Lánasjóður landbúnaðarins

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 23:01:01 (4492)

1997-03-13 23:01:01# 121. lþ. 90.5 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[23:01]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er spurning hvort vísa ætti þessu máli kannski til samgn. með hliðsjón af þeim ræðuhöldum sem hér hafa farið fram í kvöld, þar sem hv. þm. er eini þingmaður Sjálfstfl. sem hefur talað í málinu sem bendir til þess samkvæmt skýringum Geirs Hilmars Haardes fyrr í kvöld að allir hinir séu með málinu þannig að samkvæmt formúlu hv. þm. Geirs Haardes er það þannig að allir þeir sem ekki tala, þeir sem þegja, eru með.

Varðandi málið að öðru leyti ætla ég ekki að segja neitt annað en það að mér finnst að málið eigi að fara til efh.- og viðskn. og ég flyt tillögu um að það fari til efh.- og viðskn. Þetta er partur af þessu sjóðadrasli sem er til hér í þjóðfélaginu og það er eðlilegt að málið fari til efh.- og viðskn. Hún er vön að vera með svoleiðis mál og ég segi þetta m.a. í tilefni af umræðunum um nýsköpunarlánasjóð sem var vísað til þeirrar nefndar sem auðvitað hefði verið hugsanlegt að vísa til hv. iðnn. en niðurstaðan er nú þessi að menn láta þetta yfir sig ganga og þar af leiðandi verði frv. um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð sem er löngu komið til iðnn., flutt þaðan til efh.- og viðskn. Þetta mál á auðvitað að fara til efh.- og viðskn. Ég boða það, herra forseti, að ég mun flytja um það tillögu á mánudaginn, ef þörf krefur, að þetta mál fari þangað en ekki til landbn., það hefur ekkert þangað að gera.

Varðandi málið að öðru leyti ætla ég að segja það út af þessum umræðum um bráðabirgðaákvæði að mér sýnist að í rauninni sé einfalt að leysa það. Það sé einfaldast að leysa það með þeim hætti að fella það niður og hæstv. landbrh. gefi yfirlýsingu um að hann ætli að skipa undirbúningsnefnd sem verði nokkurn veginn eins skipuð og ætla má að stjórnin verði skipuð og síðan undirbúi þessi nefnd málið og svo taki lögin gildi 1. janúar 1998 eins og að öðru leyti er gert ráð fyrir. Ég er sammála hv. 1. þm. Vestf. um að það er ekki hægt að hafa þetta nákvæmlega svona, en ég held að það sé einfalt að leysa málið.

Að lokum, herra forseti, af því að ég ætla ekki að hafa langt mál, vil ég greina frá því hvernig ég skil frv. Ég skil það þannig að verið sé að leggja niður eða breyta þrenns konar gjöldum. Í fyrsta lagi stofnlánagjaldi sem er 0,1--0,2% af tilteknum stofni og skilar 26 millj. kr. á ári eða svo. Í öðru lagi neytendagjaldi sem er 1% af tilteknum stofni. Og í þriðja lagi jöfnunargjaldi sem er 1% af tilteknum stofni. Þetta stendur einhvers staðar í frv. að geri samtals um 360 millj. kr., þ.e. þessi tvö 1% gjöld.

Þá sýnist mér að hér sé um það að ræða að fella eigi niður gjöld upp á 386 millj. kr. en í staðinn eigi að taka upp gjald sem er 1,1% af veltu búvöru og tengdrar þjónustu búvöru eins og það er orðað í frv. Þetta gjald er talið gefa 165--170 millj. kr. þannig að samkvæmt þessu er um að ræða lækkun upp á 216--221 millj. kr. ef ég skil þetta frv. rétt. En hvernig á þá að bæta Stofnlánadeildinni upp þennan mismun? Hún þarf á því að halda, hún er með öfugan höfuðstól, hún er á hausnum. Það á að gera með því að hækka vexti. Og um hve mikið á að hækka vexti? Um 50%, þ.e. það á að hækka raunvexti úr 2% upp í 3%. Það er mikil hækkun og ég held að það væri æskilegt því að ég sé það ekki hér í plagginu að fá frá hæstv. ráðherra smáskýringu á því hvað þetta er mikil upphæð. Ég óttast það satt að segja að þessi framkvæmd sé ekki mikil jafnaðarstefna vegna þess að hún lendir kannski verst á þeim bændum sem búa við verst skilyrði í dag því að við vitum að það sem dregur markalínuna milli feigs og ófeigs í landbúnaði eru skuldirnar. Hér er því bersýnilega verið að leggja auknar byrðar á þá bændur sem skulda mest eins og staðan er í þessu máli og það er verið að flytja byrðarnar af öllum bændum, bæði óskuldugum og skuldugum, yfir á þá skuldugu eina og mér finnst það satt að segja ekki endilega skynsamlegt nema ég hafi sérstök rök fyrir því að þeir skuldugu hljóti að eiga að bera þetta. Einhverjir kunna að vera þeirrar skoðunar að þannig eigi það að vera. En þá bendi ég á það, herra forseti, að í ákvörðunum í efnahagsmálum á undanförnum árum hafa þær oft og tíðum gengið út á það að hlífa hinum verst settu og illa skuldugu þannig að ég sé ekki í fljótu bragði að það þurfi endilega að vera skynsamlegt að velta öllum þessum vanda yfir á þá bændur sem jafnvel búa við verst kjör af öllum bændum. Þess vegna set ég fyrir mitt leyti, án þess að vera neinn sérfræðingur á þessu sviði hafandi bara lesið frv. hér í kvöld í fjarveru góðra manna, fyrirvara við að það sé skynsamlegt að fjármagna þetta með því að skattleggja aukalega þá bændur í landinu sem skuldugastir eru.