1997-03-18 15:43:10# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:43]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Frv. um skyldutryggingu lífeyriréttinda og starfsemi lífeyrissjóða verður kynnt hagsmunaaðilum á næstunni. Í frv. er fjallað um fjárreiður lífeyrissjóða, skilgreiningu á skyldutryggingu og hvað sé séreignarlífeyrissparnaður. Meginhugmyndin er að til samtryggingasjóða greiðist 10% iðgjald sem getur breyst með breyttri ávöxtun sjóðanna en sjóðfélagar ráði því hvort greiðsla umfram lágmarksiðgjöld til samtryggingar gangi til samtryggingar eða séreignar. Brýnt er að afgreiða frv. því að fjöldi beiðna um staðfestingu á samþykktum lífeyrissjóða liggur fyrir á mismunandi forsendum. Setning laga um þetta efni er því mikið hagsmunamál allra aðila á vinnumarkaði eins og komið hefur fram. Tryggingafélög, verðbréfafyrirtæki og bankar munu án efa gegna hlutverki í framtíðinni til að varðveita og ávaxta langtímasparnað, séreignarlífeyri, og stunda lífeyristryggingar sem í dag eru í stórum stíl á vegum erlendra tryggingafélaga. Að mínu mati er fátt jafnmikilvægt og að auka langtímasparnað þjóðarinnar.

Yfirlýsing Landsbankans um kaup og kauprétt á hlutabréfum Brunabótafélags Íslands í VÍS og LÍFÍS hefur ekki verið rædd í ríkisstjórn en mér er kunnugt um að einstakir ráðherrar vissu af áformum bankans skömmu áður en yfirlýsingin var undirrituð. Ekki var sérstaklega leitað eftir afstöðu ráðherra en ég sagði formanni bankaráðsins að ég gerði ekki athugasemd við þessi áform ef þetta væru aðgerðir til að styrkja bankann og þær byggðust á eðlilegum viðskiptagrundvelli enda brytu þær hvorki í bága við lög né alþjóðasamþykktir sem Ísland er skuldbundið að fylgja.

[15:45]

Eins og fram hefur komið hefur Landsbankinn um árabil verið að kanna hvernig hann geti breikkað grundvöll starfsemi sinnar til að tryggja aðgang sinn að langtímasparnaði og átt í því skyni viðræður við ýmsa aðila. Stefna ríkisstjórnarinnar um hlutafjár- og einkavæðingu á fjármagnsmarkaði kemur fram í fyrirliggjandi frumvörpum um ríkisbankana. Frumvörpin verða væntanlega afgreidd í vor. Auðvitað er ekki loku fyrir það skotið að áætlanir ríkisstjórnarinnar geti breyst, bæði vegna umfjöllunar í þingnefndum þar sem málið verður kannað í ljósi upplýsinga frá ýmsum aðilum og einnig vegna þeirrar öru þróunar sem á sér stað á fjármagnsmarkaðnum og miðar að því að styrkja þær einingar sem þar starfa í sívaxandi alþjóðlegri samkeppni.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér hjá stjórnskipuðum endurskoðanda Landsbankans liggur fyrir áætlun sem byggir á því að eiginfjárhlutfall bankans fari ekki undir 9% á árunum 1997--1999 þegar áformuð kaup munu eiga sér stað í áföngum og er þá ekki gert ráð fyrir að bankinn auki eigið fé sitt með sölu hlutafjár en það mundi að sjálfsögðu hækka hlutfallið verulega. Gert er ráð fyrir að bankinn taki víkjandi lán án ríkisábyrgðar á almennum markaði á árinu 1998 sem hækkar eiginfjárhlutfallið án þess þó að fullnýta heimildir sínar til slíkrar lántöku.

Þessi mál hafa verið kynnt bankaeftirliti Seðlabanka Íslands mjög ítarlega. Jafnframt hefur vátryggingaeftirlitinu og Samkeppnisstofnun verið gerð grein fyrir málinu. Engar athugasemdir hafa komið fram vegna þessa.

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands starfar samkvæmt lögum. Samkvæmt þeim lögum fer fulltrúaráðið, sem er 50 manna ráð tilnefnt af kaupstöðum og héraðsstjórnum, með aðalfundarrétt félagsins. Fulltrúaráðið mun fjalla um yfirlýsinguna á fundi sínum 4. apríl nk. Fulltrúaráðið tekur ákvarðanir um ráðstöfun söluandvirðis og stjórnarformaður Brunabótafélagsins hefur sagt að skapa þurfi skilyrði til þess að arður af starfsemi félagsins skili sér til sveitarfélaganna.

Þegar litið er yfir íslenska fjármálamarkaðinn blasir við að á honum starfa fjölmörg tiltölulega lítil fyrirtæki. Fyrir nokkrum árum sameinuðust fjórir bankar í einn. Tryggingafélög hafa sameinast og lífeyrissjóðir sömuleiðis. Á sama tíma hefur fjármagnsmarkaðurinn opnast og hindrunum verið rutt úr vegi fyrir alþjóðlegum viðskiptum. Mér sýnist augljóst að í framtíðinni verði aukin og harðnandi samkeppni á þessum markaði. Fyrirtæki munu sameinast og erlendir aðilar koma inn á markaðinn í stærri stíl. Slík breyting á ekki að leiða til fákeppni heldur til opinnar alþjóðlegrar samkeppni sem mun skila sér í bættum lífskjörum og meiri langtímasparnaði. Nýlegt dæmi um viðbrögð markaðarins er þegar Félag ísl. bifreiðaeigenda samdi við alþjóðlegt vátryggingafyrirtæki um bílatryggingar.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum geta þess að bankaráð Landsbankans hefur að sjálfsögðu fjallað um yfirlýsinguna og samþykkti hana einróma. Í ráðinu sitja fimm þingkjörnir fulltrúar, einn sjálfstæðismaður, einn framsóknarmaður, einn alþýðubandalagsmaður og tveir fulltrúar Alþfl., flokks jafnaðarmanna. Stjórnarandstaðan hefur þannig meiri hluta í bankaráðinu en mikil eindrægni virðist ríkja um þetta mál þar.