Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 18:33:46 (4448)

1997-03-13 18:33:46# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[18:33]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það eru engin ný sannindi að í íslensku atvinnulífi skortir stórlega tiltækt áhættufjármagn svo nýsköpun geti blómstrað sem skyldi og atvinnulífið þróast eðlilega. Íslenskur fjármagnsmarkaður hefur brugðist atvinnulífinu að þessu leyti og afleiðingarnar eru þær að vaxtarbroddar atvinnulífsins eiga mjög erfitt uppdráttar á meðan höfuð\-atvinnugreinarnar hafa búið við nokkuð þéttriðið styrkjakerfi og lánamöguleikar eru nokkuð góðir. Sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður hafa haft aðgang að fjármagni í gegnum hina ýmsu sjóði sem greinarnar vissulega hafa átt þátt í að byggja upp með framlögum sínum í sjóðina. Það er ekki einfalt verk og í raun óvinnandi vegur að draga upp mynd af því kerfi sem atvinnulífið á aðgang að varðandi fjárfesta og styrki. Það væri efni í langa ræðu út af fyrir sig og ég ætla ekki að reyna það hér en ég tel þó rétt að reyna að bregða einhverju ljósi á þann frumskóg sem blasir við í þessum efnum með því að tína til nokkur dæmi. Annars vegar höfum við opinbera hlutann og svo að sjálfsögðu fjölda hlutafélaga sem starfa á þessu sviði.

Fiskveiðasjóður hefur það lögbundna hlutverk að efla framleiðslu og framleiðni í fiskveiðum, fiskiðnaði og skyldri starfsemi með því að veita stofnlán með veði í fiskiskipum, vinnuslustöðvum, vélum og mannvirkjum sem að dómi sjóðstjórnar er í þágu sjávarútvegsins. Innan sjóðsins skal starfa sérstök þróunardeild er hefur það hlutverk að veita lán og styrki til markaðsmála, rannsókna og þróunarverkefna á öllum sviðum sjávarútvegs. Stofnfjársjóður fiskiskipa er síðan deild innan Fiskveiðasjóðs en hlutverk hans er að tryggja að eigendur fiskiskipa greiði af stofnlánum sem á skipunum hvíla.

Iðnlánasjóður starfar samkvæmt sérstökum lögum og tilgangur hans er að efla framleiðslu og framleiðni í iðnaði með því að veita stofnlán og styðja almennt við umbótastarf í iðnaði og innan hans er vöru- og markaðsþróunardeild er skal m.a. stuðla að aukinni nýsköpun í iðnaði en mér skilst að sú deild hafi reyndar útvíkkað starfsemi sína töluvert upp á síðkastið.

Svo höfum við Iðnþróunarsjóð en hlutverk hans er samkvæmt lögum að stuðla að uppbyggingu alhliða og samkeppnishæfs atvinnulífs á Íslandi. Honum er ætlað að gegna hlutverki sínu með því að veita lán til ákveðinna verkefna, ábyrgjast lán sem veitt er af öðrum aðilum, kaupa hlutabréf í fyrirtækjum, nýjum og starfandi, og veita áhættulán. Stjórnin er þriggja manna sem allir eru tilnefndir af iðnrh. sem bendir til þess að þar séu áherslurnar fyrst og fremst á iðnaðinn þótt lögbundið hlutverk sjóðsins sé víðara. Ef útlán iðnþróunarsjóðs frá upphafi eru skoðuð kemur í ljós að þar er iðnaðurinn í langstærstum hluta en samtals eru útlán á sviði iðnaðar um 70% allra útlána sjóðsins.

Þá er það Útflutningslánasjóður sem hefur það hlutverk fyrst og fremst að veita lán vegna útflutnings meiri háttar véla og tækja, þar á meðal skipa og annarra fjárfestingarvara sem framleiddar eru innan lands, og að veita samkeppnislán, þ.e. lán til innlendra aðila er kaupa vélar og tæki, þar með talin skip, sem framleidd eru innan lands. Stofnaðilar sjóðsins eru Seðlabanki, Landsbankinn og Iðnlánasjóður og þeir lögðu fram hluta stofnframlags.

