Flugskóli Íslands hf.

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 17:14:42 (4549)

1997-03-17 17:14:42# 121. lþ. 91.6 fundur 152. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[17:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það fagskólum til framdráttar og heppilegt fyrir þá að vera í góðum færum við sína faggrein og þannig er það yfirleitt. Ágætis tengsl, prýðileg tengsl, mikill stuðningur við skólana. Ég veit að hv. þm. þekkir t.d. að hve stórum hluta ýmiss konar tækjakaup í Stýrimannaskólanum, Iðnskólanum og víðar eru fjármögnuð með stuðningi frá atvinnugreinunum sem fylgjast af vakandi áhuga með uppbyggingu námsins, stuðla að því að nýjustu tæki komi inn í skólana o.s.frv. Gengur það bara ekki ágætlega? Það sem ég er aðallega að reyna að draga hér fram, herra forseti, er: Hver eru rökin fyrir því að það sama geti ekki átt við um bóklegt nám atvinnuflugmanna? Hvers vegna í ósköpunum ekki? Af hverju skyldi annað eiga við hér? Af hverju er hlutafélagaformið svona gráupplagt hér en ekki annars staðar? Hv. þm. verður að gera það upp við sig hvort hann er að tala fyrir almennum röksemdum um kosti hlutafélagaforms í svona sambærilegum tilvikum eða ekki. Hv. þm. hefur náttúrlega flúið inn fyrir garðinn og segir nei, þetta á bara að við um þennan skóla. Það er ágætt, það er þá ekki verið að fara lengra í bili. Ég tel náttúrlega að það sé býsna erfitt fyrir þá menn sem flytja þessar hlutafélagaröksemdir að ætla svo í framhaldinu að reyna að vera sjálfum sér samkvæmir. Það verður vandi hv. þm. ef hann lendir út á þessa braut á annað borð að rökin elti hann ekki uppi fyrir því að vera með þetta svona. Auðvitað er það þannig að ég tel að þetta nám eigi að meðhöndla eins og annað sambærilegt fagnám, bóklegt eða verklegt í góðum tengslum við sína grein. Það eru engin vandkvæði á því að koma því fyrir innan almenna skólakerfisins og gengur prýðilega í öðrum tilvikum og það á ekki að fara út í þessi afbrigðilegheit hér sem þessi hlutafélagabastarður er.