1997-03-18 16:02:39# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:02]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Á einni síðdegisstund á föstudaginn var spurðust út þau miklu tíðindi að annar ríkisbankanna, Landsbanki Íslands, hefði gert sér lítið fyrir og keypt helming í stærsta tryggingafélagi landsins. Frá því var jafnframt greint að þessi hlutabréfaviðskipti væru hin stærstu frá því að land var numið, hvorki meira né minna. Þá rifjaðist upp hið fornkveðna: Ærið mun hann stórvirkur en eigi veit ég hvort hann er svo góðvirkur.

Þessi sérstæði síðdegisgjörningur vekur vissulega upp margar spurningar sé hann skoðaður í samhengi við það sem áður hefur gerst á þessum sviðum. Það eru ekki liðin nema fimm ár eða tæplega það síðan Landsbankinn fékk hálfan fimmta milljarð í víkjandi lán til þess að standast alþjóðleg mörk um eiginfjárstöðu. Í fyrra þurfti hann sérstakrar skuldbreytingar við vegna þessarar sömu fyrirgreiðslu upp á 1.000 millj. kr. Núna reiðir þessi ríkisbanki hins vegar fram hálfan fjórða milljarð kr. til þess að kaupa sér hlut í atvinnurekstri sem einstaklingar, samtök þeirra og félög hafa annast hingað til, m.a. í krafti þeirrar fyrirgreiðslu sem ríkið veitti honum. Hver er seljandinn? Það er Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands. Skyndilega blasir það við hverjum manni að þetta félag mun hafa handbæra 3,4 milljarða kr. þó svo að fullkomin óvissa virðist ríkja um hver eigi það fé.

Í lögum um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Eignarréttindi sameigenda eru óvirk nema til slita á félaginu komi, sbr. 16. gr. Ákveða skal slitaverðmæti (eignarhlut) hvers og eins sameiganda á þeim degi er lög þessi taka gildi.``

Í framhaldi af þessu er óhjákvæmilegt að leita eftir því hver sé eignarhluti eða slitaverðmæti hvers og eins sameiganda nú samkvæmt þeim lögum sem um þessi mál gilda. Með kaupum á Brunabótafélaginu hefur Landsbankinn skuldbundið sig til þess að reiða fram 3,4 milljarða kr. Það virðist augljóst að samkvæmt þeim reikningsskilavenjum sem viðgengist hafa ber að bókfæra kaupverðið í einu lagi en ekki í þremur áföngum. Þess vegna er óhjákvæmilegt að Ríkisendurskoðun sem er endurskoðandi Landsbankans segi álit sitt á þessum samningi og hver áhrif hans verða á efnahag bankans. Einnig verður fróðlegt að fylgjast með rökstuðningi bankaeftirlitsins sem eftirlitsaðila með bankastarfseminni í landinu. Þeirri fyrirætlan að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög (Forseti hringir.) og opna sölu á hlutafé ber að fagna. Þegar það blasir hins vegar við að annar bankanna er kominn á kaf í nýjan rekstur er alveg óhjákvæmilegt að hraða sölu á hlut ríkisins í bönkunum og helst stíga skrefið til fulls sem allra fyrst.