Alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 14:11:26 (4575)

1997-03-18 14:11:26# 121. lþ. 92.7 fundur 199. mál: #A alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# þál., BH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[14:11]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. leggur mikið upp úr því að telja okkur trú um að hann sé góður vinur verkalýðsforustunnar. Það má svo sem vel vera, en mér segir svo hugur að vinsældir hæstv. félmrh. séu meiri í öðrum herbúðum og þá á ég við herbúðir atvinnurekenda en (Félmrh.: Ég á vini í báðum herbúðunum.) í herbúðum verkalýðsins, og sennilega í öllum stöðum. En atvinnurekendur hafa a.m.k. ekki streymt í hundraða tali niður á Austurvöll til að mótmæla gjörðum hæstv. félmrh. eins og verkalýðshreyfingin hefur gert og það segir sína sögu.

Hv. frsm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur gert ágæta grein fyrir innihaldi þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir og einnig fyrir forsögu þess hvernig hún er til komin, fyrir því hvernig að samningu hennar var staðið og eins að aðkomu samtaka launafólks að henni í landsnefnd um ár fjölskyldunnar. Það er í sjálfu sér litlu við það að bæta efnislega en ég vil einungis vekja á því athygli að þetta mál tengist óneitanlega máli sem er á dagskrá hér eftir, sem ég er 1. flm. að og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir meðflm., um starfsöryggi, um uppsagnir af hálfu atvinnurekenda. Þar er líka um að ræða alþjóðasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Við erum fyrst og fremst að ræða í báðum þessum málum um starfsöryggi launafólks á Íslandi sem því miður er mjög bágborið eins og staðreyndin er í dag.

Samþykktin sem hér er verið að ræða um lýtur að því að tryggja starfsfólki með fjölskylduábyrgð aukið starfsöryggi. Ef við tökum samanburð við Norðurlöndin og jafnvel við allflest Evrópulönd, þá er ljóst að við Íslendingar erum mjög aftarlega á merinni hvað varðar starfsöryggi launafólks. Það verður að segja eins og er að hugtakið sé varla þekkt hér á landi fyrr en á síðustu árum þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir atvinnuleysi eins og aðrar nágrannaþjóðir okkar. Fram að þeim tíma skipti þetta mál sem sneri að starfsörygginu litlu máli fyrir Íslendinga, mun minna máli heldur en nágrannaþjóðirnar þar sem íslenskt launafólk gat alltaf fengið vinnu ef því var sagt upp þannig að framboðið af vinnu var það mikið að það var ekki höfuðmál verkalýðshreyfingarinnar að berjast fyrir bættu starfsöryggi.

Núna eru breyttir tímar og núna skiptir það launafólk mun meira máli en áður að búa við ákveðnar reglur um starfsöryggi. Það er það sem verið er að leggja til í þeim báðum málum sem hér eru á dagskránni. Því miður er það þannig að starfsfólk fólk sem ber ábyrgð á fjölskyldu verður oft fyrst fyrir barðinu á uppsögnum og í flestum tilvikum eru það konur sem bera þessa ábyrgð. Þrátt fyrir það að Vinnumálasambandið kannist ekki við nokkur tilvik þess efnis, eins og hv. frsm. rakti í ræðu sinni og mér þótti nú dálítið skondið, að launafólki innan sambandsins hafi verið sagt upp af fjölskylduástæðum, þá held ég að þetta sé staðreynd sem allflestir viðurkenna að það fólk sem hefur mikla ábyrgð á fjölskyldunni og býr við meiri fjarveru þess vegna er það fólk sem fyrst er látið fara.

[14:15]

Þegar við tölum um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, þá erum við að tala um fólk sem þarf að vera mikið frá vegna veikinda barna sinna, að ekki sé minnst á þá sem eiga börn sem þjást af alvarlegum og ólæknandi sjúkdómum. Þessir hópar búa við verulega skerta samkeppnisstöðu á vinnumarkaði og hefur þó þessi hópur öðrum fremur mikla þörf fyrir að halda vinnu sinni þar sem það er líka dýrt að eiga langveik börn.

