Lögræðislög

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 18:10:09 (4555)

1997-03-17 18:10:09# 121. lþ. 91.8 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[18:10]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að það er ánægjulegt að frv. nýrra lögræðislaga skuli komið fram því að eins og fram kom í framsögu hæstv. dómsmrh. og margir vita, þá hafa ýmsir vankantar verið á þeim reglum sem hafa gilt um lögræði og lögræðissviptingar. Og eftir því sem mér sýnist þá eru í þessu frv. lagðar til ýmsar breytingar á reglunum um lögræði sem löngu voru orðnar tímabærar.

Mér virðast flestar breytingarnar vera til bóta. Ég vil þá kannski byrja að telja til að það virðist vera gert ráð fyrir meiri sveigjanleika varðandi lögræðissviptingar heldur en verið hefur sem virkilega var orðið tímabært að gera og er það vel. Þar er tekið upp kerfi sem er kallað ráðsmannakerfi í þessum lögum hér. Fyrirmyndin að því er sótt að hluta til Norðurlandanna þar sem svipuð kerfi hafa verið við lýði og eru nefnd í athugasemdum með frv. aðstoðarmannakerfi ýmiss konar.

Gert er ráð fyrir því í frv. að fjárráða maður, ég ítreka, fjárráða maður, hann verður að vera fjárráða, sem óhægt á með að sjá um fjármál sín vegna veikinda eða fötlunar, geti óskað eftir því að honum verði skipaður aðstoðarmaður sem í frv. þessu er nefndur ráðsmaður. Ráðsmanninum er hægt að fela umsjón tiltekinna eigna skjólstæðingsins. Ráðsmaðurinn er undir opinberu eftirliti yfirlögráðanda og ber honum að hafa samráð við skjólstæðing sinn eftir því sem við verður komið. Skjólstæðingur ráðsmannsins glatar við skipun ráðsmanns gerhæfi sínu yfir þeim eignum sem faldar hafa verið ráðsmanni til umsjónar en getur hvenær sem er óskað eftir niðurfellingu ráðsmennskunnar og honum verði á ný fengin umráð þessara eigna sinna.

Þegar skoðaðar eru reglur sem gilda um þessi mál á Norðurlöndunum kemur í ljós samkvæmt athugasemdum með IV. kafla frv. að þar hafa svolítið öðruvísi kerfi verið við lýði. Helsti munurinn á kerfunum, þ.e. kerfinu sem hér er lagt til og kerfunum sem þar gilda, er að ráðsmennskan nær yfirleitt ekki til tiltekinna eigna heldur er hún almenn, auk þess sem skjólstæðingur tapar ekki gerhæfi sínu við skipun aðstoðarmanns, sem hefur eða getur a.m.k. valdið ákveðnum ruglingi um ákveðin atriði, ákveðna löggerninga. Mér sýnist það skref sem tekið er í þessu frv. vera strax til bóta. Spurning er hins vegar hvort æskilegt hefði verið að fara lengra og meira í þá veru sem farið hefur verið á Norðurlöndum. En það má líka segja að sú leið sem hér er farin er vissulega einfaldari. Hún er mjög skýr og tvímælalaust er hún til bóta.

Ég verð að segja eins og er að þó að ég sé sátt við flest það sem kemur fram í þessu frv. þá tek ég undir með þeim hv. þm. sem talaði hér áðan að ég varð fyrir vonbrigðum með að sjá að ekki skuli vera valin sú leið að hækka sjálfræðisaldur í frv. Ég hef talað áður fyrir því máli í umræðum í þinginu og hv. ræðumaður sem var hér á undan fór yfir það mjög ítarlega hver eru rök gegn hækkun sjálfræðisaldurs og rök með hækkun sjálfsræðisaldurs. Ég vil líka að það komi fram að ég tel þetta frv. mjög vel unnið að því leyti að greinargerðin er alveg einstaklega vel unnin. Það ber að fagna því sem vel er gert. Þetta er mjög viðamikið frv. og það er mjög gott að fá ítarlega úttekt á málinu hér inn í þingið, enda um að ræða mál sem er ekki einfalt, langt í frá, sem eru málin sem snúa að lögræði.

