1997-03-18 15:52:58# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), JBH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:52]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fyrir skömmu síðan birti opinber nefnd sem fjallaði um samkeppnisskilyrði íslensks atvinnulífs niðurstöður sínar og komst að þeirri niðurstöðu, sem ekki kom nú á óvart, að þetta örsmáa hagkerfi einkenndist mjög af einokun og fákeppni hvort heldur væri ríkisrekinni einokun eða ráðandi stöðu fyrirtækja á mörkuðum og nefndi til sögunnar landbúnaðarkerfið, orkugeirann, fjármagnsmarkaðinn, tryggingarnar, flutningastarfsemina o.s.frv.

Hæstv. ríkisstjórn hefur í stefnuyfirlýsingum sínum vakið upp væntingar um að hún stefni að breytingum á þessu með því að draga úr ríkisrekstri, tryggja dreifðari eignaraðild og skapa almennari og betri samkeppnisskilyrði. Þau mál sem nú eru á borðum þingmanna vekja upp spurningar um hvort nokkurt samræmi er milli orða og efnda. Það vekur athygli að hæstv. ríkisstjórn leggur hér fram frv. um stofnun nýs fjárfestingarríkisbanka og viðheldur reyndar hólfaskiptingunni að því er varðar landbúnaðinn með því að viðhalda Stofnlánadeildinni sem sérstökum sjóði, bindur sérstaklega þannig um hnútana að hagsmunaaðilarnir verði ráðandi í þessum banka. Það liggur fyrir að þeir sem eru sérfróðir í röðum stjórnarliða um þessi mál lýsa sig andvíga þessari stefnu ríkisstjórnarinnar og hafa raunverulega skapað annan meiri hluta í efh.- og viðskn. sem er andvíg þessum áformum.

Að því er varðar myndun hlutafélaga um ríkisbankana tvo þá tek ég undir það sem sagt hefur verið að seinustu gjörningar hljóta náttúrlega að breyta því máli mjög verulega, þegar stærsti ríkisbankinn og stærsta tryggingarfélagið ganga í eina sæng, vegna þess m.a. að formaður bankaráðs Landsbankans, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., hefur lýst því yfir að þessi gjörningur sé gerður í trausti þess að fyrir liggi sú stefna ríkisstjórnarinnar að einkavæða bankann. Nú er það algjör misskilningur að það liggi fyrir. Þvert á móti liggur fyrir að næstu fjögur ár á ekki að hrófla við þessum meiri hluta. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Spurningarnar eru raunverulega hinar sígildu sem beina má til hæstv. starfandi forsrh. og rifja upp í leiðinni hin frægu orð Margrétar Thatcher: Er það svo að ríkisstjórnin sé algjörlega á U-beygjunni?