Svör við fyrirspurn

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:11:03 (4501)

1997-03-17 15:11:03# 121. lþ. 91.92 fundur 256#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh., starfandi forsrh., fyrir út af fyrir sig að reyna að klóra í bakkann fyrir hönd hæstv. forsrh. sem er fjarstaddur. En ég er honum algerlega ósammála. Svarið er allt hið aumingjalegasta og hvað varðar þennan 3. tölul., þá er það auðvitað algjörlega fráleitt að hæstv. forsrh. eigi að komast upp með að svara ekki spurningu af þessu tagi sem er skýr og afmörkuð og ætti ekki að þurfa að taka nema eftirmiðdagsstund fyrir einn embættismann að draga saman upplýsingar um. Það liggur fyrir að það kostaði 14 þús. kall inn á þessa ráðstefnu og það hefði ekki tekið nema 10 símtöl eða 15--20 símtöl að hringja í ráðuneytin og helstu stofnanir og fá upp gefið hve margir hafi sótt ráðstefnuna frá hverri og einni stofnun eða hverju og einu ráðuneyti. Auðvitað kostar stundum vinnu að draga saman þær upplýsingar sem verið er að biðja um í fyrirspurnum, en þetta er tiltölulega einföld fyrirspurn um í raun og veru lítið mál hvað umfang varðar borið saman við margt annað.

Þingsköpin gefa visst svigrúm í þessum efnum vegna þess að þegar beðið er um skriflegt svar, þá stendur að það skuli að jafnaði svara eigi síðar en 10 virkum dögum eftir að fyrirspurn er lögð fram. En svigrúm er haft þarna ef þannig skyldi standa á að það þyrfti nokkra daga í viðbót að draga saman upplýsingar og iðulega höfum við þingmenn þurft að bíða lengi eftir skriflegum svörum eins og kunnugt er. Það má þá líka gera bráðabirgðagreinargerð eða skil með svari og láta þá koma þar fram að verið sé að afla frekari upplýsinga eða vinna þær. En að ætla að afgreiða málin með þessum hætti er algjörlega ólíðandi og það er stórhættulegt fyrir þingið ef það ætlar að sitja þegjandi og horfa á þróun af þessu tagi eiga sér stað. Ég ítreka því að lokum, herra forseti, þá áskorun mína til hæstv. forseta að hann og forusta þingsins standi með okkur þingmönnum í því að tryggja okkar rétt hvað þetta snertir. Og það er alveg greinilegt að það þarf að veita hæstv. ráðherrum miklu meira aðhald en verið hefur til þess að ekki fari illa hér.