Þetta er reyndar sá grunnur sem frv. tvö sem eru til umræðu hér og hin svokallaða endurskipulagning hins opinbera sjóðakerfis er byggð á. Það þarf ekki annað en að skoða lögbundið hlutverk þessara sjóða til þess að sjá að iðnaður og sjávarútvegur eru þarna ráðandi og þess konar kerfi er lítt til þess fallið að ýta undir nýsköpun í atvinnulífinu, þ.e. í öðrum atvinnugreinum. Nýjar en stórlega vaxandi greinar eins og hugbúnaðargeirinn eru ekki í fyrirrúmi í þessu umhverfi, hvað þá kvikmyndagerð, svo dæmi séu tekin um vaxandi greinar sem þurfa aðhlynningar við. En til viðbótar við það sem hér hefur verið talið má nefna ýmsa minni sértæka sjóði sem fyrirtæki t.d. á sviði nýsköpunar geta átt aðgang að. Þá má nefna sem dæmi Rannsóknarráð Íslands sem hefur á sínum snærum fjóra sjóði, Vísindasjóð sem hefur það hlutverk að efla vísindarannsóknir, Tæknisjóð sem á að styrkja þróun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi, Bygginga- og tækjasjóð sem hefur það hlutverk að styrkja byggingu eða kaup á húsnæði svo og kaup á dýrari tækjum og búnaði til rannsókna og að lokum Rannsóknarnámssjóð er hefur það hlutverk að styðja vísindalegt framhaldsnám.

Auk þeirra opinberu sjóða sem eru vissulega miklu fleiri en hér hafa verið taldir er fjöldi annarra fjárfesta, þ.e. hlutafélög sem ríkisvaldið á enga aðild að og eru því að mínu mati fyrir utan þessa umræðu sem snýst um hið opinbera og hlutverk þess í fjárfestingum í atvinnulífinu. Það hlutverk er fyrst og fremst að búa markaðnum eðlilega umgjörð og sinna eftirlitshlutverki en koma inn þar sem ljóst er að markaðurinn muni bregðast. Sem dæmi um slíkt mætti nefna útvegun áhættufjár til nýsköpunar og byggðastyrki.

Alþb. hefur lagt fram ítarlegar hugmyndir um það hvernig eigi að hlúa að vaxtarbroddum atvinnulífsins í öllum atvinnugreinum svo þeir megi dafna og má sjá þær hugmyndir í grænu bókinni eða útflutningsleiðinni og hluti þeirra hugmynda hefur líka verið lagður fram í frv. um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð sem lagt var fram á síðasta þingi og ég tel reyndar vera miklu betra frv. heldur en það sem hér er rætt um, og þá er ég að tala um Nýsköpunarsjóðinn, en ég ætla ekki að rekja þær hugmyndir frekar hér, bendi einungis á þær.

Það hefur líklega enginn efast um það að brýn nauðsyn væri á því að opinbera sjóðakerfið væri stokkað algjörlega upp. Því var ekki laust við að eftirvæntingar gætti hjá mörgum við að sjá að það væri einmitt á dagskrá hæstv. ríkisstjórnar að endurskoða þetta kerfi. Markmið endurskoðunarinnar var að tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til fjárfestingar á markaðskjörum á sem hagkvæmastan hátt og tryggja aðgang að fjármagni til nýsköpunar og þróunar. Þetta er gott markmið og það var sett sem skilyrði að öll fyrirtæki í hvaða atvinnugreinum sem var ættu aðgang, jafnan aðgang að fjármagni úr sjóðakerfi atvinnuveganna. Með því væri afnumin sú atvinnugreinaskipting sem verið hefur í sjóðakerfinu eins og það er orðað í athugasemdum með frv. um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.

