Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 18:59:39 (4456)

1997-03-13 18:59:39# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[18:59]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér hafa vissulega orðið mikil tíðindi. Ekki er það nú einasta þannig að hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson sé sérfræðingur á þessu sviði og hafi beinlínis komið að undirbúningi þessara mála og síðan verið settur af, af hæstv., iðnrh., heldur er það þannig að hann var um langt skeið framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins sem hafði með nýsköpun í atvinnulífinu að gera. Þetta félag var sett á laggirnar að frumkvæði þáv. forsrh. og formanns Framsfl., Steingríms Hermannssonar. Hér hefur með öðrum orðum talað sá maður sem þekkir þessi mál gerst allra manna í þessum sal, allra manna. Þess vegna er algjörlega fráleitt annað en að segja að hér hafi orðið mikil tíðindi. Nú kann það að vera svo, herra forseti, að hv. þm. og hæstv. ráðherrum Framsfl. hafi verið þessi afstaða þm. ljós. Mér var hún ekki ljós. Ég hafði ekki orðið var við það áður að hv. þm. hefði þessa afstöðu og ég hafði a.m.k. aldrei áður heyrt í samfelldu máli rök hans fyrir þeirri afstöðu. Þess vegna finnst mér að útilokað að afgreiða þessi mál eins og mér fannst hæstv. viðskrh. reyna að gera hér áðan og tek því undir óskir hv. 11. þm. Reykn. um að talsmenn Sjálfstfl. á sviði efnhags- og viðskiptamála verði látnir vita af þessum tíðindum þannig að þeir geti verið þátttakendur í umræðunni í kvöld. Það er líka athyglisvert, herra forseti, ef svo illa færi að þeir kæmu ekki --- af því væri einnig hægt að draga ályktanir.