Margir eiga aldraða foreldra inni á heimilum sem þurfa aðhlynningar við og í sumum tilvikum getur verið um sjúka maka að ræða sem krefjast aðhlynningar sinna nákomnu á ákveðnum skeiðum. Ég vil ítreka það til að það valdi engum misskilningi að í þeim tilvikum sem hér er verið að ræða um í þessari samþykkt, þá erum við að tala um það að starfsmaðurinn geti alla jafna sinnt starfi sínu, þ.e. hann sé á vinnumarkaðnum, sé vinnufær almennt þannig að sá sem ekki getur komið til starfa aftur --- það er ljóst að einhver getur ekki komið til starfa aftur vegna þeirra ástæðna sem hér hafa verið raktar og hefur alfarið helgað sig aðhlynningu sjúks maka, foreldris eða barns --- telst ekki lengur vera á vinnumarkaði og á því ekki rétt á að halda starfi sínu út á það. Það er að sjálfsögðu ekki ætlast til þess að atvinnurekendur sitji alfarið uppi með ábyrgðina í svona tilvikum heldur er einungis verið að tala um tímabundna fjarveru, að í slíkum tilvikum eigi fólk ekki að gjalda fyrir með atvinnu sinni þegar um er að ræða tímabundna fjarveru vegna veikinda.

Ég vil líka ítreka það sem kom fram hjá hv. frsm. að ákveðin saga býr að baki þessari samþykkt og því að hún er hér lögð fram. Samtök launafólks bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði hafa allt frá því upp úr 1980 unnið ötullega að því að reyna að fá þessar samþykktir um starfsöryggið fullgiltar. Það hefur ekki reynst vilji fyrir því af hálfu atvinnurekenda og fulltrúi félmrn. í þríhliða nefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á Íslandi sem er skipuð þremur fulltrúum, einum frá atvinnurekendum, einum frá samtökum launafólks og einum frá félmrn., hefur neitað að vera oddamaður í málinu. Ég hef gagnrýnt það mjög harðlega áður í þinginu og vil gera það aftur því að ekki er gert ráð fyrir því í þeim reglum sem Alþjóðavinnumálastofnunin byggir á að fulltrúi félmrn. eða stjórnvöld hafi einhverja hlutleysisstefnu í þessum málum því að hin pólitíska ábyrgð hvílir að sjálfsögðu á ríkisstjórninni hverju sinni.

Það var líka rakið af hv. frsm. að Íslendingar hafa fullgilt fáar samþykktir miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir. Við höfum fullgilt 18 samþykktir á meðan aðrar Norðurlandaþjóðir eru með að meðaltali 70. Þar af eru einhver þeirra með yfir 100 samþykktir sem hafa verið fullgiltar. Það er vissulega ekki þannig að fjöldi samþykktanna skipti öllu máli en hann segir ákveðna sögu. Hann segir sögu um það hversu alvarlega við Íslendingar tökum þeim skuldbindingum sem við höfum tekist á herðar í alþjóðasamstarfi. Við höfum tekið þátt í starfi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Við eigum að taka þátt í því starfi af einurð og það þýðir að við eigum að skoða mun betur en hefur verið gert hingað til, hvort ekki sé ástæða til að fullgilda eitthvað af þeim fjölmörgu samþykktum sem hafa verið gerðar á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Og ég verð að segja eins og er að hæstv. félmrh. yrði maður að meiri ef hann bretti nú upp ermarnar og tæki góðan skurk í að skoða hvort ekki væri ástæða til að gera þetta hér á landi. Ég er alveg viss um það að hann mundi komast að þeirri niðurstöðu að svo væri.

Aðeins um það sem hæstv. félmrh. sagði um fjölskyldustefnuna sem er ágætt mál í sjálfu sér. Hún hefur nú þurft að víkja í hv. félmn. fyrir öðrum málum sem eru að mínu mati kannski ekki eins góð mál og fjölskyldustefnan en hefur legið meira á, eins og málinu um Tryggingasjóð einyrkja og atvinnuleysistryggingar. En mér skilst að málið verði afgreitt í nefndinni alveg á næstunni.

Hæstv. félmrn. ætlar að doka við eftir kjarasamningum. Ég vil bara benda honum á að fjöldi kjarasamninga hafa verið gerðir frá því upp úr 1980 þegar samtök launafólks fóru fyrst að berjast fyrir þessum samþykktum. Samþykki atvinnurekenda hefur ekki fengist fyrir því að fullgilda þær og ég hef enga trú á því að það takist núna, en það er gott að vera bjartsýnn.