennum sjónarmiðum um hagræðingu og stærð eininga þá er ekki sama hvernig það er gert.

Það var reyndar, herra forseti, nokkuð fyndið, svo ekki sé sagt beinlínis stórfyndið, alveg rígfyndið að heyra hæstv. iðnrh. mæla fyrir þessari sjóðasameiningu áðan eftir að hafa heyrt hann hins vegar verjast í umræðum fyrr í dag og fyrir nokkrum dögum varðandi þann möguleika að sameina ríkisbankana. Nú sneri allt á haus hjá hæstv. ráðherra. Með öðrum orðum, hæstv. ráðherra tíndi hér upp rökin hver á fætur öðrum sem við höfðum notað fyrir því að sameining ríkisbankanna væri a.m.k. kostur sem ætti að skoða mjög vel. Þá yrði til stærri og sterkari eining og hagkvæmari o.s.frv.

Nú sagði hæstv. ráðherra að það væri mikil hagræðing í því fólgin að fækka einingunum og stækka þær, það mundi nást umtalsverður sparnaður og vaxtamunur ætti að geta minnkað og þar fram eftir götunum. Þá er auðvitað nærtækt að spyrja, úr því að þetta er svona glæsilegt og einboðið í sambandi við sameiningu fjárfestingarlánasjóðanna, hvers vegna er það þá ekki líka svo í sambandi við sameiningu ríkisbankanna? Ég held að hæstv. ráðherra skuldi okkur skýringar á þessum mótsögnum eða mótsetningum í málflutningi sínum.

Ég nefni hér fyrst, herra forseti, sama gagnrýnisatriðið og ég gerði í umræðum um ríkisbankana, að þessi sjóðasameining í sjálfu sér er ekki sú heildaruppstokkun og sameining og raunverulega hagræðing sem ég hefði gjarnan viljað sjá vera hér á ferðinni úr því að farið er í það verkefni á annað borð að stokka upp spilin í banka- og sjóðakerfinu, þ.e. þeim stóra hluta þess sem tilheyrir ríkinu. Ég held að það sé ekki sérstaklega mikið í takt við nútímaleg viðhorf eða þróun í bankamálum í umhverfinu að stofna hér, mér liggur við að segja tiltölulega gamaldags nýjan ríkisbanka, að vísu að því slepptu að hann á ekki að taka við innlánum frá almenningi. Ég hefði talið að það væri miklu meira í takt við tímann að færa fjárfestingarlánastarfsemina inn í bankana, sameina þá þætti og búa til einingu sem væri sambærileg við þá banka erlendis sem við gætum helst reynt að bera okkur saman við, aftur með þeim sömu rökum að þá yrði til eining sem hefði miklu meiri burði til að sinna viðskiptum við stórfyrirtæki, hefði mun sterkari eigin fjárhag og ætti að geta náð enn þá meiri hagkvæmni og hagræðingu í krafti stærðar sinnar. Ég held að menn átti sig ekki almennt á því sem er verið að gera t.d. í bankakerfinu. Það er verið að búa til dverghlutafélagabanka, hreina og klára dverga á alþjóðlegum viðskiptamarkaði. Ástæðan fyrir því að íslensku ríkisbankarnir hafa fengið þokkalega góð lánskjör er auðvitað sú að þeir hafa verið hrein ríkisfyrirtæki og ábyrgð ríkisins staðið beint á bak við. Lánskjör ríkisbankanna hafa þannig í grófum dráttum fylgt lánshæfi íslenska ríkisins en á því verður nokkur breyting þegar til verða örsmáir hlutafélagabankar af því tagi sem nú er verið að stofna til.

Ég held að þarna hefði verið miklu vænlegra að velja þá leið að stokka þessa fjárfestingarlánastarfsemi með einhverjum hætti saman við bankastarfsemina eða endurskipuleggja þetta betur.

Það má líka spyrja: Hvers vegna er þetta --- bara nákvæmlega þetta skref tekið? Hvað með þá sjóði sem liggja þá áfram utan við og verða auðvitað enn þá minni og sem verður í raun og veru fráleitara að reka sem algjörlega sjálfstæðar stofnanir eftir þessa sameiningu? Af hverju er þá ekki Stofnlánadeild tekin þarna með? Hvað með Byggðasjóð? Hvað með Ferðamálasjóð? Sjálfsagt gleymi ég einhverju.

