Dómur Hæstaréttar um jafnrétti til launa

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:40:56 (4518)

1997-03-17 15:40:56# 121. lþ. 91.1 fundur 249#B dómur Hæstaréttar um jafnrétti til launa# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:40]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég verð enn á ný að taka undir það sem hv. þm. sagði, eins og ég sagði í upphafi síðustu ræðu minnar. Ég tel að fólk eigi að hafa sömu laun fyrir sömu vinnu og það eigi ekkert að fara í grafgötur með slíkt. En þegar við tölum um laun og launakjör, þá tel ég að við getum ekki einungis byggt á þeirri upphæð sem kemur í launaumslagi. Það verði að taka tillit til mismunandi réttinda og þar beri okkur að virða að kjarasamningar eru ólíkir. Það liggur fyrir að fæðingarorlof og veikindaréttur opinberra starfsmanna er betri en yfirleitt á almenna vinnumarkaðinum og ég tel að það megi virða til fjár og það hafa stéttarfélögin gert í raun með því að leggja mismunandi áherslur. Það er enginn vafi á því að opinberir starfsmenn hafa lagt áherslu á þessi félagslegu réttindi.

Ef Hæstiréttur segir hins vegar að þrátt fyrir þetta skuli launin vera jöfn, þá komumst við í mikil vandræði og mín viðbrögð eru þau: Reynum að koma launaákvörðunum sem mest út á vinnustaðina sjálfa þar sem auðvitað verður að semja með aðild viðkomandi stéttarfélaga.