Lánasjóður landbúnaðarins

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:52:36 (4488)

1997-03-13 22:52:36# 121. lþ. 90.5 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þó að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafi lýst stuðningi sínum hér við þetta frv. þá var mál hans eigi að síður áfellisdómur yfir vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar að tvennu leyti. Í fyrsta lagi bendir hann á mjög alvarlegan tæknilegan annmarka á frv. Hann bendir á að lögin eigi ekki að taka gildi fyrr en í ársbyrjun 1998 og þar með verður þessi sjóður ekki til fyrr en þá. Eigi að síður á samkvæmt bráðabirgðaákvæði að skipa honum stjórn. Það á að skipa sjóði sem ekki er til stjórn. Þetta gengur auðvitað ekki, herra forseti. Það sem er enn merkilegra er að hv. þm. bendir á að svipuð vinnubrögð hafa áður verið uppi varðandi tiltekið frv. hjá hæstv. ríkisstjórn og nefnd sem hann veitir forstöðu neyddist til að lagfæra það. Maður veltir því fyrir sér hvers konar vinnubrögð eru uppi hjá hæstv. ríkisstjórn þegar henni verða á svona glöp. Þetta var hin fyrri áfellisdómur hv. þm. yfir frv.

Hinn var miklu merkilegri. Hv. þm. gat þess að að vísu væri það svo að þetta frv. væri skref fram á við. En áður hafði hann efnislega tekið undir ummæli og athugasemdir hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar þegar hann sagði að það orkaði auðvitað tvímælis að um landbúnaðinn skyldi ekki skipaður sami lagarammi og sömu leikreglur og gilda um aðra hluta atvinnulífsins. Það er vert að undirstrika þetta, herra forseti, því að þó hv. þm. kunni ef til vill að hafa verið beygður til hlýðni við þetta frv. þá er alveg ljóst af máli hans að hann telur að það gangi of skammt. Hann er ósammála því. Það er merkilegt, herra forseti, vegna þess að þetta er þriðji þingmaður stjórnarliðsins sem kemur upp á þessu kvöldi um jafnmörg frv. og lýsir í rauninni efnislegri andstöðu við þá stefnu sem ríkisstjórnin er að birta hér í kvöld. Því auðvitað er það svo, herra forseti, að það er hárrétt sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að það er óeðlilegt að hafa þennan hátt á og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er nægilega skynsamur til að skilja það. En er hann nægilega kjarkaður til að viðurkenna það hér í orði?