Alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 13:43:23 (4569)

1997-03-18 13:43:23# 121. lþ. 92.7 fundur 199. mál: #A alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# þál., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[13:43]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fullgildingu á alþjóðasamþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Flm. ásamt mér er Bryndís Hlöðversdóttir. Tillgr. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 23. júní 1981.``

Virðulegi forseti. Þessi tillaga var á sínum tíma flutt samhliða þáltill. um opinbera fjölskyldustefnu og lögð áhersla á vilja verkalýðshreyfingarinnar til þess að fá þessa tillögu samþykkta og þau áhrif sem hún hefur sem þáttur í mikilvægri fjölskyldustefnu. Ég vil líka benda á það, virðulegi forseti, að samþykktin er prentuð sem fskj. með tillögunni og auk þess er prentuð tillaga nr. 165 um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu, starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Tillagan er útfærsla á samþykktinni sem gerð var.

Á liðnum árum hefur oft verið rætt um gildi þess fyrir Ísland að fullgilda þessa samþykkt. Það hefur verið ályktað um málið, fyrirspurn hefur verið lögð fram á hv. Alþingi og samstarfsmenn félmrn. um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa tekið spurninguna til efnislegrar umfjöllunar. Samþykktin sem slík tekur til vinnandi karla og kvenna sem hafa skyldum að gegna gagnvart eigin börnum og framfæri þeirra þegar slíkar skyldur skerða möguleika þeirra til undirbúnings, þátttöku eða frama í atvinnulífinu.

Ákvæði samþykktarinnar taka einnig til vinnandi karla og kvenna sem hafa skyldum að gegna gagnvart öðrum nánum vandamönnum sem greinilega þarfnast umönnunar þeirra eða forsjár. Samþykktin tekur til allra greina atvinnulífsins og allra flokka starfsmanna. Það sjónarmið sem liggur til grundvallar er að koma á í raun jöfnum möguleikum og jafnrétti til handa vinnandi körlum og konum. Skal sérhvert aðildarríki setja það markmið í stjórnarstefnu að auðvelda fólki með fjölskylduábyrgð sem er í atvinnu eða óskar að vera það, að framfylgja þeim rétti sínum án þess að verða fyrir mismunun að svo miklu leyti sem það er mögulegt án árekstra milli atvinnu fólks og fjölskylduábyrgðar.

Eins og ég nefndi áður hefur þessi tillaga verið flutt áður í tengslum við þáltill. um opinbera fjölskyldustefnu. Einnig var hún borin inn á þingið á sl. vetri og um hana bárust þá allnokkrar umsagnir sem ég ætla á þessum tímapunkti í inngangi mínum, virðulegi forseti, að renna lauslega yfir.

Þar vil ég fyrst nefna umsögn Alþýðusambands Íslands sem leggur mikla áherslu á að þessi tillaga verði samþykkt. Það vekur athygli á aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði þar sem fjölskyldum og fjölskyldulífi er á margan hátt gert erfitt fyrir, nauðugur sá kostur að vinna afar langan vinnudag til að endar nái saman og álag á barnafjölskyldur er æðimikið og á ýmsan hátt erfitt fyrir verkafólk að samræma hlutverk sitt sem virkir þátttakendur á vinnumarkaði og að vera ábyrgir foreldrar.

Bent er á, og ég vek sérstaka athygli þingmanna á því, að í kjarasamningum hefur ekki tekist að fá tekið tillit til aðstæðna fjölskyldnanna að þessu leyti. Í samþykktinni sem slíkri er leitast við að tryggja að tekið sé tillit til þarfa þeirra sem hafa fjölskylduábyrgð, bæði að því er varðar kjör og vinnuskilyrði sem og félagslegt öryggi. Eitt mikilvægasta ákvæði samþykktarinnar fyrir launafólk og reyndar það sem umdeilanlegast er er að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða uppsagnar starfs. Ákvæði þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að nánast algjör skortur er á reglum að íslenskum vinnurétti um nauðsyn gildrar ástæðu til uppsagnar verkafólks og atvinnurekendum ekki einu sinni skylt að rökstyðja slíkar ákvarðanir. Þetta er eitthvað það mikilvægasta fyrir þingmenn að staldra við að atvinnurekendum er ekki einu sinni skylt að rökstyðja hvers vegna þeir segja starfsmanni upp.

Ég vek líka athygli á því, virðulegi forseti, að það atriði sem Alþýðusambandið bendir þarna á víkur jafnframt að þeirri tillögu sem verður rædd hér næst á dagskrá þessa fundar, sem er einmitt ILO-samþykkt um uppsögn starfa sem Bryndís Hlöðversdóttir er flm. að og ég flyt með henni.