Það skrýtna er að þrátt fyrir þessar aðgerðir, þrátt fyrir þennan nýja ríkisbanka og þrátt fyrir síðan Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, þá á að reka allt hitt áfram. (Gripið fram í.) Ekki veit ég annað, þ.e. þá sjóði sem ekki koma þarna með. Það hefði auðvitað verið eðlilegt að reyna að stokka þá saman við þetta einhvern veginn. Kannski ætlar hæstv. ráðherra að fara aftur með þær ræður að það eigi að gera þetta í einhverri tiltekinni röð og fyrst sé rétt að gera þetta og svo geti hitt komið á eftir en það er svolítið billegt finnst mér satt best að segja. Ef menn eru þeirrar skoðunar á annað borð að þetta sé hagstætt, af hverju eru menn þá bara að fara hálfa leið meðan þeir hafa það tækifæri í höndunum að ríkið á þetta og getur gert það sem það vill í sambandi við endurskipulagningu þessara mála og áður en stofnaðir verða nýir bankar, nýr sjóður eða þriðji bankinn en með nýrri stjórn, nýjum Kristjánum og nýjum Haröldum sem fara svo að passa upp á sitt í nýju umhverfi? Nýir toppar ráðnir í bankann o.s.frv. Ef menn ætla í þetta á annað borð, af hverju gera þeir það þá ekki almennilega, láta sig hafa það, setja undir sig hausinn og fara bara í gegnum þann skafl að endurskipuleggja þrátt fyrir nöldrið í öllum kóngunum? Mér finnst þetta svona hálfvelgja sem er eitthvað óskaplega slöpp.

Það er auðvitað fyndið að þessi mikla einkavæðingarstjórn sem hefur verið að flytja inn einkavæðinguna í gríð og erg með ærnum tilkostnaði, þó að hann fáist ekki birtur samanber snautleg svör hjá hæstv. forsrh. þar um hér á borðum okkar í dag, að hún skuli vera að stofna nýjan ríkisbanka. Það finnst mér mjög fyndið. Mér finnst það afar fyndið satt best að segja. Svona er nú mitt skopskyn sérkennilegt, herra forseti. Ég get bara ekki annað en hlegið að þessu.

Það má líka spyrja ýmissa spurninga í sambandi við það stjórnunarfyrirkomulag sem þarna er upp sett. Og síðast en ekki síst er þarna náttúrlega á ferðinni hrein og klár einkavæðing upp á allt að helming eða 49% af þessum nýja sjóði. Og ekki bara einkavæðing, heldur strax því það stendur á bls. 9 að það sé algjört forgangsverkefni og mjög brýnt að drífa þetta út. Hins vegar er lögð áhersla á, herra forseti, að hin heimilaða sala fari fram strax, ,,og aðstæður leyfa`` er að vísu bætt við. Og ætli það sé þá ekki mat þessara snillinga að þær leyfi það. Jafnvel þótt ekki fáist nema hálfvirði fyrir. Eins og frægt er þá er í ríkisstjórninni maður sem hefur lagt þvílíkt ofurkapp á einkavæðingu að hann missti það út úr sér á frægum fundi að það væri allt í lagi að selja tilteknar eignir ríkisins á hálfvirði ef ekki fengist meira fyrir þær bara til að einkavæða þær. Og var þá ekki minna á stykkinu heldur en sjálfur Búnaðarbankinn. En ég veit að vini mínum, hæstv. fjmrh., er mjög viðkvæmt að þetta sé rifjað upp.

Hér er sem sagt á ferðinni hrein og klár einkavæðing, hrein og klár á býsna umsvifamikilli fjármálastofnun sem verður þessi nýi ríkisbanki. Nú er skaði mikill að hv. þm. Guðni Ágústsson skuli ekki vera hér til staðar því hann hefur haldið mjög hjartnæmar ræður um hinn gífurlega mun á þessum prósentum, 35% og 49%. Hann fór út í stærðfræðilegar nálganir í þeim efnum að þetta væri alveg sitt hvað, svart og hvítt, hvort einkavætt væri upp á 35/100 eða 49/100. Hér er hrá einkavæðing út um gluggann á ferðinni, þ.e. það á bara að selja þetta mikið af hlutafénu og það strax.

