Uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 14:31:08 (4580)

1997-03-18 14:31:08# 121. lþ. 92.8 fundur 200. mál: #A uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda# þál., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[14:31]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fullgildingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda. Meðflm. með mér er hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Tillgr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 158, um uppsögn af hálfu atvinnurekanda sem gerð var á 68. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 22. júní 1982.``

Tillaga þessi var fyrst lögð fram á 120. þingi og svo aftur á því á liðnu haustþingi en ekki var mælt fyrir henni þá.

Á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1982 var gerð samþykkt, nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Samþykktin byggðist á tillögu Alþjóðavinnumálaþingsins frá árinu 1963 um sama efni og kom hún, ásamt tillögu nr. 166, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda, í stað tillögunnar frá 1963. Samþykkt nr. 158 tryggir launafólki lágmarksstarfsöryggi og hefur efni samþykktarinnar víða verið viðurkennt sem lágmarksréttur launafólks við uppsagnir. Á síðasta ári höfðu alls 24 ríki fullgilt samþykktina. Þar á meðal eru tvö Norðurlandanna, Svíþjóð og Finnland, en í Noregi og Danmörku er eigi að síður byggt á reglum ámóta þeim sem samþykktin byggist á.

Það má taka fram í þessu sambandi, af því það hefur stundum verið notað af hálfu atvinnurekenda sem rök gegn því að fullgilda þessa samþykkt, að ekki hafi fleiri ríki fullgilt hana, að ástæðan fyrir því er mjög víða sú að reglurnar eru löngu, löngu rótgrónar, þessar grundvallarreglur, ýmist í löggjöf eða kjarasamningum þeirra landa sem eru aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni. Svo er um flest ríki Evrópu t.d. og það hefur m.a. komið fram í umræðum innan Evrópusambandsins, þar sem reglur um starfsöryggi hafa verið ræddar, að það sem þau ríki hafa komið sér saman um hvað varðar starfsöryggið þá skuli samþykkt nr. 158 a.m.k. vera lágmarksþrepið sem byggt er á. Spurningin er hins vegar hversu ítarlegur rétturinn eigi að vera.

Samþykkt nr. 158 tekur til allra greina atvinnulífsins og alls launafólks, en aðildarríkið getur þó undanskilið tiltekna flokka launafólks öllum eða nokkrum ákvæðum samþykktarinnar. Þeir flokkar eru taldir upp í 2. gr. samþykktarinnar en þar eru nefndir til sögunnar þeir sem hafa verið ráðnir tímabundið í vinnu eða til tiltekins verkefnis, sem sagt verkefnaráðningar, og þeir sem ráðnir eru til reynslu eða þjálfunar um tíma sem ákveðinn er fyrir fram og er hæfilega langur. Það þykir eðlilegt að samþykktin nái ekki til slíkra ráðninga. Einnig má undanskilja þá sem ráðnir eru tilfallandi um skamman tíma, sem sagt afleysingafólk. Þá er að auki heimilt, í samráði við hlutaðeigandi samtök launafólks og atvinnurekenda, að undanskilja tiltekna flokka launafólks ef ráðningarkjör þess og starfsskilyrði lúta sérstakri skipan sem í heild tryggir ekki lakari vernd en þá sem veitt er með þessari samþykkt eða ef í ljós kemur að framkvæmdin er verulegum vandkvæðum bundin með tilliti til sérstakra starfsskilyrða hlutaðeigandi launafólks eða stærðar eða eðlis fyrirtækisins sem hefur það í vinnu. Slíkir hópar skulu skráðir og gera skal grein fyrir ástæðum undanþágnanna í skýrslum til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Víkjum þá að efni samþykktarinnar. Meginefni samþykktarinnar má skipta í þrjá þætti. Sá fyrsti felst í því að atvinnurekanda er gert skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns ef eftir því er óskað. Annar þátturinn felur í sér að starfsmanni skal ekki sagt upp nema til þess sé gild ástæða, sem tengist hæfni eða hegðun starfsmanns, eða hún byggist á rekstrarlegum ástæðum fyrirtækisins, stofnunarinnar eða þjónustunnar. Í 5. gr. samþykktarinnar er nánar skilgreint hvað skuli ekki teljast gild ástæða uppsagnar, sem má sem sagt ekki byggja uppsögn á, en þar eru talin upp atriði eins og aðild að stéttarfélagi eða þátttaka í starfsemi þess, það að gegna stöðu trúnaðarmanns launafólks, það að hafa borið fram kæru eða tekið þátt í málssókn gegn atvinnurekanda, sem því miður er mjög oft ástæða uppsagnar og einnig þátttaka í samtökum launafólks þó að trúnaðarmenn séu sérstaklega verndaðir, kynþáttur, hörundslitur, kynferði, hjúskaparstétt, fjölskylduábyrgð, þungun, trúarbrögð, stjórnmálaskoðanir, þjóðerni og félagslegur uppruni og fjarvist frá vinnu í fæðingarorlofi.

