Starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:07:40 (4534)

1997-03-17 16:07:40# 121. lþ. 91.95 fundur 246#B starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:07]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Fíkniefnavandinn hefur oft borist í tal hér á hinu háa Alþingi á þessu kjörtímabili en oftast vegna upplýsinga um vaxandi fíkniefnaneyslu, ekki síst meðal ungs fólks. Þær upplýsingar um starfsaðferðir fíkniefnalögreglunnar sem fram hafa komið í fjölmiðlum að undanförnu, einkum og sér í lagi í tengslum við einn meintan fíkniefnasala, eru nýtt sjónarhorn í umræðuna þar sem athyglin beinist að fíkniefnasölunni og að starfsaðferðum lögreglunnar í því sambandi.

Þær ásakanir sem koma fram í nýútkomnu blaðaviðtali þess efnis að meintur fíkniefnasali hafi fengið starfsleyfi frá fíkniefnalögreglunni til að verða stærsti fíkniefnasali á Íslandi, koma upp um keppinauta sína og safna auði, eru það alvarlegar að Alþingi hlýtur að spyrja hvort gengið er svo langt að það sé litið fram hjá þessu sem glæpsamlegu athæfi og hvort lögreglan sé komin út fyrir allt það sem lög heimila.

Svör hæstv. ráðherra við fyrirspurn málshefjanda áðan voru nokkuð skýr en ekki að öllu leyti. Ég óska eftir því að umrædd rannsókn sem ráðherra taldi hugsanlega eigi sér stað því að það hlýtur að vera nauðsynlegt að komast til botns í svo mikilvægu máli.

Við kvennalistakonur hvetjum til mikillar festu á þessu sviði. Líf of margra hefur verið lagt í hættu og rúst vegna fíkniefnasölu. Það er engin tilviljun að fíkniefnabraskið er svona umfangsmikið hér á landi því að þetta er með arðbærustu atvinnugreinum í veröldinni auk vopnasölu og klám- og kynlífsiðnaðar, en svo virðist sem á hinu síðastnefnda sviði séu sams konar vandamál hvað varðar eftirlit löggjafans. Frelsi einstaklingsins virðist vera virt svo mikils að vernd hins almenna borgara sé teflt í tvísýnu. Þessu verður að linna og því krefst ég þess að umrædd rannsókn fari fram og Alþingi verði gefin skýrsla um málið.