Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 21:50:12 (4475)

1997-03-13 21:50:12# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[21:50]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segist vera sérfræðingur í kosningaloforðum Framsfl. Það er gott að vita til þess og það eru reyndar fleiri. Hv. þm. er sýnilega ekki sérfræðingur í stefnu Alþfl. vegna þess að ef ég man rétt mun það vera stefnuatriði frá síðasta flokksþingi Alþfl. að sameina fjárfestingarlánasjóðina (ÖS: Og líka hinu næstsíðasta.) Og hinu næstsíðasta líka, ég tala nú ekki um. Þetta hefur þá lengi verið á dagskrá fyrir utan það að forveri minn í starfi, þáv. hæstv. iðn.- og viðskrh., Jón Sigurðsson, barðist fyrir nákvæmlega sömu breytingu á þessu fyrirkomulagi og hér hefur verið lagt til.

Staðreyndin er bara sú að í 10--15 ár eins og kom hér fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni áðan hafa menn verið með umræðu í gangi að nauðsynlegt væri að gera breytingar. Hver flokkurinn á fætur öðrum hefur verið í ríkisstjórn þennan tíma, þessi 10--15 ár. Af hverju hafa menn ekki hrint þessum breytingum í framkvæmd? Hver skyldi ástæðan vera? Svo er talað um að menn verði að þora að fara í þetta, gera þetta með þessum hætti, atvinnulífinu komi þetta ekkert við, gera það sem hagkvæmast er að gera og berja þetta hér í gegn. Af hverju hafa menn ekki gert það á þessum 10--15 árum?

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að hann hefði stutt þetta fyrir 10--15 árum. Það er ekki vitlausara en það á þeim tíma. (SvG: Síðan eru 10--15 ár.) Akkúrat. En, hv. þm.: Af hverju gerðu menn þetta ekki fyrir 10--15 árum síðan? Það er spurningin sem þarf að svara. Það er einfaldlega þannig að um þetta mál hefur verið mikill pólitískur ágreiningur í 10--15 ár og ég heyri að það er ágreiningur líka um málið enn, hvernig eigi að standa að þessu. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta er viðkvæmt mál og um það eru skiptar skoðanir.

Eins og hér hefur komið fram er mjög mikilvægt að aflétta þeirri óvissu sem verið verið hefur í kringum starfsemi þessara stofnana, hvort sem það eru fjárfestingarlánasjóðirnir eða viðskiptabankarnir. Það sem hefur núna gerst er að betri og víðtækari pólitísk samstaða hefur myndast um þessar aðgerðir nú en í mjög langan tíma. Atvinnulífið hefur hvað eftir annað á undangengnum tíu árum sett sig algerlega gegn þeim breytingum sem þar hafa verið boðaðar, m.a. með sameiningu sjóða. Einstakir flokkar hafa líka gert það.

Ég minnist þess úr umræðunni um Landsvirkjun að hv. þm. Svavar Gestsson kom oft í ræðustól og fordæmdi þau vinnubrögð, ef ég man rétt, sem þar voru viðhöfð, að þingið ætlaði ekki að hlusta á þá aðila sem mestra hagsmuna höfðu að gæta víða um land, sveitarstjórnir. Þær hefðu skrifað hvert bréfið á fætur öðru, hverja ályktunina á fætur annarri til iðnn. og varað við þeim aðgerðum sem þar átti að fara í. Lá mér á hálsi fyrir að leita ekki samráðs við þessa aðila. Það sem ég hef gert nú er að ég hef leitað samráðs við atvinnulífið, iðnaðinn, sjávarútveginn og báða þingflokka ríkisstjórnarinnar og um þetta mál hefur núna skapast sú samstaða innan atvinnulífsins, iðnaðar og sjávarútvegs og í stjórnarflokkunum að menn leggja þessi mál núna fram sem stjórnarfrumvörp og telja að þetta sé sú leið sem hægt sé að fara til að ná þeim breytingum fram sem menn hafa verið að berjast fyrir í 10--15 ár.

Milli mín og hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar er enginn grundvallarágreiningur. Þetta er ekki grundvallarágreiningur. Við höfum báðir það meginmarkmið að leiðarljósi að stefna að því að veita íslensku atvinnulífi betri fjármálaþjónustu og sem ódýrast. Menn greinir hins vegar á um eftir hvaða leiðum á að nálgast þetta. Það hefur komið hér fram að hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson er ekki stuðningsmaður þessa frv. Það kemur mér ekkert á óvart. Ég hef vitað það mjög lengi einfaldlega vegna þess að í þingflokki framsóknarmanna fór fram mjög mikil umræða um þessar leiðir áður en sú ákvörðun var tekin að leggja frv. fram. (SvG: Var hann þess vegna settur af?) Hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson hefur starfað fyrir viðskrh. að undirbúningi lagafrumvarpanna um viðskiptabankanna (Gripið fram í.) og gerði það, skilaði sínum tillögum ásamt tveimur öðrum nefndarmönnum, hv. þm. Geir H. Haarde og seðlabankastjóra Birgi Ísleifi Gunnarssyni. Sú nefnd var á engan hátt beðin um að fjalla um sjóðina þannig að það hefur ekki verið á verksviði hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar að fjalla um það fyrir mína hönd þannig að það þýðir ekki að tala um að einhver hafi verið settur af í þeim efnum.

