Uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 14:46:16 (4581)

1997-03-18 14:46:16# 121. lþ. 92.8 fundur 200. mál: #A uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[14:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að staldra við þá athugasemd, sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, flm. þessarar tillögu nefndi og kemur fram í greinargerð á bls. 2, að Íslendingar hafa fullgilt 18 samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar en fjöldi fullgildinga annars staðar á Norðurlöndum er frá 60 og til 100 í hverju landi. Hún benti á að í Norðurlandasamstarfi verkalýðshreyfinga hefur margoft komið til tals hversu slæm staða íslensks launafólks sé varðandi starfsöryggi og fyrirspurnir hafi verið gerðar um hvers vegna ekki séu fullgiltar fleiri samþykktir. Svör Íslendinganna verða að vera þau að ekki sé pólitískur vilji að koma málum í gegn og fram hjá þríhliða nefndinni. Við höfum lagt allt of mikið í hendur þríhliða nefndarinnar, ætlast til að menn kæmu sér saman og ef einn hefur sett ,,veto`` á málið og stöðvað það þá hafa allar þessar samþykktir stöðvast í höndum atvinnurekenda ef svo ber undir. Þessar mikilvægu samþykktir um réttindi launafólks hafa ekki komið hingað á þing, þingmenn þekkja þær ekki. Þess vegna erum við að reyna að vekja áhuga Alþingis á þessum málum og vekja alþingismenn til vitundar um þessi mál og hversu mikilvægt það er að gera breytingar og hvernig er hægt að styðja við baráttu verkafólks og réttindabaráttu launþega með því að staðfesta hinar ýmsu samþykktir sem hafa orðið til og verða til í gegnum þá alþjóðasamninga sem við undirgöngumst þegar við viljum svo við hafa.

Það var mikilvæg ábending flm. að réttindi séu betur tryggð í mörgum Evrópulöndum en hér og ég vék að því örlítið í minni ræðu áðan. Norðurlöndin eru öðrum Evrópulöndum fyrirmynd á mörgum sviðum réttindamála, svo sem jafnréttismálanna. Þá er horft frá Evrópu og þangað en við, þessi fimmti hluti Norðurlandanna, erum aftast á merinni í réttindamálum launþega. Það er algerlega til skammar hvernig við höfum setið áhugalaus hjá og látum bara hlutina gerast. Ef þeir nást ekki fram í gegnum kjarasamninga eru þeir bara látnir eiga sig. Eins og hér kom fram þarf ekki að gefa upp ástæðu fyrir uppsögn. Það er nóg að hún sé feit eða ljót eða hann sé leiðinlegar eða atvinnurekendur segi: Af því bara. Ég hef sagt frá því, held ég tvisvar, úr þessum ræðustól þegar ég hitti starfsmannastjóra hjá stóru fyrirtæki á ferðalagi og við tókum tal saman og hann hafði orð á því hvað sér fyndist það óviðfelldið ef hann lenti í því að eiga að kalla fyrir sig starfsmann til þess að segja honum upp, að hann væri í stöðu til að segja ef starfsmaðurinn í öngum sínum spyr: Hvers vegna? Hvers vegna? Það er nóg fyrir mig að segja: Af því bara! Af því bara! Og hvernig stendur á því að þið, löggjafinn, látið þetta viðgangast? Hverju átti ég að svara? Af því bara. Þannig er það.

Við skulum athuga það að þetta brann e.t.v. ekki nægilega á okkur þegar var svo mikil atvinna að allir höfðu vinnu og þeir sem kærðu sig um, jafnvel tvöfalda. En þegar atvinnuleysið hélt innreið sína fann fólk gjörla breytta stöðu. Þá kemur líka upp alveg nýr þáttur í okkar þjóðlífi. Það er þáttur þjónkunar og undirgefni, að láta vaða yfir sig á vinnustað, láta gera kröfur á hvað sem er vegna þess að það vofir yfir: Ef þú ert ekki góð eða ef þú ert með derring, vinur, þá eru hérna dálítið margir sem mundu vilja starfið þitt. Þetta breytti mjög miklu í umhverfi íslensks launamanns.

