Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 19:01:15 (4567)

1997-03-17 19:01:15# 121. lþ. 91.11 fundur 444. mál: #A skiptaverðmæti og greiðslumiðlun# (stofnfjársjóður o.fl.) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[19:01]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Samkvæmt gildandi lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins frá 1986 skal 15% af hráefnisverði skipa haldið eftir við veðsetningu eða gjaldeyrisskil og sú fjárhæð lögð inn á sérstakan bankareikning. Því fé er síðan ráðstafað í þrjá staði. 7% renna inn á stofnfjársjóðsreikning viðkomandi skips hjá Fiskveiðasjóði Íslands, 6% renna inn á vátryggingarreikning skipsins hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna til greiðslu tryggingariðgjalda vegna skipsins, en 2% greiðast inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa. Því fé er síðan miðlað milli Lífeyrissjóðs sjómanna annars vegar, sem fær 92% af þessum 2%, og hagsmunasamtaka sjómanna og útvegsmanna hins vegar sem fá afganginn. Framangreint fyrirkomulag gildir varðandi þilfarsskip 10 brúttólestir eða stærri. Fyrir opna báta og minni en 10 brúttólestir gilda þær reglur að 10% er haldið eftir af hráefnisverði. Er allt það fé lagt inn á greiðslumiðlunarreikning hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa. Því fé er síðan skipt milli Lífeyrissjóðs sjómanna, iðgjaldagreiðslna vegna slysa og örorkutrygginga skipverja og bátatrygginga og Landssambands smábátaeigenda.

Samkvæmt frv. til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., sem viðskrh. mælti fyrir í síðustu viku, er gert ráð fyrir að starfsemi Fisklánasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs verði sameinuð 1. jan. 1998. Frá sama tíma er gert ráð fyrir að lög um Stofnfjársjóð fiskiskipa verði afnumin. Af þessum sökum er nauðsynlegt að gerðar verði tvær efnisbreytingar á framangreindum ákvæðum laganna um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun.

Í fyrsta lagi verður að teljast óeðlilegt að innheimta vegna lána til fiskiskipa sé tryggð með sérstökum lögum eftir að Fjárfestingarbanki atvinnulífsins tekur til starfa. Bankinn tekur við öllum skuldbindingum Fiskveiðasjóðs og í því felst m.a. að hann mun innheimta útistandandi lán Fiskveiðasjóðs. Verður að teljast eðlilegt að um innheimtu þeirra lána sem og nýrra lána hins nýja fjárfestingarbanka til fiskiskipa gildi sömu reglur og um innheimtu annarra lána fjárfestingarbankans. Fyrir því er í 1. og 3. gr. þessa frv., sem hér er til umræðu, lagt til að eftirleiðis verði einungis skylt að halda eftir 8% af aflaverðmæti við veðsetningu og gjaldeyrisskil í stað 15% áður.

Í öðru lagi verður að fela öðrum aðila það framkvæmdahlutverk við greiðslumiðlun sem Stofnfjársjóður fiskiskipa gegnir nú. Er með frv. þessu lagt til að Lífeyrissjóður sjómanna taki við þessu hlutverki enda er stærstum hluta þeirra fjármuna er um greiðslumiðlunarkerfið fara miðlað til þess sjóðs. Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því sem meginreglu að aðilar að greiðslumiðlunarkerfinu komi sér saman um skiptingu kostnaðar er leiðir af umsýslu Lífeyrissjóðs sjómanna í greiðslumiðlunina.

Þá er loks með frv. þessu lagt til að ef ágreiningur rís um skiptingu fjár annars vegar á milli Sjómannasamands Íslands, Alþýðusambands Austfjarða og Alþýðusambands Vestfjarða og hins vegar milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Vélstjórafélags Íslands geti aðilar óskað eftir því að skipaður verði gerðardómur til að leysa úr þeim ágreiningi.

Með frv. þessu er ekki stefnt að heildarendurskoðun laganna um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins heldur eru breytingatillögurnar nær eingöngu takmarkaðar við þær breytingar sem óhjákvæmilega leiðir af endurskipulagningu sjóðakerfisins. Þar með er ekki sagt að ekki sé ástæða til að huga að slíkri heildarendurskoðun. Ég tel hins vegar mikilvægt að menn gefi sér gott ráðrúm til að huga að þeim málum í samráði við þau samtök sem aðild eiga greiðslumiðlunarkerfinu. Ég hef jafnframt ákveðið í því sambandi að slík endurskoðun muni hefjast fljótlega. En ég ítreka að þau álitaefni sem þar koma upp geta m.a. lotið að skipulagi þeirra félagasamtaka sem þar eiga hlut að máli og þess vegna er nauðsynlegt að taka til þess nokkurn tíma. Sú ákvörðun ein að breyta nú á þessu þingi rekstri Fiskveiðasjóðs getur ekki ráðið tímasetningum í því efni. En í þessa heildarendurskoðun verður hins vegar ráðist.

Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.