Flugskóli Íslands hf.

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:29:25 (4542)

1997-03-17 16:29:25# 121. lþ. 91.6 fundur 152. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., Frsm. minni hluta ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:29]

Frsm. minni hluta samgn. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta samgn. um frv. um Flugskóla Íslands hf.

Eins og fram hefur komið hjá frsm. meiri hluta hefur nefndin fjallað um málið bæði nú í vetur og í fyrra og fengið á sinn fund allmarga umsagnaraðila.

Í frumvarpinu er lagt til að stofnað verði hlutafélag um rekstur Flugskóla Íslands. Ástæða þess er sögð sú að með því sé aðilum, sem hagsmuna eiga að gæta varðandi rekstur skólans, gefinn kostur á að gerast eignaraðilar að honum og hafa þannig áhrif á stefnu hans og viðgang. Engum einum aðila öðrum en ríkinu sé þó heimilt að eiga meira en 25% hlutafjár samkvæmt frumvarpinu.

Auðvelt virðist að gefa hagsmunaaðilum kost á að hafa áhrif á stjórn skólans án þess að breyta skólanum í hlutafélag, t.d. mætti skipa þá í skólaráð eða skólanefnd ásamt fulltrúum ráðuneyta, kennara og nemenda. Almennt virðist það heldur hæpin stefna í skólamálum að hagsmunaðilar og fyrirtæki geti keypt sér áhrif í skólum með hlutafjárframlögum.

Þá er rétt að benda á að frumvarpið er mjög umdeilt og mikilvægur umsagnaraðili, Félag íslenskra einkaflugmanna, mælir eindregið gegn samþykkt þess.

Að þessu athuguðu telur minni hluti nefndarinnar rétt að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til endurskoðunar.

Undir þetta rita þann 12. mars 1997 hv. þm. Ragnar Arnalds, Guðmundur Árni Stefánsson og Ásta R. Jóhannesdóttir.

Ég vil einnig að það komi fram hér að okkur fulltrúum jafnaðarmanna í samgn. hefur fundist að ef rekstur skóla eins og Flugskóla Íslands á að vera á höndum hagsmunaaðila, þá sé það spurning hvort hann ætti ekki eingöngu að vera á þeirra höndum, hvort ríkið þurfi þá endilega að vera að koma þar að, og jafnvel er það spurning hvort skóli sem flugskólinn ætti að vera á vegum menntmrn. Það hafa sem sagt ýmsar spurningar vaknað við umfjöllun þessa máls og því full ástæða til þess að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til endurskoðunar.