[18:15]

Ég er ein þeirra sem hafa mælt með hækkun sjálfræðisaldurs. Ég geri það m.a. vegna þeirra fjölmörgu raka sem fram koma í frv. Ég vil líka taka undir með þeim hv. þm. sem talaði áðan, Jóhönnu Sigurðardóttur, að ég er ekki sammála hæstv. dómsmrh. í því að það sem fram kemur af meðmælum með hækkun sjálfræðisaldurs í umsögnum sé einkum frá þeim sem hafa haft með afvegaleidd ungmenni að gera. Mér sýnist það vera miklu stærri hópur sem mælir beint með hækkun sjálfræðisaldurs. A.m.k. er sagt í frv. á bls. 29, með leyfi forseta:

,,Meiri hluti umsagnaraðila mælti með hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár og enginn mælti gegn þeirri hækkun.``

Hér eru tíndir til allflestir þeir aðilar sem maður getur látið sér detta í hug að hafi eitthvað um þetta mál að segja. Mér þykir líka athyglisvert það sem fram kemur í athugasemdunum með frv. að nefndin sem undirbjó þetta frv. lagði í raun og veru drög eða hugmyndir sínar fram til umsagnar við ýmsa aðila bæði árið 1993 og aftur árið 1996 og það er tekið sérstaklega fram að þeim sem semur greinargerðina þykir athyglisvert að þegar bornar eru saman umsagnir þær sem óskað var eftir árið 1993 og þær sem óskað var eftir árið 1996 að mun fleiri stofnanir og samtök taka nú afstöðu með hækkun sjálfræðisaldurs. Mér þótti þetta mjög athyglisverður punktur. Ég held að þetta komi ekki til vegna þess að það sé einhver tískubóla í samfélaginu núna að hækka sjálfræðisaldur heldur einmitt vegna þess að vaxandi skilningur er á því að þjóðfélagið er að mörgu leyti breytt frá því sem var þegar þessar reglur eru settar. Það var allt tínt til hér áðan af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og óþarfi af mér að telja það allt upp aftur. En þessi rök koma öll fram í frv. og eru mjög þung á metunum að mínu mati, þ.e. breyttar þjóðfélagsaðstæður á síðustu áratugum, þorri íslenskra ungmenna býr í foreldrahúsum fram undir tvítugt og nýtur stuðnings foreldra og að hækkun sjálfræðisaldurs hafi fyrst og fremst táknrænt gildi og ég held að þannig sé það í allflestum tilvikum, langflestum tilvikum. Enda felst í því að ungmenni sem verður sjálfráða getur ráðið sjálft dvalarstað sínum og gert vinnusamninga. Það fylgja í raun og veru mjög lítil áþreifanleg réttindi því að verða sjálfráða. Ég held að flest ungmenni upplifi það ekki sem eitthvað stórt skref í sínu lífi. Ég alla vega minnist þess ekki að hafa upplifað það sem slíkt og ég efast um að ungmenni nú til dags geri það heldur. Með breyttum tímum, minnkandi atvinnumöguleikum ungmenna og lengri skólagöngu hafi aðstæður breyst, atvinnu, húsnæði og tekjur skorti o.s.frv.

Það eru líka að mínu mati gild rök að við séum upp á kant við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og ég held að sérstaða íslensks samfélags sé ekki sú lengur að það eigi að vera ráðandi röksemd að við búum hér við einhverjar sérstakar aðstæður. Atvinnuleysið hefur haldið innreið sína hér eins og í nágrannalöndum okkar, því miður, þó það hafi gerst langt á eftir þeim löndum. Bent er á skilgreiningu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem allir einstaklingar undir 18 ára eru skilgreindir sem börn. Síðan eru tínd til rökin sem hvað þyngst hafa vegið, þ.e. varðandi afbrot og vímuefnaneyslu ungmenna á aldrinum 16--18 ára, að hækkun sjálfræðisaldurs geri það að verkum að auðveldara verði að ná til og grípa í taumana hjá einstaklingum á þessum aldri ef sjálfræðisaldur verði hækkaður. Ég held að þetta séu mjög veigamikil rök og geti skipt verulegu máli í velferð þessara einstaklinga.

Rökin gegn eru mörg góð og gild líka og hafa verið rakin hér. Þau rök sem hæstv. dómsmrh. nefndi eða mér fannst hann leggja hvað mesta áherslu á eru þau að með því að hækka sjálfræðisaldur sé verið að svipta stóran hóp ungmenna rétti til að takast á við sjálfsábyrgð og það muni mæta verulegri andstöðu hjá unglingum þar sem ungt fólk vilji taka ákvarðanir í eigin málum. Það sé verið að reyna að ná til hóps unglinga sem séu á villigötum vegna neyslu vímuefna eða vegna afbrota, en þetta sé lítill hópur og ekki vænlegt að skerða réttindi allra á þessu aldursskeiði vegna fárra einstaklinga.

Mér finnst í raun og veru mótrökin segja: Það getur skipt verulegu máli fyrir velferð þessa fámenna hóp sem er á villigötum að þurfa ekki að fara í gegnum sjálfræðissviptingu sem er mjög erfið aðgerð og viðkomandi einstaklingur getur borið þess ævarandi merki og því skipti verulegu máli fyrir velferð þess hóps að sjálfræðisaldur verði hækkaður á meðan ég held að fyrir hinn hópinn þá skipti þetta ekki eins miklu máli þegar upp er staðið.

