Starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:17:51 (4538)

1997-03-17 16:17:51# 121. lþ. 91.95 fundur 246#B starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:17]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég geri þá kröfu til hæstv. dómsmrh. að hann beiti sér til að vernda mig og mína fjölskyldu. Ég geri líka þá kröfu til hæstv. dómsmrh. að hann verndi sína undirmenn, sem er lögreglan. Það blasir við að hæstv. dómsmrh., maður þekktur fyrir að vera skeleggur í sínum málflutningi, hefur sagt í þessu máli að hann hafi það til ,,alvarlegrar skoðunar`` að láta fara fram opinbera rannsókn á þessum fullyrðingum. Herra forseti. Það er ekki nóg fyrir mig sem borgara í landinu og ekki heldur nóg fyrir lögregluna á Íslandi. Það er alveg ljóst að ef ekki er kannað sannleiksgildi þeirra staðhæfinga sem komið hafa fram í þessari umræðu þá verður eftir hana trúnaðarbrestur milli fólksins í landinu og fíkniefnalögreglunnar.

Fíkniefni eru mesti vágestur nútímaþjóðfélags og við sem eigum fjölskyldur óttumst fátt meira heldur en að unglingarnir okkar og börnin okkar verði bráð fíkniefnanna. Hvert er skjól okkar í þeirri baráttu? Það er fíkniefnalögreglan. Það hafa komið fram ásakanir sem gera það að verkum að það hlýtur að myndast trúnaðarbrestur á milli borgaranna og fíkniefnalögreglunnar. Það er ekki til nema ein leið til að uppræta þennan trúnaðarbrest og það er að hæstv. dómsmrh. taki af skarið, komi hér á eftir og segi ekki að hann hafi það til alvarlegrar skoðunar að láta fara fram opinbera rannsókn, heldur lýsi því yfir fyrir þingheimi að hann hafi ákveðið að láta þessa skoðun fara fram. Það er eina aðgerðin sem hæstv. dómsmrh. getur tekið sem er hin rétta í þessu máli. Það er eina leiðin til þess að verja borgarana í landinu og til þess að verja orðstír lögreglunnar.