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja tekur undir að þessi tillaga verði fullgilt. Það bendir á svo dæmi sé tekið að þetta ákvæði um að fjölskylduábyrgð skuli ekki vera gild ástæða uppsagnar starfs þýði að ekki er hægt að segja starfsmanni upp vinnu vegna umönnunar veikra barna eða náinna ættingja. Það er líka bent á að fulltrúar ASÍ og BSRB í landsnefnd um ár fjölskyldunnar beittu sér fyrir framgangi málsins án þess að hafa erindi sem erfiði.

Ég vil líka leyfa mér að draga fram að Bandalag háskólamanna mælir eindregið með fullgildingu þessarar alþjóðasamþykktar. Miðstjórn Samiðnar mælir eindregið með að ályktunin verði samþykkt. Skrifstofa jafnréttismála bendir á að fullgilding alþjóðasamþykktarinnar mundi verða lóð á vogarskálar jafnréttis kvenna og karla. Heimili og skóli styðja tillöguna og vænta þess að alþingismenn gangi fram í því að koma okkur Íslendingum í flokk þeirra þjóða sem fullgilt hafa þessa alþjóðasamþykkt. Framkvæmdastjórn Kvenréttindafélags Íslands telur rétt að mæla með þáltill. þessari á grundvelli þess að nauðsynlegt sé að auka atvinnuöryggi launþega, ekki síst kvenna. Vinnumálasambandið þekkir þess engin dæmi að það hafi gerst hjá aðildarfyrirtækjum sínum að starfsmönnum hafi verið sagt upp störfum vegna fjölskylduábyrgðar en Vinnumálasambandið er tilbúið til viðræðna við ASÍ um gerð kjarasamninga um efni þessarar tilskipunar verði eftir því óskað. Það er athugasemd sem er mjög jákvæð í stöðunni og miðað við sögu málsins.

Kvenfélagasamband Íslands, jafnótrúlegt og það er, leggur ekki til að tillagan sé samþykkt. Það telur að upp geti komið misræmi og misjöfnun milli þeirra sem koma út á vinnumarkaðinn og hafa enga fjölskylduábyrgð og betra væri að fela ríkisstjórn að stefna að því að hægt væri að fullgilda samþykktina með sóma þegar breytingar sem þörf er á í þjóðfélaginu tækju mið af að samþykktin væri komin í samninga og lög. Ég tel að þarna sé mikill misskilningur á ferð vegna þess að tillaga sem þessi um að fullgilda samþykkt er auðvitað á þann veg að skapa aðstæðurnar sem þarna er vísað til.

Virðulegi forseti. Þess er getið að samþykktinni megi framfylgja með lögum eða reglugerðum, kjarasamningum, starfsreglum, gerðardómum, dómsúrskurðum eða þessum aðferðum sameiginlega eða hverjum öðrum hætti í samræmi við landsvenjur og jafnframt að framkvæma megi hann í áföngum ef nauðsyn beri til með tilliti til aðstæðna í landinu. Ég vil lýsa ánægju minni með að félmrh. hefur séð sér fært að vera viðstaddur þessa umræðu vegna þess að í tillögu hans um opinbera fjölskyldustefnu, sem hann lagði fram á Alþingi í haust og er til meðferðar í félmn. er ákvæði í III. kafla þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 23. júní 1981.``

Þarna hefur ráðherrann tekið þá mikilvægu ákvörðun að hann leggi áherslu á að fjölskylduábyrgð sem slík sé ekki gild ástæða uppsagnar. Það er í raun og veru afstaða sem skiptir afskaplega miklu máli, vegna þess að ástæða er til að ætla að um það sé ekki samstaða innan ríkisstjórnarinnar.

Á síðasta vetri bar Bryndís Hlöðversdóttir fram fyrirspurn til félmrh. í umræðunni um stéttarfélög og vinnudeilur og þá svaraði ráðherrann á þessa lund:

,,Mismunandi sjónarmið hafa komið fram meðal aðila vinnumarkaðarins og ágreiningurinn er fyrst og fremst varðandi fullgildingu og framkvæmd á 8. gr. samþykktarinnar,`` --- og það er mjög mikilægt að halda þessu til streitu. Það er í raun og veru búið að skapa öll skilyrði sem þarf til að fullgilda þessa samþykkt en það er 8. gr. sem er umdeild og hún er umdeild eingöngu af hálfu atvinnurekenda, --- ,,en samkvæmt henni skal aðildarríki tryggja að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar. Miðað við aðstæður hér á landi telst fullgild trygging að mati Alþjóðavinnumálastofnunarinnar annaðhvort ákvæði í kjarasamningum eða setning laga. Ráða má af afstöðu samtaka atvinnurekenda að stjórnvöld verða að setja lög til að hrinda í framkvæmd ákvæðum 8. gr. samþykktarinnar og í því sambandi getur tvennt komið til álita. Ein leið er að endurskoða lög nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, með það að markmiði að taka upp í þau lög ákvæði 8. gr. samþykktar nr. 156, um fjölskylduábyrgð, að hún geti ekki verið ástæða til uppsagnar starfs. Einnig er athugandi að sett verði lög sem almennt fjalli um uppsagnir starfsmanna.`` Tekur þetta í raun og veru undir það sem verður fjallað um í þessum tveimur tillögum sem við mælum fyrir, við Bryndís Hlöðversdóttir. Ráðherrann segir, með leyfi forseta:

