Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 20:32:24 (4457)

1997-03-13 20:32:24# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[20:32]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Á dögunum var haldinn fundur í Perlunni um einkavæðingu. Þangað komu miklir spekingar víða að úr heiminum og sögðu okkur Íslendingum hvernig best væri að standa að einkavæðingu. En svo meinleg voru örlögin að á þessum fundi var tilkynnt um stofnun nýs ríkisbanka. Þannig að nú ætla Íslendingar að hafa þrjá ríkisbanka í staðinn fyrir tvo.

Það voru margir kostir í stöðunni. Af þeim kostum sem voru til umræðu tel ég að sá versti hafi verði valinn. Ég er þó ekki sammála hv. 2. þm. Vestf., Gunnlaugi M. Sigmundssyni, um það að þetta hafi verið versta leiðin. Versta leiðin hefði að sjálfsögðu verið að gera ekki neitt þannig að þetta er betra heldur en ekki neitt.

Hér er farin sú leið að hella saman rekstri margra sjóða þar sem hver um sig væri betri söluvara vegna þess að þegar búið er að setja saman fjöldann allan af skuldabréfum þá er það á hreinu að einhver af þeim skuldabréfum eru mjög veik, það standa léleg veð á bak við þau og lélegir skuldarar. Og það er miklu erfiðara að taka stóran flokk skuldabréfa og ætla að selja hann, svo ég tali nú ekki um að skipta honum, sem er ekki hægt eða nánast útilokað, heldur en að selja minni pakka. Það hefði verið miklu betri söluvara að selja Fiskveiðasjóð eða rekstur hans einan sér og selja rekstur Iðnlánasjóðs einan sér heldur en að selja þetta saman.

Þessir sjóðir eru börn síns tíma þegar mjög mikill skortur var á lánsfé og mjög mikill mismunur á framboði og eftirspurn eftir lánsfé. Eftir að þær breytingar hafa orðið sem við höfum upplifað á undanförnum áratug, sem eru gífurlegar, þá daga þessir sjóðir upp eins og nátttröll. Þeir eru dýrir, þeir eru óarðbærir og markmið þeirra eru gjörsamlega fokin út í veður og vind. Öll fyrirtæki sem eitthvað mega sín og hafa sæmilega trausta eiginfjárstöðu taka lán annars staðar, miklu ódýrari. Þetta er staðreyndin.

Inn í þessa samsuðu sem hér er verið að búa til vantar Ferðamálasjóð og eflaust marga fleiri. Hvað á að gera við þá sjóði? (Gripið fram í: Gera nýja ríkisstofnun.) Ágæt hugmynd hjá hv. þm. Þetta er engan veginn góð lausn sem hér er farin og ég er ekki ánægður með hana. Svo ætla menn að selja hluti í þessu, 49%, og hver skyldi vilja kaupa? Miðað við það mikla eigið fé sem er bundið í þessum sjóðum, um 11,3 milljarðar, þá tel ég nánast vonlaust að fá kaupanda að því sem ætlar að reka það með hagnaði vegna þess að þetta eigið fé er bundið í alls konar útlánum sem menn vildu kannski ekki standa að sjálfir. Það er því mjög vafasamt að nokkur fáist til að kaupa.

Herra forseti. Það sem ég tel vera verst við þessa lausn er að hún veikir stöðu bankakerfisins og fjármagnskerfisins í heild sinni. Hér var gullið tækifæri til þess að búa til sæmilega stórar sjoppur, ef ég má nota það orð, úr bönkunum. Bankarnir eru allt of litlir. Ef menn hefðu farið þá leið fyrst að hlutafélagavæða ríkisbankana, síðan að gefa þeim heimild til að gefa út aukið hlutafé og svo að selja rekstur þessara sjóða allra þá hefði sá bankinn af þeim þremur sem eru starfandi í dag, sem best væri til þess hæfur, getað boðið mest í rekstur þessara sjóða. Hann hefði boðið út hlutafé á markaði til að ná í fé til að greiða ríkinu. Og ríkið hefði fengið heilmikið af peningum í kassann hjá sér sem mundi laga halla ríkissjóðs og gera kleift að borga niður skuldir ríkissjóðs og þar með lækka erlendar skuldir þjóðarinnar. Þessu tækifæri hafa menn misst af með þessari lausn. (Gripið fram í.) Bankarnir hefðu fengið langlánadeildir inn til sín, en hingað til hafa bankarnir nánast eingöngu verið í skammtímalánum, og rekstur þeirra hefði á allan máta verið miklu heilbrigðari eftir en áður.

