Uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 15:06:17 (4585)

1997-03-18 15:06:17# 121. lþ. 92.8 fundur 200. mál: #A uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda# þál., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:06]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður voru þetta ekki getsakir mínar, hæstv. félmrh. Ég þekki fjölda dæma, því miður, um að fólki hefur verið sagt upp vinnu algjörlega að ástæðulausu og stundum á röngum forsendum. Ég vil tiltaka hér eitt dæmi um ungan mann sem var sagt upp vinnu vegna þess að það var rýrnun á lager á vinnustað hans. Það voru sem sagt grunsemdir um að hann ætti einhvern þátt í þeirri rýrnun og honum var ekki gefinn neinn kostur á að svara fyrir sig. Það kom svo í ljós viku eftir að hann hafði látið af störfum hvernig á þessari rýrnun stóð, það var annar starfsmaður sem átti sök á því. Hann var aldrei beðinn afsökunar eða boðið starfið aftur og samt var þetta hjá ríkinu.

Ég þekki fjöldamörg slík dæmi sem ég get ekki talið upp hér í örstuttu andsvari. En ég vil þó taka undir með hæstv. félmrh. að þessir verktakasamningar sem grassera í þjóðfélaginu núna eru mikið og vaxandi vandamál. Það er t.d. mikill herskari af ungu fólki sem vinnur við að keyra skyndimat heim til þeirra sem vilja neyta slíkrar fæðu. Það er yfirleitt allt á verktakasamningum því það fær nokkuð hærri laun tímabundið heldur en ef það væri á föstum launum en það kemur í ljós að þegar fólk hefur núna, t.d. undanfarið, fótbrotnað í hálku við að hlaupa með slíkan skyndibita þá hefur það engar tryggingar. Og ég þekki dæmi um það líka. Þarna vorum við sammála um þessa verktakasamninga og ég tel mjög brýnt að það komi eitthvert frumkvæði frá félmrn. að taka á þeim málum.