Uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 15:29:40 (4590)

1997-03-18 15:29:40# 121. lþ. 92.8 fundur 200. mál: #A uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:29]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið snarpar orðræður um réttindamál. Ég tek undir það með hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur að það skortir mjög á að það sé réttur til að leita réttar síns. Virðulegi forseti. Ég ætla að hinkra andartak á meðan ráðherrann er upptekinn vegna þess að það sem ég hef að segja, það verður ekki mjög löng ræða, á erindi við hann.

Ég benti áðan á lög sem hafa verið sett og ég dró það fram hvers vegna þessi lög hefðu verið sett --- að þau hefðu verið sett vegna aðildar okkar að EES og ég ætla að nefna atriði úr hópuppsögnum og réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum til áréttingar þeim málflutningi sem við Bryndís Hlöðversdóttir höfum haft hér, með leyfi forseta, tekið úr 2. gr. laga um hópuppsagnir:

,,Áformi atvinnurekandi uppsagnir skv. 1. gr. skal hann hafa samráð við trúnaðarmann starfsmanna eða annan fulltrúa sem þeir hafa til þess valið svo fljótt sem auðið er með það fyrir augum að ná samkomulagi.

Með samráðinu skal að minnsta kosti leita leiða til að forðast hópuppsagnir eða fækka starfsmönnum sem fyrir þeim verða og draga úr afleiðingunum með hjálp félagslegra aðgerða sem hafa það meðal annars að markmiði að auðvelda tilfærslur í starfi eða endurhæfingu starfsmanna sem sagt hefur verið upp.``

Hvað segir þetta okkur? Það er verið að setja reglur hér út af EES-ákvæðum sem við höfum tekið upp sem tryggja rétt launþegans við hópuppsagnir og tryggja samráð við trúnaðarmann til að leita réttar launþegans.

Virðulegi forseti. Ef ég vík aftur að réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum þá segir þar í 5. gr.:

,,Aðilaskipti, sbr. 1. gr., skulu þeir sem hlut eiga að máli tilkynna trúnaðarmanni starfsmanna eða starfsmönnum sjálfum sé trúnaðarmaður ekki fyrir hendi með góðum fyrirvara og áður en aðilaskipti koma til framkvæmda. Jafnframt skal upplýsa hlutaðeigandi um ástæður aðilaskipta, um lagalegar, efnahagslegar og félagslegar afleiðingar þeirra fyrir starfsmenn og um fyrirhugaðar ráðstafanir vegna starfsmanna.``

Og, virðulegi forseti, önnur grein sem hangir á þessari:

,,Aðilaskipti, sbr. 1. gr., geta ein sér ekki verið ástæða fyrir uppsögn starfsmanna af hálfu atvinnurekanda, hvorki fyrir né eftir aðilaskipti. Samráð skal hafa með góðum fyrirvara og áður en fyrirhugaðar ráðstafanir koma til framkvæmda.``

Hér hef ég vísað til tvennra laga sem sett hafa verið með réttindi starfsmanna í fyrirrúmi sem sýna ótvírætt að það er verið að setja reglur til að aðstoða starfsmanninn til að leita réttar síns, m.a. með ákvæðum um trúnaðarmann.

Virðulegi forseti. Það sem hér hefur komið fram í umræðunni er þó það að ráðherra hefur lýst því yfir að hann muni gera breytingar, hann muni koma með sína tillögu um fólk með fjölskylduábyrgð, hann mun íhuga það að koma með tillögu varðandi uppsagnir launafólks ef hann sannfærist um það að í nýlegum uppsögnum hafi ekki verið færð gild rök fyrir uppsögnum. Hann kallaði eftir því að við nefndum dæmi. Ég vil geta þess að á þessum vetri hef ég setið fyrir framan tvær konur sem hafa fengið uppsögn, verið á þessum viðkvæma aldri, þ.e. yfir fimmtugt, hafa talið sig vera vel látna starfsmenn, hafa starfað til margra ára hjá sama fyrirtæki og uppsögnin hefur komið eins og þruma úr heiðskíru lofti og ekki verið gerð tilraun til að færa rök fyrir henni. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa rétt til að leita réttar síns.

Virðulegi forseti. Þó mér liggi meira á hjarta þá ætla ég að staldra við hér. Hins vegar langar mig að draga það fram að ráðherrann hefur verið mjög svo mjúkur í þessari umræðu. Hann hefur lofað því að koma með mál inn í þingið sem hann hefur ekki verið tilbúinn til áður. Og af því ég nefndi það í upphafi máls míns að hann hefði átt merkisafmæli þá má e.t.v. draga þá ályktun, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson er hér að gera, að eitthvað eigi það við að styðjast að ráðherrann hefur átt þetta merkisafmæli. Ég gat þess líka áðan að ég hefði e.t.v. flutt honum vísu ef ég væri til þess bær, en nú hef ég fengið aðstoð og ætla þess vegna í lok ræðu minnar, með leyfi forseta, að fara með vísu í orðastað Páls Péturssonar og í tilefni af þessu ágæta afmæli og orðum hans hér í dag:

  • Sextíu ár í atinu hef ég þraukað
  • einkum og sér í lagi hérna í ranninum.
  • Þó að ég hafi ýmislegt amlað og baukað
  • enn þá trúi ég á það góða í manninum.