Alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 14:04:26 (4571)

1997-03-18 14:04:26# 121. lþ. 92.7 fundur 199. mál: #A alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[14:04]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað vera sérlega notaleg í dag við hæstv. félmrh. þó ekki væri nema vegna hins merka afmælis sem hann átti í gær, en ég get það ekki í þessu máli og verð að særa hann með því að hann hefur birst okkur þannig að í þeim málum sem hann hefur borið hingað inn og lúta að vinnumarkaðnum, þá hefur hann komið með frumvörp sem skerða réttindi fólks á vinnumarkaði. Þrátt fyrir að það hafi tekist að klóra í bakkann og breyta þeim frumvörpum í meðferð félmn. og þrátt fyrir að hann nú í skugga yfirvofandi verkfalls gekk til samninga á síðustu stundu og breytti frv. um atvinnuleysistryggingar, þá breytir það því ekki hvernig frumvörp hann hefur borið hingað í þingsalinn.

Ég vek athygli á því að fjölskyldustefnan er til meðferðar í félmn. og að ákvæði sem ég vísaði í hefur ekkert gildi þar og þess vegna er ég mjög ánægð að heyra að hann er málið til meðferðar í ríkisstjórn. Ég treysti því að meiri hlutinn í félmn. muni leggja áherslu á að í nefndavikunni verði opinber fjölskyldustefna aðalmálið og fyrsta málið sem við vinnum að.

Varðandi það að hann ætlar að flytja þáltill. um þetta mál sem hefur hefur verið lagt fyrir tvisvar sinnum í formi þingmannatillögu, þá spyr ég: Getur hann ekki bara stutt þessa? Hvernig þáltill. er það sem hann flytur sem er öðruvísi en þessi einfalda tillaga um að fullgilda samþykktina? Varðandi það að semja í kjarasamningum, þá er alveg ljóst að þeir sem til þekkja vita að það hefur ekki náðst og að verkalýðshreyfingin á fullt í fangi með að ná félagslegum réttindum í gegn sem brýn eru hverju sinni og það væri löngu búið að setja þetta í samninga ef það næðist.

Samkomulagið um vinnutíma var tilskipun sem var búin að taka gildi hjá okkur. Tilskipun sem kom frá Evrópusambandinu og var alveg ljóst að varð annaðhvort að setja í lög eða semja um. Ef við værum búin að fullgilda þessa samþykkt, þá er ég ekki í nokkrum vafa um það að verkalýðshreyfing og atvinnurekendur koma sér saman um hvernig með skuli fara. En fyrst þurfum við að taka þau skref, ráðherra, forseti góður.