Starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:05:53 (4533)

1997-03-17 16:05:53# 121. lþ. 91.95 fundur 246#B starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), MagnA
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:05]

Magnús Aðalbjörnsson:

Virðulegi forseti. Enginn er hafinn yfir gagnrýni. Löggæslan eins og aðrir hlutar stjórnsýslunnar er engin undantekning. En gagnrýnin verður að vera réttmæt og málefnalega sett fram og með rökstuðningi. Varast ber allan æsifréttastíl.

Heilbrigð gagnrýni og aðhald frá almenningi og stjórnvöldum er nauðsynleg. Öðruvísi skapast ekki gagnkvæmt traust milli borgara og lögreglu. Ég spyr: Eru einhverjar líkur á að þær sakir sem greinarhöfundur Mannlífs ber á fíkniefnalögregluna séu sannar? Hæstv. dómsmrh. verður að taka á málinu. Aðgerðaleysi elur á efasemdum.

Það hefur komið fram í viðtölum við yfirmenn lögreglunnar að notaðar hafi verið svokallaðar óhefðbundnar aðferðir í baráttunni við fíkniefnasalana. Hafi eitthvað farið úrskeiðis verður að lagfæra vinnulagið, lögbinda reglur og skapa lögreglunni það vinnuumhverfi að boðlegt sé. Það er almennt viðurkennt að lögreglan er í fjársvelti og það verður að gera kröfu til stjórnvalda að bæta þar úr. Fjölga verður í fíkniefnalögreglunni og gera henni kleift að koma sér upp þeim tækjum sem duga í baráttunni við undirheimana. Vandinn er um allt land. Útihátíðir á landsbyggðinni á sumrin eru kjörland fyrir fíkniefnasalana. Þeir flykkjast þangað í leit að nýjum fórnarlömbum og til þess að að fylla á hjá fíklunum.

Virðulegi forseti. Það verður að leggja allt í sölurnar til þess að markmið hæstv. dómsmrh. um fíkniefnalaust Ísland fyrir árið 2002 verði að veruleika.