En hvað gerist svo, herra forseti? Hvernig framkvæmir hæstv. ríkisstjórn þessi göfugu markmð sín? Hún stokkar vissulega upp í sjóðakerfi atvinnulífsins en alls ekki á þann hátt að það horfi til nokkurra framfara að því er séð verður, a.m.k. ekki fyrir þau fyrirtæki sem eru í mestri þörf fyrir áhættufjármagn. Ráðuneytisstjórar þriggja ráðuneyta, forsrn., iðn.- og viðskrn. og sjútvrn. eru fengnir til að gera uppstokkunina, til að búa til nýtt kerfi sem byggir á sama ofurvaldi höfuðatvinnugreinanna --- iðnaðar og sjávarútvegs. En í staðinn fyrir allan fjöldann sem var tíndur til hér í upphafi eru nú til tvö batterí, þ.e. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og svo reyndar sérstakur sjóður fyrir landbúnaðinn, einhverra hluta vegna sem ég átta mig ekki alveg á. Með fullri virðingu fyrir ráðuneytisstjórum, herra forseti, þá verður að segja eins og er að þeir ágætu menn eru síst líklegir til einhverrar byltingar á því kerfi sem þeir sjálfir eru tengdir órjúfanlegum böndum. Hefði ekki verið skynsamlegra að leita ráða annars staðar? Að fá t.d forsvarsmenn nýsköpunarfyrirtækja til að koma með hugmyndir um það hvernig best væri búið að nýsköpun? Leita kannski til sérfræðinga sem eru vissulega í röðum hæstv. ríkisstjórnar eða stuðningarmanna hennar, t.d. hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson sem talaði hér áðan. Nei, ríkisstjórnin velur sér aðra stýrimenn við þessa uppstokkun, þrjá ráðuneytisstjóra.

Hvað fjárfestingarbanka varðar þá er það hlutverk hans að veita atvinnulífinu fjármálaþjónustu eða hafa með höndum hverja þá starfsemi sem lánastofnunum öðrum en viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilað að lögum. Vissulega er hlutverk hans ekki bundið ákveðnum atvinnugreinum en sjútvrh. og iðnrh. fara saman með eignarhlut ríkisins í bankanum og stofnfé hans er að grunni til eigið fé Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Með atkvæði fyrir hönd ríkissjóðs á aðalfundi fara fimm menn. Tveir skipaðir af iðnrh., annar eftir ábendingu samtaka atvinnufyrirtækja í iðnaði. Tveir skipaðir af sjúrvrh., annar eftir ábendingu samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi. Ráðherrarnir tveir skipa einn sameiginlega. Ég vil fyllilega taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni, á þessa samsetningu stjórnarinnar. En hverjir eru það sem fara þarna með tögl og hagldir? Jú, það eru áfram hefðbundnu atvinnugreinarnar og hæstv. ríkisstjórn viðurkennir það beinlínis í athugasemdum með frv. til laga um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins að hagsmunasamtök í þessum atvinnugreinum stóðu ríkisstjórninni fyrir þrifum þegar taka átti til við uppstokkunina. Þeir vildu sín áhrif, þeir vildu hafa tögl og hagldir í hinu nýja sjóðakerfi atvinnulífsins.

Það segir í athugasemdum með frv., herra forseti, að það hafi verið markmiðið að afnema þá atvinnugreinaskiptingu sem verið hefur í sjóðakerfinu. En síðan kemur góður kafli um það á hvern hátt og með hvaða rökum hafi verið horfið af þeirri braut og þess í stað ákveðið að hafa náið samráð við forsvarsmenn samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í iðnaði, og að starfsmenn og stjórnendur sjóðanna þriggja hafi aðstoðað við undirbúning málsins. Því er reyndar haldið fram af veikum mætti að vissulega séu þessir sjóðir í eigu ríkisins en vegna þess að þeir hafi upphaflega verið stofnaðir til að tryggja aðgang einstakra atvinnugreina að lánsfé á tímum lánsfjárskorts og vegna þess hvernig þeir voru fjármagnaðir þá verði að taka tillit til yfirburðastöðu sjávarútvegs og iðnaðar við uppstokkunina. Svipaða klausu má lesa í athugasemdum með frv. um Nýsköpunarsjóðinn en vegna nafngiftar hans og tilgangs með stofnun hans er sá kafli grg. enn hjákátlegri en í hinu frv. En tilgangurinn með henni er líklega sá sami, að afsaka það af hverju ríkisstjórnin treystir sér ekki til þess að nota eignir ríkisins, en í athugasemdum er það margtekið fram að sjóðirnir séu í eigu ríkisins, til þeirra nota sem best hefðu þjónað íslensku atvinnulífi og verið landi og þjóð til ótvíræðrar farsældar. Þetta skref gat ríkisstjórnin ekki tekið. Þess í stað var búin til einn ein sýndarlausnin til þess að láta líta svo út sem kosningaloforðin væru efnd. Við höfum séð þær fjölmargar, í uppstokkun húsnæðiskerfisins, í endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sem er alveg að koma eftir því sem hæstv. menntmrh. hefur haldið fram frá því í október á síðasta ári, og svo mætti lengi telja.

