Flugskóli Íslands hf.

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 17:12:38 (4548)

1997-03-17 17:12:38# 121. lþ. 91.6 fundur 152. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[17:12]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég sagði áðan var einfaldlega að menn verða auðvitað að skoða hvert tilvik fyrir sig. Ef menn ætla að breyta öðrum skólarekstri í hlutafélög verða menn auðvitað að skoða það sérstaklega. Það er engin ástæða fyrir hv. þm. að reyna að draga einhverjar víðtækar ályktanir af þessu frv. og segja að í því felist einhver almenn stefnumótun fyrir menntakerfið í landinu eins og hv. þm. var að reyna að segja áðan.

Í þessu frv. felst eingöngu stefnumótun um þennan tiltekna skóla. Út á það gekk öll vinnan og við það miðaðist öll vinnan. Þess vegna getur hv. þm. auðvitað leyft sér, eins og hann gerði hér áðan, að fimbulfamba eitthvað fram og til baka um hlutafélagavæðingu og eitthvað þess háttar og reyna síðan að draga einhverjar ályktanir út frá því en það skiptir engu í þessu máli, það snertir ekki kjarna þessa frv. Frv. fjallar um þennan tiltekna skóla og þá niðurstöðu sem menn hafa komist að, að hlutafélagaformið eigi vel við rekstur þessa tiltekna skóla.

Ég sagði áðan að til greina hefðu komið fleiri kostir. Auðvitað kom það alveg til greina að reka þetta sem einhvers konar ríkisskóla þó að það væri ekki undir Flugmálastjórn eins og ég sagði áðan. En því fylgdu ýmsir aðrir viðbótarkostir að breyta skólanum í hlutafélag og fá bæði styrk, þekkingu og fjármagn frá þeim aðilum sem hafa hagsmuni af því að þetta skólanám haldi hér áfram. Þess vegna m.a. og ekki síst var þetta rekstrarform valið á skólann. Og ég er alveg sannfærður um eftir að hafa farið ofan í þetta mál, kynnt mér það og rætt við ýmsa sérfróða aðila, að þetta mun reynast vel vegna þess einfaldlega að þennan skóla skiptir það miklu að vera í góðum tengslum við þá sem hagsmuni hafa af rekstri hans. Það mun verða þessum skóla til framdráttar alveg eins og það er ýmsum fagskólum til framdráttar þegar þeir eru í góðu samstarfi við faggreinarnar í landinu sem þeir eiga að þjóna og vinna fyrir.