Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:04:29 (4479)

1997-03-13 22:04:29# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:04]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra svaraði engu hinni hörðu gagnrýni hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar sem talaði um 15 ára stökk aftur í tímann, mjólkurbúðastigið. Það er dálítið merkilegt hér á ferðinni því að ráðherra sagði að það væri sátt um málið.

Það hefur komið skýrt fram í umræðunni að þetta er vond leið. Þetta er gamaldags leið, þetta er óhagkvæm leið, þetta er ekki leið til sparnaðar eða til einhverrar sóknar í íslensku atvinnulífi. Hún gerir það ekki. Það hafa komið margar röksemdir fram í umræðunni sem styðja það. Hins vegar hefur ráðherra ekki komið með nein sterk rök fyrir þessu máli, en hann talaði um sátt. Og það er ein sátt í þessu máli. Sáttin er fólgin í því að þetta frv. ásamt hinum tryggir óbreytt valdajafnvægi. Það tryggir valdajafnvægi Sjálfstfl., Framsfl., Landssambands ísl. útvegsmanna, Samtaka fiskvinnslustöðva, Samtaka iðnaðarins. Þau fá allt sitt. (Forseti hringir.) Þetta tryggir líka hagsmuni stóru fyrirtækjanna, Eimskips, Sjóvá, Olíufélagsins og VÍS. Þau fá líka sitt. En ég bendi hæstv. ráðherra á að stjórnarþingmennirnir sem lögðust gegn þessu eru ekki aðilar að valdaklíkum baklands þessara stjórnarflokka.