Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 21:08:32 (4468)

1997-03-13 21:08:32# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., GHH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[21:08]

Geir H. Haarde (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það getur ekki sætt tíðindum og allra síst fyrir hv. þm. Ágúst Einarsson sem hefur mikla þingreynslu að baki eins og við vitum, kom hér fyrst inn á þing 1978, að stjfrv. hafi meiri hluta á bak við sig. Það liggur í hlutarins eðli og það vita menn að stjfrv. kemur ekki fram nema búið sé að fara með það fyrir þingflokksfund í báðum stjórnarflokkunum eða þeim sem mynda meiri hluta á hverjum tíma og tryggja því fylgi. Ég undrast að menn skuli hugsa svo ólýðræðislega að gera því skóna að það sé eitthvað óeðlilegt við það að virtur þingmaður eins og Pétur Blöndal sem vissulega hefur sérþekkingu í þessum málaflokki skuli segja sínar skoðanir jafnvel þó að þær séu öndverðar við það sem lagt er til í frv. Ég tel þvert á móti að það sé styrkur og stuðningur að því að slík sjónarmið komi hér fram og mjög eðlilegt að hv. þm. lýsi þeim sjónarmiðum hér eins og hann gerði þegar málið var tekið fyrir og rætt og afgreitt í þingflokki sjálfstæðismanna.

Ég verð að gera örlitla athugasemd við ummæli hv. þm. Svavars Gestssonar frá því áðan. Það er óskað eftir því að ég skýri frá því hver sé afstaða þingflokks sjálfstæðismanna. Ég hef gert það. Síðan gerir hann athugasemd við það, kallar það ólýðræðislegt að ég lýsi því hver sú afstaða er. Það er ekki hægt að hafa þetta á báða vegu. Annaðhvort hefur maður umboð til þess að tala fyrir hönd þingflokksins eða ekki. Ég tel að ég hafi það í þessu máli eins og í flestum málum. Afstaða þingflokksins liggur skýrt fyrir og það er ekkert ólýðræðislegt við það að skýra frá henni. Ég geri alveg ráð fyrir því að einstakir þingmenn í okkar flokki eins og í fleiri málum geti hugsað sér einhverjar breytingartillögur eða tilfæringar í þessu. Við munum auðvitað bara skoða það. Til þess er nefndarstarfið á Alþingi. Til þess hafa verið valdir hinir færustu menn í efh.- og viðskn. sem hafa sérþekkingu, bakgrunn og menntun til þess að vinna að þessum málum. Þeir hafa hæfileika eins og hv. þm. Ágúst Einarsson sem er einn af leiðtogum efh.- og viðskn. Hann er varaformaður þar. Menn hafa verið valdir í þetta út frá sínum mannkostum og sínum hæfileikum á þessu sviði og við verðum að gefa mönnum svigrúm til þess að skoða allar breytingartillögur og allar hugmyndir sem fram koma í þessu máli.

Ég treysti efh.- og viðskn. mjög vel til þess að vinna úr þeim efniviði sem hér er fram kominn. Meginstefnan liggur fyrir í frv. Við hana er fylgi og ég fullyrði meirihlutafylgi í þinginu. Ef menn koma með góðar og skynsamlegar brtt. í efh.- og viðskn. þá munu þær að sjálfsögðu verða skoðaðar á vettvangi stjórnarflokkanna. Ég hef enga trú á öðru en við leysum þetta mál og við ljúkum þessu máli enda er full nauðsyn á því að klára þetta og leggja til hliðar þær vangaveltur sem hafa verið þessari starfsemi til trafala undanfarin ár. Þær hafa verið henni til trafala vegna þess hvernig óvissan um þessa hluti hefur þróast. Nú skulum við bara ljúka þessu á grundvelli þess stjfrv. sem hæstv. viðskrh. hefur lagt fram.