Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 20:56:43 (4463)

1997-03-13 20:56:43# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[20:56]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að kveðja mér hljóðs um stjórn fundarins. Rétt fyrir kvöldmatarhlé vöktum við stjórnarandstæðingar athygli forseta á því að þau tíðindi hefðu gerst að einn af nefndarmönnum í efh.- og viðskn. úr stjórnarliðinu hefði lýst andstöðu við málið og báðum forseta að gera ráðstafanir til að afstaða Sjálfstfl. kæmi skýrt fram í umræðunni þó svo að einn fulltrúi Sjálfstfl. væri þegar kominn. Nú er búið að flytja ræðu sem varð umtalsefni áðan og komið er í ljós, eins og hv. þm. Svavar Gestsson hefur dregið mjög skilmerkilega fram, að meiri hluti í efh.- og viðskn. er andvígur alla vega öðru frv., það er álitamál um nýsköpunarfrv., en er alla vega andvígur frv. um Fjárfestingarbankann. Ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að ef hægt væri að upplýsa okkur stjórnarandstæðingana, sem erum ekki lengur vissir um stöðu málsins í þessum tveimur þingflokkum. Hæstv. viðskrh. hefur sagt fyrir hönd síns þingflokks að það sé bara einn þingmaður sem sé ekki með þessum stjórnarfrv. Hér ber svo vel í veiði að formaður þingflokks Sjálfstfl. er hér staddur og getur kannski upplýst okkur stjórnarandstæðinga um stöðu þessa máls. Það er óþægilegt fyrir okkur þegar ráðandi einstaklingar í stjórnarliðinu --- kannski ekki óþægilegt því við fögnum þeirra sinnaskiptum, en við vildum mjög gjarnan vita hvort við getum búist við frekari umræðu og hvers við megum þá vænta í nefndarstörfum. Þetta er mjög óvanalegt sem gerist hér. Þó að stjórnarandstæðingar leggist gegn stjfrv. öðru hvoru þá er hér um að ræða þá einstaklinga í báðum þessum þingflokkum sem gerst þekkja til þessa máls. Það eru alvarleg tíðindi, herra forseti, þannig að mér þykir sérstök ástæða til að spyrjast fyrir um það hvort hægt væri að skýra málið nánar þannig að við stjórnarandstæðingar gætum flutt okkar rök í ljósi þeirra tíðinda sem hér hafa gerst.