Þetta mál sem hér er til umræðu er annað réttindamál af svipuðum toga og það sem ég var að mæla fyrir. Þessi tvö mál sýna okkur ótvírætt hve langt í land við eigum með að tryggja launafólki starfsöryggi sem er eitthvað í takt við það sem er í nágrannalöndum okkar og það sem þau telja sjálfsagt og réttmætt. Það er til skammar fyrir okkur á löggjafarþingi Íslendinga að við skulum ekki hafa gengið lengra og betur fram í því að tryggja réttindi launþega á ýmsu sviði.

Ég kom inn á það áðan og ætla aftur að víkja að því að mikilvæg réttindamál hafa verið lögfest hér vegna þess að við höfum gerst aðilar að alþjóðasamningum. Ég man vel þá tíð, virðulegi forseti, þegar fulltrúar míns flokks voru að flytja tillögu um að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, hvernig sá flokkur var ataður auri og sakaður allt að því um landráð fyrir það að reyna með málflutningi sínum og tillöguflutningi að koma því vel til skila í þessum þingsal hvað mundi ávinnast fyrir okkur og hvað við gætum átt á hættu ef við stæðum algerlega utan við með okkar einhæfa atvinnulíf og einhæfu frumvinnslugreinar. Ég man alla þessa umræðu. Ég man hin hörðu orð. En hvað er það sem hefur verið að gerast?

Við erum hér að fjalla um alþjóðasamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. En við höfum líka verið að vísa til réttinda sem hafa komið í gegnum alþjóðsamninga. Ég ætla að nefna nokkur réttindamál af því að þau eiga heima í þessari umræðu og ég get ekki annað. Það eru réttindamál sem hafa verið lögfest út af aðild okkar að ESS. Það eru lögin um hópuppsagnir. Það var ekki til stafkrókur um réttindi fólks við hópuppsagnir þar til við fengum slíka tilskipun, unnum úr henni hér og settu lög um að það yrði að fara að ákveðnum ráðum þegar ætti að fækka fólki og hafa samráð við trúnaðarmenn, leita leiða til að forðast hópuppsagnir o.s.frv.

Ég ætla að nefna líka, virðulegi forseti, réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum þar sem líka er verið að reyna að tryggja svo sem unnt er rétt launafólks hjá fyrirtæki þó svo aðilaskipti verði og nýr eigandi. Það var ekkert sem tryggði rétt þessa fólks. Ég minnist fyrirtækis, reyndar í mínu kjördæmi, þar sem var búið að skipta um eigendur að fyrirtækinu í þrígang og fólk stóð hverju sinni réttindalaust og launalaust á götunni, eða réttara sagt á heimilunum sínum launalaust, og það var ekkert sem tryggði rétt þess. Því var jafnvel boðin ný vinna hjá nýjum aðilum en var ekki farið að fá laun þegar mál breyttust.

Ég ætla að nefna annað af því að það er eitt af málunum sem við erum með í félmn. núna. Það er þetta brýna mál að taka á vinnutíma barna, brýna mál að skoða það hvernig uppvaxtarskilyrði við viljum gefa börnunum okkar og skoða það hvernig skóli og vinna á að fara saman og ganga ekki nærri þeim. Ég hef þegar nefnt hér, forseti góður, foreldraorlofið sem mun koma hingað annaðhvort í formi lagasetningar eða samvinnu aðila á vinnumarkaði ef svo tekst til. Þess vegna segi ég: Það er nöturlegt til þess að hugsa, og endurtek það sem ég sagði áður, að við skulum ekki bera gæfu til þess að skoða þessi mál sjálf, flytja þau hingað inn annaðhvort með samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins eða sem lagasetningu, að við skulum meira að segja þurfa að búa við það að taka við þessum tilskipunum utan lands frá og horfast í augu við hversu skammt við erum komin hér í þessu góða landi.