Herra forseti. Við ræðum hérna líka Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Ég hef enga trú á því að opinberir starfsmenn muni nokkurn tíma geta stundað nýsköpun eða fjárfest í nýsköpun. Ég hef enga trú á því. Þetta verður slagur um fé. Menn munu gera út á þennan Nýsköpunarsjóð nákvæmlega eins og sumir gera út á þorsk. Það verður slagur um þetta fé og menn munu ekki fjárfesta, að minni reynslu, eftir því hvaða hugmyndir eru arðbærar eða gefa mikla von heldur eftir allt öðrum sjónarmiðum, byggðasjónarmiðum eða einhverju enn þá verra.

Ég hefði talið að það væri miklu eðlilegra að menn t.d. hættu að skattleggja nýsköpun sem í dag er til staðar. Það kostar 75 þús. kr. að stofna einkahlutafélag og 120 þús. kr. að stofna hlutafélag í staðinn fyrir að þetta ætti ekki að kosta nema svona 5 þús. kr. Það þarf reksturinn hjá hlutafélagaskrá. Ég hefði talið miklu eðlilegra að menn hættu þessari skattlagningu sem gefur ríkissjóði ekki nema 50 milljónir á ári og ég hef lagt það til að það verði hætt skattlagningu á nýsköpun en þá eru ekki til pengingar. Hér er verið að setja 4.000 milljónir í Nýsköpunarsjóð, því ekki í ósköpunum 50 milljónir í lækkaðri skattlagningu?

Svo mætti að sjálfsögðu huga að almennum skilyrðum atvinnulífsins. Hvað er að? Af hverju eru íslensk fyrirtæki svona lítið arðsöm? Af hverju fara menn ekki út í nýsköpun? Nóg er til af hugmyndunum, það vantar ekki. Íslendingar eiga fjöldann allan af frábærum hugvitsmönnum. Af hverju fá þeir ekki hlutafé frá almenningi eða einhverjum sem vill fjárfesta? Það er eitthvað að. Það er enginn styrkur til íslenskra fyrirtækja vegna þróunar og rannsókna, skattafsláttur eða annað slíkt sem margar aðrar þjóðir hafa farið út í. Ég hefði talið miklu eðlilegra að fara þá leiðina heldur en að búa til einhvern opinberan sjóð þar sem opinberir starfsmenn eiga að fara að útdeila peningum til nýsköpunar.

Þessi sjóður mun auk þess vera í samkeppni við ýmis fyrirtæki sem eru á markaðnum. Ég nefni Þróunarfélagið. Það vill svo til að ég er hluthafi í Þróunarfélaginu, pínulítill. (Gripið fram í.) Ekkert voðalega mikinn. En þarna er allt í einu komin opinber samkeppni við Þróunarfélagið. Það er líka komin samkeppni við alla þá sem væru tilbúnir að leggja peninga í nýsköpun.

Tryggingadeild þessa fyrirbæris, Nýsköpunarsjóðsins, á að tryggja útflutning. Það eru til fyrirtæki erlendis sem stunda slíka tryggingastarfsemi með góðum árangri, verkefnafjármögnun og annað slíkt. Þarna er kominn opinber aðili sem fer í samkeppni við þessa aðila.

Hvað er svo til ráðstöfunar úr þessum sjóði? Það er sagt að hann megi ráðstafa eins og hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Til verkefna sjóðsins skv. 2. gr. má ekki verja hærri upphæð en svo að afskriftir vegna verkefnanna rúmist innan ramma rekstraráætlunar. Rekstraráætlun sjóðsins skal miðast við að ekki sé gengið á eigið fé hans.``

Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur að það má ekki ganga á eigið fé, sjóðurinn má hætta fé sem nemur vöxtum af fénu. Það geta orðið svona 200 milljónir á ári. Það eru nú öll ósköpin. Það er það sem hann getur sett í áhættusaman rekstur. Því ef hann setur peninga í áhættusaman rekstur þá verður hann nánast að reikna með því að tapa þeim. Þannig er það í áhættusömum rekstri og nýsköpun. Ætli menn að taka upp einhverja hugmynd frá hugvitsmanni og fjárfesta í henni þá eru mjög miklar líkur, jafnvel 90% líkur á því að hugmyndin gangi ekki upp. Það er bara eðlilegt og þá eiga menn að tapa með bros á vör. En það þýðir líka að þessi sjóður getur ekki sett nema í hæsta lagi um 200 milljónir í nýsköpun. Það eru nú öll ósköpin. Og við þetta eru bundnar 4.000 milljónir af ríkisfé. Það verður að sjálfsögðu bundið í spariskírteinum og öðru slíku eða skuldabréfum sem hér er talað um í byrjun.

Menn gátu að sjálfsögðu ekki látið af þeim vana sínum, menn eru alltaf með svona vana, að láta opinber fyrirtæki hafa einhver forréttindi. Þessi tvö fyrirtæki sem við ræðum hér um, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, eiga ekki að borga stimilgjöld. Hvers vegna í ósköpunum ekki? Þeir eru í samkeppni við einkaaðila sem þurfa að borga stimpilgjöld sem eru ákaflega óréttlát og mjög þungbær. En þessi fyrirtæki skulu ekki borga það. Og meira að segja Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á ekki að borga tekjuskatt né eignarskatt. Ja, þungur er vaninn og mikil vanafestan hjá þeim aðilum sem semja þessi lög. Af hverju í ósköpunum skyldi þessi sjóður og þessi banki ekki borga skatta eins og önnur fyrirtæki?