Það mætti margt tína til í umfjöllun um þessi lagafrv. sem hér eru til umræðu en ég ætla að halda mig fyrst og fremst við það sem mér þykir einna alvarlegasta glappaskotið, ef af lögum verður, en það er Nýsköpunarsjóðurinn. Við lestur frv. verður ekki séð að þessi sjóður breyti nokkru sem heitið getur fyrir mörg þau fyrirtæki sem eru í mikilli þörf fyrir áhættufjármagn. Frv. bendir ekki til þess að ofurvaldi þeirra tveggja atvinnuvega sem hafa haft tögl og hagldir í sjóðakerfi atvinnulífsins til þessa verði aflétt heldur er þeim þvert á móti tryggð lykilstaða. Alþjóðavæðing atvinnulífsins sem komið er inn á í grg. í einhverju frumvarpanna veldur því að vegna lélegs framboðs á áhættufjármagni hér kemur til með að verða æ meiri atgervisflótti fyrirtækja í erlent umhverfi einfaldlega vegna þess að eftir að þeim hafa staðið allar dyr lokaðar á kæra Íslandi þá leita þau eftir erlendu fjármagni og fá það oft og tíðum. Við getum nefnt hér nokkur dæmi.

[18:45]

Í fréttum nýverið var sagt frá samningi upp á hundruð milljóna kr. vegna ensímavinnslu til lyfjagerðar. Setja á upp stórvinnslu ensíma á Íslandi og þróa nýjan lyfjaflokk náttúrulyfja en Jón Bragi Bjarnason og fleiri hafa unnið að undirbúningi. Í frétt í DV segir Jón Bragi að hann vildi sjá mikið meira gert á þessum vettvangi á hvaða sviði sem það yrði. Þekkingin og færnin sé til staðar en að leita verði út fyrir landsteinana að fjármagni því ekki sé unnt að fá það hér heima. Bandarískir aðilar settu hundruð milljóna í erfðarannsóknir hér fyrir nokkrum mánuðum. Svo má ekki gleyma að Íslendingar hafa aðgang að styrkjakerfi ESB. Fyrirtæki eins og Máki hf. á Sauðárkróki og Hugvit hf. í Reykjavík hyggja á mikla landvinninga, ekki síst á grundvelli rannsóknaráætlunar ESB og fleiri slík dæmi mætti nefna.

Kvikmyndagerðin hefur aðgang að fé úr Kvikmyndasjóði og Menningarsjóði útvarpsstöðva ef um menningarverkefni fyrir útvarp er að ræða. Annað fjármagn kemur frá útlöndum. Skiptingin er eftirfarandi á undanförnum áratug samkvæmt upplýsingum frá Kvikmyndasjóði, herra forseti:

Skipting fjármagns í íslenskum leiknum kvikmyndum 1991--1997:

Kvikmyndasjóður Íslands 19%, innlendur framleiðandi, 24%, erlent fjármagn 57%.

Úthlutun úr Kvikmyndasjóði árið 1997. Fyrr á þessu ári veitti Kvikmyndasjóður styrki til fjögurra leikinna kvikmynda samtals að upphæð 80 millj. kr. Framleiðslukostnaður myndanna er áætlaður 318 millj. Framleiðslukostnaður skiptist þannig að Kvikmyndasjóður ber ábyrgð á 25,2%, íslenskur framleiðandi 24,8%, erlent fjármagn 50%.

Dæmigerð íslensk kvikmynd lítur sem sagt þannig út að ef heildarkostnaðurinn er 80 millj., Kvikmyndasjóður leggur til 15--20 millj. kr., íslenskur framleiðandi 10--30 millj. kr., erlendir sjóðir 10--30 millj., erlendir meðframleiðendur 20--50 millj. kr. Þetta eru nýjar upplýsingar frá Kvikmyndasjóði Íslands.

