Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 21:03:40 (4466)

1997-03-13 21:03:40# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[21:03]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég mun segja alveg eins og er að ég hef nú ekki heyrt jafnólýðræðislega athugasemd frá þingmanni lengi í þessum sal eins og frá hv. þm. Geir H. Haarde áðan. Hvað sagði hv. þm. Geir H. Haarde? Hann sagði að allir þeir þingmenn Sjálfstfl. sem ekki tala í málinu væru þar með búnir að afsala sér rétti sínum til að gera athugasemdir við málið. Hann var í raun og veru að segja að eini maðurinn sem hefði athugasemdir að gera við málið væri hv. þm. Pétur H. Blöndal. Aðrir þingmenn hefðu engar athugasemdir að gera við þetta mál. Ég fullyrði það að hv. þm. Geir H. Haarde getur ekki talað svona fyrir hönd allra þingmanna Sjálfstfl. vegna þess að ég veit að fjöldinn allur af þeim hefur margar athugasemdir að gera við þetta frv. og mér finnst að hann beiti agavaldi sínu á sína þingmenn með óeðlilega mikilli hörku í þessari athugasemd sinni sem hann lét falla hér áðan. Hann er að reyna að handjárna alla hina af því að þeir biðja ekki um orðið í umræðunni. Ég hef satt að segja aldrei áður heyrt tilraun af þessu tagi fyrr, til þess að handjárna heilan þingflokk eins og hv. þm. Geir Haarde gerði áðan. Það er alveg ótrúlegt.

Síðan kom annað atriði fram í ræðu hans áðan sem er mjög merkilegt og til umhugsunar og það er að hv. þm. sagði: ,,Þetta er eins og hvert annað stjfrv.``, hann sagði það, ,,en við munum hlýða á allar uppbyggilegar tillögur.`` Það er því auðvitað alveg augljóst mál að þrátt fyrir handjárnstilraunina, gerir formaður þingflokksins sér ljóst að málið er á mjög tæpu vaði. Og þó að efh.- og viðskn. hafi auðvitað ekki löggjafarvald eins og hæstv. viðskrh. benti á hér áðan, þá eru hún þó úrslitanefnd í þessu máli og það sem kemur frá henni er úrslitaatriði. (ÖS: Það þarf fóthlekki líka.)