Breytingar í lífeyrismálum

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:22:56 (4506)

1997-03-17 15:22:56# 121. lþ. 91.1 fundur 247#B breytingar í lífeyrismálum# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:22]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta er lýsandi dæmi um aðferðir núv. ríkisstjórnar. Það eru samin drög að frv. í fjmrn. þar sem skert eru réttindi launafólks. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það er gert. Svo þegar kemst upp um strákinn Tuma, þá er talað um að það skuli vera haft samráð. Ég bendi á að hæstv. ráðherra svaraði engu um hvað yrði með opinberu sjóðina þar sem greitt er meira en 10%, það er greitt 15,5% í þá sjóði, hvort þeir fái ekki þá greiðslu inn í sína sjóði heldur fari hluti af henni á opinn peningamarkað.

Ég skil svar ráðherra einnig þannig að það hafi verið ætlunin að skerða 10%, að hluti af 10% átti að geta farið annað, og það hafi verið það sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson dró til baka eftir kröfu verkalýðshreyfingarinnar í viðræðum um helgina. En ég vildi gjarnan fá að vita, herra forseti, hvenær þetta frv. verður lagt fram í ríkisstjórn, hvenær það verður kynnt í stjórnarflokkunum því að stjórnarliðar hafa ekki heyrt um þessar hugmyndir og hvort þetta frv. verður á forgangslista ríkisstjórnarinnar í þingstörfum í vor. Er það ætlun ríkisstjórnarinnar að afgreiða þetta frv. á yfirstandandi þingi?