Það sem skiptir höfuðmáli í þessu er það að mínu viti að um leiðina sem er valin er víðtækari sátt en oft áður. Markmiðið er það sem allir eru að stefna að: Bætt fjármálaþjónusta með ódýrari hætti. Með þessu frv. eru menn að fækka lánastofnunum. Menn eru með fjórar ríkisreknar lánastofnanir í dag, Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð og Útflutningslánasjóð, sem er reyndar sáralítið starfandi. Með því að sameina þessa sjóði verða lánastofnanirnar tvær: Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., hlutafélag sem á að einkavæða og verður ekki ríkisbanki nema í mjög skamman tíma. Í öðru lagi hefðu menn farið þá leið sem hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson bendir á að setja sjóðina inn í bankana þá er í bönkunum er 4--5% vaxtamunur. Í sjóðunum er vaxtamunurinn hins vegar í kringum 2%, í öðrum rétt yfir 2% og í hinum rétt undir 2%. Í þeirri áætlun sem núna hefur verið gerð af löggiltum endurskoðanda, Stefáni Svavarssyni, af því að menn efuðust um útreikningana, sem er spá fyrir fjárfestingarbankann og er plagg sem efh.- og viðskn. mun fá í hendur til þess að fara yfir þegar í gegnum þetta mál verður farið, er gert ráð fyrir því í fyrstu að vaxtamunurinn verði 1,8%, lægri heldur en núna í sjóðunum, og geti lækkað niður í 1,5%. Með þessu erum við að draga úr vaxtamun til að geta þjónustað atvinnulífið ódýrar, fækkað lánastofnunum, náð fram hagræðingu og 130 millj. kr. sparnaði, það kom fram í minni framsögu, af því að slá þessum stofnunum saman.

Menn geta síðan leikið sér með tölur og velt fyrir sér hver arðsemin þarf að vera svo hægt sé að sýna fram á að ekki sé hægt að reka viðkomandi stofnun. Það er hægt í öllum verkefnum og öllum fjárhagsáætlunum sem menn setja upp ef menn gera það ríkar arðsemiskröfur að sýnt er fram á að viðkomandi verkefni, viðkomandi fyrirtæki, standist þær ekki. Ég ætla ekki að fullyrða að þessi fjárfestingarbanki stæðist ekki 15% arðsemiskröfu, ég ætla ekkert að fullyrða að svo sé ekki. Ég hef ekki látið kanna það sérstaklega. Samkvæmt þessari áætlun og spá fyrir fjárfestingarbankann sem Stefán Svavarsson hefur gert getur hins vegar arðsemin orðið strax á bilinu 8--9% og hún fer síðan hækkandi. Þær forsendur sem hér eru lagðar eru því alveg skýrar.

Hér er um öflugan banka að ræða, það er alveg hárrétt. Það verður erfitt fyrir viðskiptabankana að keppa við hann. Viðskiptabankarnir eiga hins vegar að mínu viti ekki vera í beinni samkeppni við hann. Að einhverju leyti verður það um langtímalánin og fjárfestingarlánin, en viðskiptabankarnir eru líka farnir af stað með fjárfestingarlán. Það gæti líka farið svo að fjárfestingarbankinn yrði þægilegur samstarfsaðili fyrir viðskiptabankana sem eru litlir í dag og þurfa að stækka, þurfa að auka eigið fé sitt. Þegar sú regla verður komin að enginn einn aðili geti fengið lán, menn megi ekki lána einum aðila meira en 25% af eigin fé, þá þyrftu menn jafnvel að hafa svona sterkan banka eins og Fjárfestingarbankann sem aðila til þess að lána á móti. Ég segi: Þegar búið er að formbreyta þessum sjóðum sem núna eru hver í sínu lagi, koma þeim inn í þennan banka, bjóða til sölu á markaði, þá er ekkert sem bannar það að bankarnir kaupi og þá kemur í ljós, ef það verður gert, hvers virði sjóðirnir eru. Þannig fær þjóðin eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir það sem hún á í þessum fyrirtækjum. En með því að slá þeim saman við bankana kemur það ekki í ljós fyrr en það verður farið að selja hlutabréf ríkisins í bönkunum. Ég tel því að allar forsendur séu til þess að þessi banki geti gengið, hann geti skilað íslensku atvinnulífi hagstæðari lánum sem íslenskt atvinnulíf þarf á að halda, gert íslenskt atvinnulíf samkeppnishæfara en það er í dag, samkeppnishæfara við atvinnulífið í löndunum í kringum okkur og skapað okkur þannig betri lífskjör.

Ágreiningurinn stendur hins vegar um hvaða leið skuli velja í upphafi og ég skil það. Ég geri mér grein fyrir því að það eru margar leiðir sem hægt er að fara í þessu. Sumar eru færar, aðrar eru ófærar. Ég tel að þetta sé sú leið sem sé fær.