Lánasjóður landbúnaðarins

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:54:51 (4489)

1997-03-13 22:54:51# 121. lþ. 90.5 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:54]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég sagði áðan hefur greinilega ekki komist nægilega skýrt til skila til hv. 15. þm. Reykv. Ég lýsti yfir afdráttarlausum stuðningi mínum við frv. Ég velti því hins vegar upp sem var mjög eðlilegt í ljósi þess að við vorum að ræða hér önnur mál fyrr í þinginu hvort það væri rétt að skipa þessum málum þannig að þessi sjóður hefði runnið inn í hinn nýja fjárfestingarsjóð. Ég vakti hins vegar athygli á því sem mér fannst vera stóra málið og það var að verið væri að hverfa í veigamiklum atriðum frá því mikla millifærslukerfi sem hefur ríkt í landbúnaðinum. Ég vakti líka athygli á því sem mér fannst nauðsynlegt, að hér áður og fyrr hefur það verið stefna manna að nýta þessa millifærslu til þess að m.a. auðvelda nýliðun í landbúnaði o.s.frv.

Síðan var annar punktur sem hv. þm. nefndi og mér finnst mjög sérkennilegur og er ekki einskorðaður við þennan hv. þm. heldur ýmsa aðra. Hann er að þegar þingið fær það verkefni í hendurnar að fara yfir efnisatriði frv. þá finnst mér það ekki vera að lýsa neinu sérstöku vantrausti eða slæmum vinnubrögðum þó þingið geri breytingar á frv. Mér finnst það mjög sérkennilegt þegar verið er að tala um að þing neyðist til að gera breytingar því auðvitað er það þannig að þingið fer sjálfstætt ofan í frv. og ofan í þingmál og gerir þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Ef við hefðum svona mikla ofurtrú á því framkvæmdarvaldi sem er að undirbúa svona frumvarpstexta þá hefðum við auðvitað enga sérstaka þörf á því að láta frv. fara í gegnum þrjár umræður í þinginu og til nefnda. Mér finnst þess vegna, virðulegi forseti, að í máli hv. þm. felist einhvers konar vanmetakennd gagnvart þinginu og einhvers konar oftrú á famkvæmdarvaldinu sem kann, virðulegi forseti, að helgast af því að hv. þm. sat sem ráðherra um nokkurt skeið og hefur kannski ofmetnast af því að hafa setið þar og farið að líta þannig á að þingið væri einhver afgreiðslustofnun. En það er auðvitað ekki þannig, virðulegi forseti. (SvG: Það er viðreisnarstjórnin sem hann er að hugsa um.)