,,Ég tók ekkert af um þetta mál í vor enda þekkti ég ekki málið nægilega vel þegar ég gaf þetta svar. Mér finnst rétt að gefa aðilum vinnumarkaðarins tækifæri til þess að semja um þetta ef þeir geta því sannarlega vil ég losna við að setja lög ef hægt er að koma á samningum. En ef það ekki gengur, er ég tilbúinn að leggja vinnu í það að breyta lögum nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests. Ég vil sem sagt ekki fara að setja dagsetningar á þetta en að þessu mun ég vinna.``

Þarna er í raun og veru búið að varpa upp boltanum með atriði sem ég vil endilega ganga eftir við ráðherrann. Hann hefur fram að þessu rekið þannig réttinda- og verkalýðspólitík að ekki hefur verið ástæða til að vera með miklar væntingar um að hann söðli um og setji lög sem auka réttindi launafólks. Hann hefur frekar birst þjóð sinni sem hagsmunagæslumaður atvinnurekenda ef tekið er mið af lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem svo harkalega voru gagnrýnd hér í fyrra og miðað við þau frumvörp í sambandi við Atvinnuleysistryggingasjóð sem hér komu fram á þessum vetri og sem reyndar var breytt mjög í umfjöllun félmn. eftir harða gagnrýni aðila og þegar farið var í raun og veru að takast á um þau mál sem hluta af kjarasamningi. Ég hlýt því að spyrja hæstv. félmrh. Pál Pétursson: Hvað ætlar hann að gera? Fram hefur komið að þetta mál hefur verið flutt oftar en einu sinni inn á þing. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að þríhliða nefndin í félmrn. sem á að reyna að ná samstöðu um hvaða breytingar eru gerðar, m.a. hvaða ILO-samþykktir eru staðfestar, hefur ekki náð samkomulagi um þetta. Og Ísland hefur fullgilt miklu, miklu færri samþykktir heldur en Norðurlöndin. Það er í raun orðið fullreynt að með samkomulagi verður hægt að ná saman um þessa tillögugrein. Það hefur komið fram, og ráðherra er væntanlega kunnugt um það miðað við svar hans í fyrra, að það er í raun og veru bara þessi 8. gr. sem stendur í vegi fyrir því að hægt sé að fullgilda samþykktina en hún er afar mikilvæg.

Þess er skemmst að minnast að við nokkrir þingmenn tókum þátt í söfnun fyrir hjartveik börn og þar gat þjóðin öll hlustað á frásagnir fólks af vanda sínum og erfiðleikum þegar barn fær langvarandi sjúkdóm. Mörg okkar voru líka á ráðstefnu hjá samtökum foreldrafélaga langveikra barna fyrir skömmu og þar var varpað glæru á vegg sem sýndi hver aðstaða þessara foreldra var á Norðurlöndunum, í þeim löndum sem við miðum okkur saman við. Jú, leyfi til að vera heima hjá veiku barni voru þessir 7 eða 9 dagar sem eru hjá okkur. Þeir eru svo fáir að ég hef ekki einu sinni lagt það á minnið. En í öðrum löndum, nágrannalöndum okkar, var jafnvel heimild til að vera yfir langveiku barni ekki bara í mánuði heldur jafnvel ár. Í sumum löndum eru reglur um að fólk geti verið árum saman heima á ákveðnu hlutfalli launa til að vera yfir langveiku barni. Þessi réttur er því mjög skertur hér og á kannski rætur í að það er ekki ríkið sem greiðir laun foreldra þegar um er að ræða að foreldri er heima yfir veiku barni, en það ber allt að sama brunni.

Ég vil leggja áherslu á það, virðulegi forseti, að það er ríkið sem setur umdeildu lögin um vinnumarkaðinn og þegar þarf að taka á málum þar sem ekki er hægt að koma sér saman milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda, þá hefur ríkisstjórnin komið hingað inn með frumvörp þar sem hún stillir sér að mínu mati atvinnurekendamegin. Nú er tækifæri til taka undir tillögu okkar, að staðfesta og fullgilda þessa samþykkt og að gera þar með þær breytingar, setja í lög nr. 19/1979, það ákvæði sem þarf til þess að skapa þennan mikilvæga rétt fyrir þá foreldra sem eru á vinnumarkaði.