Það er því ljóst að það eru nokkuð mörg atriði sem ekki má byggja uppsögn á. Við þekkjum þess því miður ljót dæmi úr sögunni hér á landi sem mörg hver hefur ekki einu sinni verið farið leynt með. Ég minnist þess sérstaklega núna, ætli það séu ekki tvö, þrjú ár síðan, að konu var sagt upp. Hún var kokkur á bát og henni var sagt upp vegna þess að hún var of feit. Launamaður getur í slíku tilviki ekkert gert. Hún missir vinnuna vegna þessarar ástæðu og í sjálfu sér getur atvinnurekandinn sagt manneskju upp af þeirri ástæðu að hún sé ljót eða leiðinleg. Það er ekkert því til fyrirstöðu í íslenskri löggjöf. Hann þarf bara að gæta uppsagnarfrestsins. En rétturinn til vinnu hefur ekki verið viðurkenndur sem réttindi starfsmanns. Eins og ég rakti vegna fyrra málsins sem var hér til umræðu þá hefur þetta pínulítið breyst og launafólki er orðið mun kærara en áður og mikilvægara að rétturinn til vinnu sé viðurkenndur og í raun og veru til staðar þannig að launamaður sem sinnir starfi sínu af alúð, gerir það vel og í samræmi við allar þær skyldur sem starfið leggur á herðar honum, eigi rétt á því að halda vinnunni. Atvinnurekanda sé síðan skylt að taka á öðrum vandamálum innan vinnustaðarins og reyna að leysa þau. En íslenskir atvinnurekendur hafa sloppið nokkuð vel hvað varðar ýmsa þættina á vinnustað, eins og t.d. einelti eða kynferðislega áreitni svo að dæmi sé tekið. En það er kannski önnur saga.

Samþykktin segir líka að fjarvist frá starfi um stundarsakir vegna veikinda eða slysa skuli ekki talin gild ástæða uppsagnar en skilgreina skal með lögum, reglugerðum eða í kjarasamningum hvað teljist fjarvist um stundarsakir.

Þriðja atriðið sem samþykktin byggir síðan á er að hún kveður á um tiltekið málsmeðferðarkerfi sem starfsmaður á rétt á við uppsögn. Honum skal gefinn kostur á að verja sig gegn aðfinnslum sem á hann eru bornar, hann skal eiga rétt á að vísa uppsögninni til hlutlauss aðila og hann á rétt á bótum vegna ólögmætrar uppsagnar. Einnig er heimilt að kveða á um að hann eigi rétt á endurráðningu.

Eins og framkvæmdin hefur verið hér á landi er vissulega talað um að menn fái bætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Tökum sem dæmi trúnaðarmenn sem njóta starfsöryggis umfram marga aðra. Þeir þurfa að hafa brotið af sér í starfi til þess að hægt sé að reka þá. En þegar það gerist að trúnaðarmaður er rekinn án gildrar ástæðu og hann fer með málið fyrir dóm og fær bætur, þá gerist það því miður að hann fær í raun og veru ekkert dæmt meira heldur en bæturnar sem hann á rétt á samkvæmt ákvæðunum um uppsagnarfrest. Hann fær dæmdan uppsagnarfrestinn sinn og búið. Hann fær ekkert meiri bætur heldur en hver annar sem hefði verið rekinn.

Ljóst er að þessir þrír þættir samþykktarinnar mundu gerbreyta stöðu íslensks launafólks til hins betra ef þeir væru teknir upp í íslensk lög. Ekki síst gæti fullgilding samþykktarinnar haft áhrif á þá þróun sem verið hefur hér undanfarin ár og felst í því að starfsfólki er í æ meiri mæli sagt upp störfum í því skyni einu að gera við það verktakasamninga. Þetta mundi ótvírætt geta verið vörn launafólks gegn því að því sé stillt upp við vegg og það sé látið gera gerviverktakasamninga því það missi vinnuna ella.

Eins og staðan er nú hér á landi njóta aðeins trúnaðarmenn, foreldrar í fæðingarorlofi og þungaðar konur einhvers starfsöryggis í reynd, en einnig er kveðið á um tilteknar reglur í tengslum við hópuppsagnir og þegar starfsfólki er sagt upp vegna aðilaskipta að fyrirtækjum. Tvö síðasttöldu dæmin eru til komin vegna EES-reglna og voru tekin upp í íslenska löggjöf í tengslum við EES-samninginn. Og ég get fyllilega tekið undir það sem meðflm. minn sagði í framsögu sinni áðan að þær umbætur sem hefðu orðið á þessu sviði hefðu allar komið erlendis frá, það má segja a.m.k. allan síðasta áratug eða rúmlega það, þá hafa því miður íslensk stjórnvöld ekki sinnt því að gera úrbætur fyrir launafólk á þessu sviði.

Á undanförnum árum hefur þetta mál mjög oft verið rætt á vettvangi þríhliða nefndar félmrn. eins og hér hefur komið fram og um það hvort fullgilda skuli þessa samþykkt. Margoft hefur verið gerð krafa um það af hálfu fulltrúa samtaka launafólks og fulltrúi atvinnurekenda hefur hafnað fullgildingu og fulltrúi félmrn. hefur ekki viljað taka afgerandi afstöðu af þessum sökum og þetta er í raun og veru sama sagan og er uppi með samþykktina sem var rætt um hér áðan um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Þessar samþykktir hafa mikið hangið saman í málflutningi samtaka launafólks.

