1997-03-18 15:37:11# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:37]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Mikil tíðindi gerðust í fjármálaheiminum fyrir síðustu helgi þegar Landsbanki Íslands keypti 50% hlut Brunabótafélagsins í Vátryggingafélagi Íslands. Stærsta fjármálastofnun landsins kaupir ráðandi hlut í stærsta tryggingafélaginu. Landsbankinn með aðeins 6 milljarða í eigið fé kaupir fyrir 3,4 milljarða en bankinn er jú með ríkisábyrgð. Vitaskuld er gott að innlendir bankar hasli sér loksins völl á tryggingasviðinu eins og tíðkast erlendis.

Atvinnulífið hefur einkennst af helmingaskiptum og fákeppni. Oftar en ekki hafa stórfyrirtæki tengd Sjálfstfl. tekist á við fyrirtæki sem byggja á arfleifð SÍS. Ýmislegt bendir til þess að við sjáum nú enn einn slag risaeðlanna. Alla vega er fákeppni að aukast og fjármálalegt vald að færast á sífellt færri hendur. Markaðshlutdeild VÍS er um 40% og tryggingasjóðir þess um 10 milljarðar svo eftir nokkru er að slægjast. Landsbankinn var þó það máttvana fyrir nokkru að hann þurfti sérstaka aðstoð skattborgaranna. Landsbankinn hefur lengi unnið að því að ná fótfestu á tryggingamarkaðnum. Formaður bankaráðsins hefur oft talað um hvílík framtíð sé falin í væntanlegum lífeyrissparnaði. Því hefur verið haldið fram að frv. ríkisstjórnarinnar í lífeyrismálum sé tengt þessum kaupum. Þessu hefur hins vegar verið mótmælt. Formaður bankaráðs Landsbankans er jú framkvæmdastjóri Sjálfstfl.

Frumvarp fjmrh. í lífeyrismálum skerðir möguleika núverandi lífeyrissjóða við að taka við lögbundnum iðgjöldum. Þetta setti kjarasamninga í uppnám og hæstv. forsrh. Davíð Oddsson þurfti að reka fjmrh. til baka með hugmyndir sínar. Víst er nauðsyn á endurskipulagningu í lífeyrismálum en þessi vinnubrögð eru óverjandi.

Brunabótafélag Íslands er eignarhaldsfélag eftir sérstökum lögum. Venjulega er talið að sveitarfélögin á landsbyggðinni og einstaklingar eigi það. En ástæða er til að spyrja hvernig meintir eigendur komist að þessari 3,4 milljarða eign sinni, ekki nema þeir ætli að kaupa 35% í Landsbankanum og ráða þannig bæði VÍS og Landsbanka. Eru ný-sambandsmenn að tryggja sér enn betri stöðu gagnvart Landsbankanum með þessu skrefi? Nú er e.t.v. komin skýring á því að ekki er í lagatexta með bankafrv. ákvæði um að dreifa eignaraðild að hinum nýju 35% í bönkunum. Er búið að eyrnamerkja þau til vinveittra fyrirtækja stjórnarflokkanna?

Það er athyglisvert að skoða nýja Fjárfestingarbankann í þessu ljósi. Þar er stofnaður enn einn ríkisbankinn, skipt eftir helmingareglu stjórnarflokkanna. Það er búinn til Nýsköpunarsjóður eftir sömu formúlu og nú er einn ríkisbankinn látinn þenja sig yfir tryggingasviðið.

Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. er að stíga stærri skref til ríkisrekstrar í fjármálaheiminum en nokkur ríkisstjórn hefur gert hér um áratuga skeið. Víst er að hér er kúvent í einkavæðingunni eða eins og Einar Sveinsson, forstjóri Sjóvár-Almennra sagði: Tekin var U-beygja. Hann furðar sig á þessu og er ekki einn um það. Valur Valsson, bankastjóri Íslandsbanka, spyr af hverju ríkisbanki geti keypt fyrirtæki úti í bæ en fyrirtæki úti í bæ geti ekki keypt bankann. Það stendur jú ekki til að einkavæða Landsbankann næstu fjögur árin. Ráðherra verður að svara þeirri hörðu gagnrýni bankastjóra Búnaðarbankans sem halda því fram að þetta hafi verið ólöglegt. Það þarf að skýra afstöðu bankaeftirlitsins. Meginþátturinn í umræðu okkar jafnaðarmanna hefur verið að tryggja samkeppnisvæðingu. Það hefur ekki tekist með þessu skrefi.

Herra forseti. Ég spyr hæstv. forsrh. eftirfarandi spurninga:

1. Hvaða áform eru uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar í lífeyrismálum og er líklegt að þær fyrirætlanir auki möguleika tryggingafélaga og séreignarlífeyrissjóða til að sækjast eftir hluta lífeyrisiðgjalda sem nú eru greidd í lífeyrissjóði með skylduaðild?

2. Forsrh. hefur lýst því yfir að hann hafi fylgst með málinu úr fjarlægð síðustu daga fyrir kaupin. Var leitað eftir afstöðu ráðherranna í ríkisstjórninni til þessara kaupa Landsbankans og hver var sú afstaða?

3. Ríkisrekstur á fjármálamarkaði eykst verulega við þessi kaup Landsbankans. Hvernig samrýmist það stefnu ríkisstjórnarinnar?

4. Forsvarsmenn Landsbanka Íslands tengja þessi kaup einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar. Nú liggur hins vegar fyrir samkvæmt stjfrv. að ríkið muni ekki selja hlutabréf sín í Landsbankanum næstu fjögur árin þótt boðið verði út takmarkað nýtt hlutafé. Þýða þessi kaup helgarinnar að ríkisstjórnin muni endurmeta og hraða einkavæðingu ríkisviðskiptabankanna?

5. Hvernig breytist eiginfjárhlutfall Landsbankans við kaupin og hverju svarar ráðherra gagnrýni, m.a. bankastjóra Búnaðarbankans? (Forseti hringir.)

6. Mun ráðherra beita sér fyrir lagasetningu þannig að eigendur Brunabótafélags Íslands eigi kost á því að fá andvirði sölu í hlutabréfum í VÍS til sín ef þeir kjósa svo?

7. Eftir kaupin eru stærsti banki þjóðarinnar og stærsta tryggingafélagið tengd sterkum eignaböndum. Telur ráðherra þetta eðlilegt miðað við þá fákeppni sem þegar ríkir á fjármálamarkaði og með tilliti til samþjöppunar fjárhagslegs valds hérlendis?

(Forseti (ÓE): Forseti vill strax í upphafi biðja hv. ræðumenn að gæta tímamarka, það er það margir sem hafa óskað eftir að taka til máls.)