Það eru ein rök sem mér fannst mjög athyglisvert að sjá í frv., þ.e. rök gegn hækkun sjálfræðisaldurs. Ég vil að hæstv. dómrmrh. hlusti sérstaklega á mál mitt núna vegna þess að kannski vill hann bregðast við því sem ég ætla að segja. Í greinargerðinni segir á bls. 30, með leyfi forseta:

,,Loks er talið til``, sem rök gegn hækkun sjálfræðisaldurs, ,,að skjólstæðingahópur barnaverndarnefnda muni stækka í hlutfalli við auknar skyldur barnaverndaryfirvalda og því þurfi að mæta með fjölgun starfsmanna og úrræða fyrir aldurshópinn 16--18 ára. Fram kemur í umsögn félagsmálaráðuneytisins að búast megi við auknum útgjöldum ríkisins til barnaverndarmála, einkum vegna fjölgunar meðferðarheimila.``

Ég verð nú að segja eins og er að mér þótti þetta mjög athyglisverður punktur að sjá. Þarna kannski þykir mér líklegast að meginröksemdin sé fundin hjá hæstv. ríkisstjórn fyrir því að velja það frv. sem mælir með því að sjálfræðisaldurinn verði óbreyttur. Eins og komið hefur fram áður þá lagði nefndin fram tvær tillögur og tók ekki afstöðu til þessa atriðis. Mér þykir það mjög alvarlegt mál að þessi röksemd skuli vera höfð í frammi og að hún skuli vera höfð í frammi af hæstv. félmrh. eins og þarna virðist vera því að það felst margt í þessu. Í þessu felst í fyrsta lagi það sem kemur fram í þessari setningu hérna að félmrn., ráðuneyti barnaverndarmála, viðurkennir að þarna sé nú bara veruleg þörf og þetta muni hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir ríkissjóð, vegna þess að það segir ,,... að búast megi við auknum útgjöldum ríkisins til barnaverndarmála``. Ekki fjölgar barnaverndarmálum skyndilega vegna þess að sjálfræðisaldurinn er hækkaður. Það er miklu frekar að vandamálið sé viðurkennt og tekið sé á því. Síðan segir í framhaldi að þessu: ,,... einkum vegna fjölgunar meðferðarheimila``, sem þýðir að fleiri börn eða ungmenni á aldrinum 16--18 ára komi til með að hafa þörf fyrir meðferð. Mér þykja þessi rök sem þarna eru sett fram gegn hækkun sjálfræðisaldurs vera enn og aftur hvað sterkust rökin með hækkun. En um leið eru stjórnvöld að sjálfsögðu að viðurkenna að þarna sé töluverður vandi á ferðinni sem þurfi að taka á og hann kosti eitthvað. Þess vegna hefði ég viljað sjá og geri nú ráð fyrir að hv. allshn. sem fær frv. til umsagnar, muni óska eftir því að skoða þennan þátt sérstaklega betur. Hvers vegna gerir félmrn. ráð fyrir því að búast megi við auknum útgjöldum til barnaverndarmála, einkum vegna fjölgunar meðferðarheimila? Væntanlega vegna þess að vandamálið er til staðar. Ég held að það væri ekki úr vegi fyrir hv. allshn. að fá umsagnir um kostnaðarmat. Hérna liggur fyrir, eins og venja stendur til, umsögn fjmrn. um frv. eins og það liggur fyrir núna og því væri ekki úr vegi að hv. allshn. fengi umsögn, kostnaðarmat fjárlagaskrifstofu fjmrn. á því hvað þetta mundi kosta ríkissjóð ef frv. væri sett í hinn farveginn. Ég hefði a.m.k. mikinn áhuga á að sjá hvernig það kæmi út.

Kannski er meginkjarni þess sem ég hefði viljað segja núna við fyrstu umræðu, sá að mér þykir hæstv. dómsmrh. ekki hafa gert nægilega grein fyrir því hvers vegna hæstv. ríkisstjórnin velur þessa leið. Mér þykja þau rök sem talin voru upp af hæstv. dómsmrh. ekki nægilega sterk til þess að horfið sé gegn því sem svo til allir umsagnaraðilar leggja til. Og þarna erum við að tala um aðila sem eru, ég vil segja alfa og omega þess sem hefur með málefni barna og ungmenna að gera á Íslandi í dag. Þessir aðilar leggja allir til ýmist að sjálfræðisaldur verði hækkaður eða mæla að minnsta kosti ekki gegn því.

Að öðru leyti, eins og ég sagði í upphafi, sýnist mér flest til bóta í frv. og mun að sjálfsögðu kynna mér betur, þegar þar að kemur, hvernig hv. allshn. fer í málið og hvað kemur í ljós við skoðun málsins þar.