Starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:00:55 (4532)

1997-03-17 16:00:55# 121. lþ. 91.95 fundur 246#B starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:00]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í tilefni af þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið bornar fram get ég í upphafi staðfest að dómsmrn. veitti leyfi til þess í febrúarmánuði 1991 að tilteknar skammbyssur í eigu lögreglu yrðu seldar. Í samræmi við þær reglur er um sölu á skammbyssum gilda geta einstaklingar fengið keyptar nýjar eða notaðar skammbyssur að fengnu leyfi dómsmrn. Slík leyfi eru háð tilteknum þröngum skilyrðum. Sala þeirra vopna er spurning hv. þm. lýtur að fór á sínum tíma fram í samræmi við þessar reglur samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið.

Um þessar mundir er til meðferðar í ríkisstjórn frv. til vopnalaga þar sem m.a. er ráð fyrir því gert að strangari reglur gildi í þessum efnum en verið hefur. Þar er að því stefnt að vopn sem þessi verði ekki seld á almennum markaði.

Hvað varðar fjárgreiðslur eða fyrirgreiðslur lögreglu vegna upplýsinga er þetta að segja: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum í Reykjavík veitti ráðuneytisstjóri dómsmrn. árið 1983 lögregustjóranum í Reykjavík munnlega heimild til að greiða uppljóstrunarmanni fyrir upplýsingar sem leitt hafi til haldlagningar á fíkniefnum. Sú heimild mun hafa verið bundin því skilyrði að hófs yrði gætt við ákvörðun greiðsluupphæðar og að hún færi eftir mati lögreglustjóra hverju sinni. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið um framkvæmd slíkra mála hjá lögreglustjóranum í Reykjavík mun þeim hafa verið háttað í samræmi við ofangreinda munnlega heimild en slíkar greiðslur munu vera fátíðar samkvæmt upplýsingum lögreglunnar.

Engin skýr lagaheimild er fyrir slíkum greiðslum fyrir upplýsingar í lögum en ráðuneytið hefur ákveðið að fela ríkislögreglustjóra að gera tillögur um það hvort slíkar greiðslur eigi að leyfa og þá eftir hvaða almennu reglum. Eins og kunnugt er eru slíkar greiðslur í öðrum löndum mikilvægur hluti af rannsókn afbrotamála, ekki síst fíkniefnamála.

Að undanförnu hefur nokkuð fjölmiðlaumræða orðið um það að lögreglufulltrúi hjá ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hafi skrifað sem meðmælandi á byssuleyfi tiltekins afbrotamanns. Þeirri umsókn um byssuleyfi var synjað í dómsmrn. Jafnframt hefur verið til umfjöllunar reynslulausn sem sami maður fékk í júlímánuði 1991 eftir að hafa afplánað helming af þeirri refsingu er hann var dæmdur til að afplána. Fangelsismálastofnun ríkisins veitti umrædda reynslulausn að fengnum meðmælum fullnustumatsnefndar er starfaði þá samkvæmt reglugerð nr. 568/1988. Umsagnir fullnustumatsnefndar voru ekki rökstuddar sérstaklega á meðan hún starfaði en hún var lögð niður samfara gildistöku reglugerð nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma.

Í þessu efni er rétt að taka fram að óheimilt er með öllu og refsivert af hálfu lögreglu að hylma yfir grun um refsiverða háttsemi, semja um að menn geti sloppið við viðurlög eða ákæru eða á nokkurn annan hátt að láta grun um refsiverða háttsemi afskiptalausa. Slíkt væri hvort tveggja í senn brot í opinberu starfi sem og hlutdeild í viðkomandi afbroti. Af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík hefur því alfarið verið hafnað að slíkt hafi gerst eða tíðkast hjá lögreglunni í Reykjavík. Ég hef ekki ástæðu til að vefengja þá fullyrðingu. En það er vissulega óþolandi fyrir lögregluna í Reykjavík að sitja undir slíkum ásökunum. Almenningur á að sjálfsögðu rétt á að öllum efasemdum í þeim efnum verði eytt. Það er mjög mikilvægt til þess að fyllsti trúnaður ríki á hverjum tíma um starfsemi lögreglunnar. Af þeim sökum hefur ráðuneytið nú til mjög alvarlegrar skoðunar hvort ríkissaksóknara verður falið að taka það mál til sérstakrar rannsóknar sem hér hefur verið gert að umtalsefni.