Þá erum við komin, herra forseti, alveg inn í kjarna umræðunnar, hver kaupir, hvað skeður? Er þetta framför? Er víst að þarna verði um framför að ræða í íslenska fjármálaheiminum? Hver er nú líklegastur til að kaupa eða hverjir? Það er kannski hægt að hafa það í fleirtölu. (GMS: Enginn þennan banka.) Enginn þennan banka, telur hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, sérfræðingur Framsfl. þangað til í maí í fyrra í bankamálum og einkavæðingu. Ég veit ekkert um það en einhvern veginn hefur mér sýnst að ýmsir kóngar í viðskiptaheiminum, oddvitar tiltekinna blokka, væru tilbúnir til þess að borga talsvert verr fyrir vissa hluti þegar þannig stendur á, þegar verið er að kaupa eitthvað annað heldur en bara svona hlut til þess að hafa arð af honum. Mér sýnist nefnilega enn íslenski viðskiptaheimurinn vera gegnsýrður af þeim sjúka hugsunarhætti að þegar menn eru að kaupa hlut í fyrirtækjum, þá eru þeir ekki fyrst og fremst að fjárfesta. Það er verið að kaupa völd, það er verið að kaupa aðstöðu, það er verið að þétta raðirnar í keðjunni, í blokkinni. Og auðvitað blasir sú hætta við hér, eins og hún gerir í sjálfu sér um leið og menn fara að opna upp bankana, að þetta verði keypt af aðilum sem síðan leiðir til að um enn frekari samþjöppun valda og fjármuna verður að ræða í hinu örsmáa, íslenska efnahagslífi. Það er þannig. Sú hætta er borðliggjandi. Og þetta er, herra forseti, auðvitað að verða grafalvarlegt mál sem kannski er réttara að ræða við betra tækifæri og undir öðrum kringumstæðum, og þó. Það er bara ósköp einfaldlega sú gríðarlega samþjöppun og blokkamyndun sem er á fullri ferð í íslensku viðskiptalífi þessa dagana og þessi missiri, þar sem menn ganga svo langt í sumum tilvikum að verðið skiptir að því er virðist engu máli sem þeir borga fyrir tiltekna aðstöðu, tiltekin völd, tiltekna hluti, til að ná fram öðrum markmiðum en kannski arðsemismarkiðinu.

Ég held t.d. að kaup á ýmsum fyrirtækjum í flutningageiranum og í sjávarútvegsgeiranum og víðar séu þess eðlis að það sjái það allir menn að þar er á ferðinni allt annað en fyrst og fremst fjárfesting til þess að fá af henni arð. Það er allt, allt annað á ferðinni. Það er ískyggilegt að svo mikið fjármagn hefur safnast á ákveðnar hendur að menn geta leyft sér slíkt, a.m.k. eins og málin standa hér meðan ekki kemur meira aðhald frá hluthöfum í þeim fyrirtækjum. Ég hef af því miklar áhyggjur að hér geti menn sem sagt farið úr öskunni í eldinn í raun og veru. Og við verðum að vera menn til þess að spyrja okkur þeirrar spurningar, hvort er betra, ef það eru kostirnir, að hið opinbera eigi stofnanir af þessu tagi eða þær lendi lóðbeint í hendurnar á sömu fákeppnisblokkunum sem eru að herða krumlurnar meira og minna um allt í íslenskt viðskiptalíf þessi missiri? Hafa menn engar áhyggjur af því? Hefur hæstv. viðskrh. sem er yfir samkeppnismálum engar áhyggjur af því að þeir sem eru að reyna að lifa sjálfstæðu lífi utan þessara blokka fara með veggjum? Þeir fara helst ekki út á daginn nema með hauspoka því að þeir eru svo hræddir um að styggja risana og komast í ónáð. Og ef þeir stíga einhvers staðar nálægt tánum á þeim, þá vita þeir sem er að þeir vita ekkert hvenær þeir verða slegnir af. Þetta er svona, herra forseti, og það er mjög alvarlegt mál.

Svo furðulegt sem það nú er þá hefur fákeppnin því miður verið að aukast til mikilla muna á mörgum sviðum viðskipta. Maður hélt að blokkamyndun væri t.d. að líða undir lok í sjávarútveginum og batt vissar vonir við að fátt væri svo með öllu illt að ekki boðaði nokkuð gott, m.a. að þrengingarnar í sjávarútveginum á 9. áratugnum væru að leiða til þess að blokkirnar væru dálítið að leysast upp, en blokkamyndun er nú á fullri ferð til baka sem aldrei fyrr.

Herra forseti. Um Nýsköpunarsjóðinn ætla ég ekki að fara mörgum orðum, annar fulltrúi okkar þingflokks mun ræða það sérstaklega. En ég vil þó aðeins spyrja hæstv. ráðherra eða leggja inn í þessa umræðu spurningar úr því að farið var út í þessa breytingu sem er mjög góðra gjalda verð í sjálfu sér. Og það er fullkomlega réttmætt að menn reyni að gera eitthvað, láti ekki nægja bara orðin tóm í sambandi við að stuðla að einhverri nýsköpun og uppbyggingu í atvinnulífinu. Gott er að ríkisstjórnin skuli þó ekki vera kaþólskari en það að hún þorir að leggja fram frv. um opinberan sjóð í þessu skyni. Ég hefði að vísu gjarnan viljað sjá það fé vera viðbótarfé í þetta verkefni en ekki koma frá fjárfestingarlánasjóðunum, sem þar með tekur niður eigin fjárhag þeirra sem því nemur. Og því ekki bara setja í þetta nýtt fé? En spurning mín lýtur meira að því hvernig skipulagið á þá að vera í þessum nýsköpunar- og þróunarmálum í kjölfarið. Hver á að gera hvað eftir að nýi sjóðurinn verður kominn til viðbótar við þá aðila sem fyrir eru? En frv. tekur ekki á því hvernig þeir eiga að falla inn í myndina.

