Breytingar í lífeyrismálum

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:26:55 (4509)

1997-03-17 15:26:55# 121. lþ. 91.1 fundur 247#B breytingar í lífeyrismálum# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:26]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. tekur ekki sönsum í þessu máli. Það er engin skerðing sem hér á sér stað, engin skerðing. Við verðum að hafa í huga að ýmsir í þessu þjóðfélagi telja að það megi gilda meira valfrelsi í lífeyrissjóðamálum. Við verðum að hafa í huga að það eru kjarasamningar í gildi á milli aðila á vinnumarkaði og þeir ganga út frá því að þeir sem eru tryggðir hjá sjóðunum hafi lítið sem ekkert um það að segja hvert peningarnir þeirra fara, hvernig þeir eru notaðir og hvernig ráðstafað. Um þetta er tekist á í þjóðfélaginu. Það sem okkur gengur til í þessari vinnu er að ná samkomulagi á milli ólíkra sjónarmiða og ástæðan fyrir því að þetta spurðist út var einfaldlega sú að við höfðum þá kynnt þetta ákveðnum fulltrúum sem áttu að vinna niðri í Karphúsi. Þess vegna fóru þessar upplýsingar niður eftir og það er ekkert við það að athuga.

Það sem ég held að hafi hins vegar valdið þessum titringi var að Landsbankinn keypti hluta af VÍS á sama tíma og við vorum að vinna að þessu eðlilega starfi, sem ég tel vera og held að við ættum að vinna áfram að og helst að ljúka í vor allra hluta vegna. Það er það sem hefur valdið þessum titringi hygg ég eins og hv. þm. gat reyndar um í útvarpi ef ég heyrði rétt í gær.