Þá höfum við mörg dæmi um að hugbúnðarfyrirtæki fara úr landi með starfsemi sína að hluta til m.a. vegna skorts á fjármagni hér heima. Nærtæk dæmi eru Íslensk forritaþróun hf. sem heitir nú Coda á Íslandi og OZ.

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn ætlar að leggja milljarð í stofnfé vegna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til viðbótar þeim 3 milljörðum sem byggja á sameiginlegum fégögnum sjóðanna. Þessi milljarður á að koma af söluandvirði hlutafjár í eigu ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Það hljómar því vægast sagt undarlega þrátt fyrir að iðnaður og sjávarútvegur telji sig eiga ítök í gömlu sjóðunum að þá skuli þeim einum tryggð aðkoma að stjórn sjóðsins. Aðrar atvinnugreinar sem þó eru í miklum vexti eiga ekki aðkomu að stjórninni. Ég efast um að þetta skili þeim atvinnugreinum jöfnum aðgangi að sjóðnum á við iðnað og sjávarútveg, því miður.

Herra forseti. Það er eitt í viðbót sem ég leyfi mér að efast stórlega um í frv. um Nýsköpunarsjóðinn og hefur reyndar verið bent á það af fleirum hér í umræðunni. En í athugasemdum með frv. er áhættufjármögnun vegna nýsköpunar skipt í þrjá flokka eftir áhættu eins og hér hefur áður verið rakið, í fyrsta lagi þróunarfjármagn eða hugmyndafé, í öðru lagi byrjunarfjármagn eða upphafsfé og í þriðja lagi fjármagn til vaxtar eða vaxtarfé. Það er jafnframt tekið fram í athugasemdum með frv. að hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í fjárfestingarverkefnum muni aðallega falla að þriðja flokknum, þ.e. fjármögnun vaxtar.

Þau fyrirtæki sem eru í nýsköpun þurfa einmitt á fjármagni að halda á fyrri stigum starfseminnar. Það er einmitt á þeim stigum sem áhættan er mest og því erfitt um fjármögnun. Það má spyrja sig að því hvort ekki væri eðlilegra að sjóðurinn starfaði einmitt á fyrri stigunum, en það væri í samræmi við það hlutverk hins opinbera á fjármagnsmarkaðnum að koma inn í þar sem markaðurinn bregst vegna þess að hann bregst einmitt fyrst og fremst þarna. Það má líka spyrja þeirrar spurningar hvað sé þá raunveruleg nýsköpun. Þarf ekki víðtækari skilning á því en fram kemur í frv.? Hvert hefði Björk Guðmundsdóttir t.d. átt að leita árið 1986 eftir stuðningi við sína sköpun eða öllu heldur hvert getur Björk morgundagsins leitað til þess að fá fjármagn í listsköpun sína?

Ég óttast að þessi breyting hæstv. ríkisstjórnar breyti því ekki miklu þegar upp er staðið fyrir aðgang raunverulegra nýsköpunarfyrirtækja eða aðila sem eru í nýsköpun að áhættufjármagni. Ég óttast að eftir sem áður muni kvikmyndagerðin þurfa að leita til útlanda eftir fjármagni á sama tíma og við gerum þær kröfur að íslenskum sérkennum sé haldið á verkum sem framleidd eru af Íslendingum. Ekki það að ég óttist að Íslendingar hætti að vera Íslendingar þótt þeir tali ensku eða framleiði kvikmyndir á ensku, sem vissulega hlýtur að vera fylgifiskur þess að kvikmyndir eru í æ meira mæli kostaðar af erlendum fjárfestum, heldur er hitt ljóst að það hefur mikið að segja fyrir varðveislu íslenskrar menningar að okkar kvikmyndagerð hafi efni á að framleiða góðar myndir á íslensku og með íslenskum leikurum. Því miður eru æ minni líkur á því með hverju árinu sem nú líður.

Herra forseti. Í sjálfu sér verður ekki sagt að staða mála versni með þeirri breytingu sem hæstv. ríkisstjórn leggur til í þeim frv. sem hér eru til umræðu. Það veldur hins vegar vissulega vonbrigðum að ekki skuli hafa verið gert myndarlegra átak og raunverlegt átak í því að opna leið fyrir þær atvinnugreinar sem hafa verið í skugganum hingað til. Það verður því miður ekki séð að mikil breyting til hins betra verði fyrir þær með þessum breytingum.