[18:00]

Spurning mín lýtur meira að því hvernig skipulagið eigi að vera í þessum nýsköpunar- og þróunarmálum í kjölfarið. Hver á að gera hvað eftir að nýi sjóðurinn verður kominn til viðbótar við þá aðila sem fyrir eru án þess að frv. taki á því hvernig þeir eiga þá að falla inn í þá mynd? Ég er að tala um Byggðastofnun, Byggðasjóð, ég er að tala um Þróunarfélagið. Hvað með þróunarfélagið sem var sérstakt hugarfóstur nafna míns, hv. fyrrv. þm. Steingríms Hermannssonar? Þróunarfélagið var hans draumabarn á síðasta áratug, (Gripið fram í: Það er búið að selja það.) Búið að selja það? Já, en á það þá bara að dóla sér þarna? Og hvað með aðra aðila sem eru að sinna verkefnum á þessu sviði? Hvað með iðnþróunarfélög og iðnþróunarsjóði á einstökum svæðum o.s.frv.? Mér finnst að það þurfi að reyna að horfa á eitthvert heildarskipulag í þessum málum þó að það sé mjög gott að til sögunnar komi sterkur aðili sem geti veitt fyrirgreiðslu, þá þarf samt sem áður að skoða hvernig það á að gerast og eru ýmsar spurningar sem vakna í þessu sambandi.

En aftur að upphafinu, herra forseti. Þetta frv. til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hangir mjög saman við bankafrumvörpin sem væntanlega verða tekin til rækilegrar skoðunar og mér finnst rökstuðningurinn á bak við þetta fjárfestingarbankamál vera viðbót við það sem áður hefur verið sagt, viðbótarrökstuðningur fyrir því að þessi mál eiga nú að fara í mjög víðtæka og rækilega skoðun hér á vettvangi löggjafans. Það á ekki að rasa um ráð fram hvað varðar þessar breytingar. Menn leika sér ekki með mikilvægustu fjármálastofnanir heillar þjóðir. Það gera menn ekki. Ekki ábyrgir stjórnmálamenn. Og tími, vikur eða mánuðir skipta engu máli í því sambandi, engu. Það er þess vegna þannig, herra forseti, að það er tæplega hægt að taka það mjög alvarlega að þessi gífurlega stóru mál sem fyrst eru að koma hingað inn til umræðu á þessum dögum, skömmu áður en Alþingi fer í páskaleyfi, eigi að fá hér afgreiðslu. Ég trúi því satt best að segja ekki að mönnum sé fullkomin alvara með því að ætla Alþingi sjálfu ekki nema fáeinar vinnuvikur til að skoða þessi mál en það blasir við. Nú fer í hönd innan skamms páskahlé. Eftir það kemur þing saman til fundar í tvo eða þrjá daga og þá kemur nefndavika í sjö daga og þá verður kominn um það bil miður apríl þegar þingið fer þá aftur að taka til starfa og mánuður eftir af þeim tíma sem þinginu var ætlað að vinna hér.

Sami maður, hæstv. ráðherra, að vísu í gervi iðnrh., er að sulla hér inn stórum frumvörpum um álver og guð má vita hvar og hæstv. ráðherra hlýtur að gera sér grein fyrir því að það fer að renna út úr þessari tunnu fyrr en varir.

Ég endurtek þar af leiðandi að lokum, herra forseti, þá skoðun mína að þetta sé dæmigert viðfangsefni og dæmigert mál fyrir milliþinganefnd til að skoða. Við höfum ekki haft stærri mál á sviði fjármálastofnana mjög lengi, skal fúslega viðurkennt jafnvel þó að hér hafi farið fram heildarendurskoðun á löggjöf um viðskiptabanka og sparisjóði, um aðrar lánastofnanir og um Seðlabankann fyrir ekki löngu síðan, þá var það endurskoðun á lagarammanum í grófum dráttum í óbreyttri mynd þessara stofnana, þær héldu sem sagt áfram. Það voru ekki miklar skipulagsbreytingar því samfara í sjálfu sér. En hér eru aðrir hlutir á ferð eða gætu a.m.k. verið á ferð. Hér er búið að opna upp mál sem býður upp á stórkostlega uppstokkun í íslenska fjármálakerfinu ef menn nota tækifærið, ef menn verða ekki með nein álver í þessu sem ég hvet eindregið til og þá skulum við líka taka okkur þann tíma í það sem til þarf. Ég hefði talið að harðdugleg milliþinganefnd sem ynni kappsamlega í allt sumar og fram á haust hefði meira en nægjanleg verkefni að skoða til þess að skila svo af sér fullbúnum afrakstri af slíku starfi, t.d. í lok september nk. áður en þing hæfi störf á nýjan leik.