Uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 15:02:08 (4583)

1997-03-18 15:02:08# 121. lþ. 92.8 fundur 200. mál: #A uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda# þál., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:02]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér höfðu áður komið fram á fundinum getgátur þess efnis að hæstv. félmrh. stæði með atvinnurekendum en samkvæmt því sem hann sagði síðast þá kemur í ljós að svo er ekki. Hann er bara svona saklaus og hrekklaus og góður maður. Hann trúir á það góða í tilverunni. Hann sagði að atvinnurekendur á Íslandi rökstyddu ævinlega uppsögn og fólki væri ekki sagt upp nema gild ástæða væri til. Ég verð að segja það hér að eitt af því sem olli mér hvað mestum áhyggjum í nýsamþykktu frv. um atvinnuleysisbætur var að þar eru áfram inni, þó það tækist ekki að lengja tímann, sérstakir 40 dagar sem fólk bíður með að fá bætur sem er sagt upp vinnu, að því er segir að eigin sök. Ég þekki alveg ótrúlega mörg dæmi um það úr mínu umhverfi að fólki er sagt upp alveg fyrirvaralaust og án þess að nokkur ástæða sé tilgreind. Það er sem sagt rekið. Og þetta fólk verður að fara inn á þessa 40 biðdaga vegna þess að það telst sjálft eiga sök á því að hafa fyrirgert vinnu sinni. Þetta er alvarlegt mál og kemur allt of oft fyrir. Ég þekki þess mörg dæmi sjálf. Svo vil ég tilgreina réttindi þeirra sem eru lausráðnir, meira að segja hjá ríkinu, fá alltaf þriggja mánaða samning í senn. Þessum samningum er stundum sagt upp, allt í einu eru þeir ekki endurnýjaðir meir og það er ekki skylt að gefa upp neina ástæðu hvers vegna. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það sé oftlega um geðþóttaákvarðanir að ræða.