Það er mjög mikilvægt líka að stjórnvöld geri sér grein fyrir því að stjórnarskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar gerir ekki ráð fyrir því að stjórnvöld leiki hlutlausan aðila í þríhliða nefndinni, enda er þríhliða starfið þannig uppbyggt að nauðsynlegt er að hið pólitíska vald taki afstöðu til mála eftir að málið hefur verið rætt í nefndinni af aðilum vinnumarkaðar. Þessi hlutleysisstefna stjórnvalda í þríhliða nefndinni hefur bitnað á því starfi sem nefndinni er ætlað að sinna og um það ber vitni fjöldi fullgildinga á samþykktum stofnunarinnar, en Íslendingar hafa bara fullgilt 18 samþykktir eins og hér hefur komið fram áður. Það hefur margoft komið fram í Norðurlandasamstarfi verkalýðshreyfinga hversu slæm staða íslensks launafólks sé varðandi starfsöryggi og fyrirspurnir hafa verið gerðar um það hvers vegna ekki séu fullgiltar fleiri samþykktir hér á landi. Svör Íslendinga eru aðeins þau að ekki hafi verið pólitískur vilji til að koma málinu í gegn hjá þríhliða nefndinni, hvað þá heldur á Alþingi. Þar sem lausn er ekki í sjónmáli í þríhliða nefndinni er ekki að vænta tillagna þaðan um fullgildingu og því er tillaga þessi til þingsályktunar lögð fram.

Hvað varðar reglurnar um starfsöryggi hér á landi vil ég kannski aðeins drepa á það í lokin að hvað alvarlegast er starfsöryggisleysið hjá fiskvinnslufólki. Það eru lögin nr. 19/1979 sem hafa í raun og veru heimilað það að þetta fólk býr svo til ekki við neitt starfsöryggi og ekki hefur dómaframkvæmd bætt úr skák vegna þess að eftir dómaframkvæmd er þessi grein, 3. gr. laganna frá 1979, túlkuð vægast sagt mjög rúmt og hún heimilar allt of mikið frelsi að mínu mati í þessum efnum. Þess vegna fagna ég því ef hæstv. félmrh. hyggst taka þessi lög til endurskoðunar. Það er löngu orðið tímabært og ekki síst hvað varðar þessa grein. Og þó að það sé viðurkennt að einhver sérstaða þurfi að vera þegar um er að ræða hráefnisskort hjá fiskvinnslufyrirtækjum, þá er allt of langt gengið eins og reglurnar eru núna og það held ég að allir hljóti að sjá og viðurkenna sem kafa örítið ofan í þau mál.

Það hefur verið brugðist við þessu að hluta til með því að gera kauptryggingarsamninga og í núverandi samningum Verkamannasambands Íslands er gert ráð fyrir því að starfsfólk eigi rétt á því að gera kauptryggingarsamning eftir níu mánaða starf. Ég get upplýst hæstv. félmrh. um það að ekki er von til þess að miklar breytingar verði í þessum efnum í núverandi kjarasamningum eftir nýjustu fréttum úr Karphúsinu. Ég kannaði það nú í morgun hvort einhvers væri að vænta í þessum efnum og verkalýðshreyfingin eða fulltrúar fiskvinnsludeildar Verkamannasambandsins meta málin svo að það lengsta sem þeir komast að sinni sé að fá ákvæðið um kauptryggingarsamning fært niður í fjóra mánuði þannig að fólk eigi rétt á kauptryggingarsamningi eftir fjóra mánuði í staðinn fyrir níu og það hjálpar ekki nema litlum hópi.

Ég hefði gjarnan viljað vitna hér í samþykkt frá síðasta þingi Alþýðusambands Íslands um réttindamál launafólks nr. 3.2. þar sem rakið er nokkuð ítarlega í ályktuninni hversu mikilvægt sé að bæta starfsöryggi. Hér segir í lokin, með leyfi forseta:

,,Nauðsynlegt er að bætt starfsöryggi verði tryggt með samningum aðila á vinnumarkaði og löggjöf eftir því sem við á. Þá er nauðsynlegt að Ísland staðfesti nú þegar samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda.``

Það er farið nokkuð ítarlegar ofan í starfsöryggismálin í þessari samþykkt og ég vil hvetja hæstv. félmrh. til að kynna sér hana því það þekkja allir sem hafa komið nálægt réttindamálum launafólks að starfsöryggið er verulegur þrándur í götu þess að launafólk búi við þokkaleg réttindi á vinnumarkaði. Það er bara grundvallaratriði vegna þess að það hefur áhrif á öll önnur réttindi. Ekki er hægt að hvetja fólk til að fara og sækja rétt sinn fyrir dómstólum eða annars staðar eða gera kröfur þegar því er fullkunnugt um að það getur misst vinnu sína án þess að gefa þurfi upp fyrir því ástæðu, fyrir vikið.

Að lokum legg ég til að máli þessu verði vísað til hv. félmn.