Ég ræddi um það fyrr í dag um hlutafjárvæðingu bankanna að samkeppnin væri að grafa undan bönkunum og það fjaraði undan þeim nokkuð hratt --- ekki einu sinni hægt. Það fjarar hratt undan þeim. Samkeppnin er á öllum sviðum, í langtímalánum, skammtímalánum, til einstaklinga og fyrirtækja og líka á innlánshliðinni. Þannig að þar fjarar hratt undan þeim. Þessi banki verður í nákvæmlega sömu stöðu, það mun fjara hratt undan honum líka.

Það má kannski segja að það sé allt í lagi, erlendir bankar muni halda uppi samkeppni og lækka vexti og koma hér með atriði sem gagnast íslensku atvinnulífi. Það má kannski segja að það sé allt í lagi. En það er einn ókostur við það. Það kostar töluvert fyrir menn að kynna sér markað, það kostar heilmikið fyrir erlenda banka að kynna sér íslenskan markað, íslensk lög og venjur og annað slíkt. Þannig að það verður alltaf dýrara fyrir íslensk fyrirtæki að taka lán hjá erlendum banka heldur en hjá vel reknum íslenskum banka.

Það mun koma niður á lífskjörum okkar í framtíðinni þegar þessir bankar hafa allir lagt upp laupana. Sem dæmi um þetta er að á Íslandi í dag er 3% vaxtamunur og af hverju koma útlendingar ekki í stríðum straumum og nota þennan vaxtamun? Það eru 3% hærri vextir hér á landi heldur en erlendis. Það er vegna þess að það kostar fleiri hundruð milljónir að kynna sér markaðinn, kynna sér lög og reglur og vita hvað markaðurinn þolir af innlánum og annað slíkt. Þess vegna helst vaxtamunur svona hár, vegna þessa kostnaðar við að kynna sér markaðinn. Ef við ekki fáum almennilegar innlendar bankastofnanir sem eru vel reknar og geta stundað samkeppni þá munum við þurfa að borga hærri vexti fyrir lánin okkar en fáum lægri vexti fyrir innlánin. Það kemur niður á lífskjörum þjóðarinnar í heild sinni.

[20:45]

Að mínu mati erum við að missa af ákveðnu tækifæri. Ég nefndi fyrr í dag þá möguleika sem internetið bíður upp á. Það verða alveg gífurlegir möguleikar eftir bara eitt eða tvö ár í bankaþjónustu. Bæði í útlánum og innlánum og þá getur maður lagt inn í banka hvar sem er í heiminum og fengið lán hvar sem er í heiminum ef viðkomandi lánastofnun veit eitthvað um hvernig maður stendur sig í fjármálum.

Ég ætlaði að koma með eina fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Má ég reikna með því, herra forseti, að ráðherra komi?

(Forseti (ÓE): Ráðherrann er í húsinu. Ég skal gera ráðstafanir til að sækja ráðherrann.)

Spurning mín er eftirfarandi: Ráðherra gat þess í andsvari í dag, að ég tel, að hann fæli efh.- og viðskn. að gera á þessum frv. ákveðnar breytingar. Hversu langt getur hv. efh.- og viðskn. gengið í þeim breytingum? Gæti hún t.d. lagt til með þennan Fjárfestingarbanka að rekstur þessara sjóða yrði bara seldur á uppboði í staðinn fyrir að steypa þeim saman í einn banka? Það er náttúrlega dálítið mikil breyting á frv. verð ég að viðurkenna. En það er spurning hvort það yrði heimilt eða hvort það yrði vel liðið að slíkar breytingar yrðu gerðar. Gæti hún t.d. lagt til að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins yrði ekki settur í gang? Í staðinn yrðu gerðar almennar breytingar á starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja? Þetta eru þær spurningar sem ég hef til hæstv. ráðherra.

Ég er á móti þessu frv. eins og menn hafa kannski skilið af máli mínu. Ég hefði frekar kosið lausnir sem ég tel að hefðu orðið þjóðinni miklu hagkvæmari, hefðu leitt til betri árangurs og hefðu getað bætt stöðu íslenskra fyrirtækja og íslenskra sparifjáreigenda og bætt lífskjör þjóðarinnar til framtíðar í verulegum mæli. Það hefur margoft verið bent á það að sú ríkisvæðing og sú hólfun sem er á íslenskum fjármagnsmarkaði sé mjög dýr og skaðleg fyrir lífskjör íslensku þjóðarinnar.