1997-03-18 16:08:24# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:08]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ganga núv. hæstv. ríkisstjórnar á vegi hlutafélaga og einkavæðingar er að verða hin mesta píslarganga. Því koma þessi kaup ekki mjög á óvart því að hingað til hafa einkavæðingartilraunir ríkisstjórnarinnar á fjármagnsmarkaði birst okkur í stofnun nýs ríkisbanka og áframhaldandi yfirráðum ríkisins á viðskiptabönkum. Því vakna við kaupin ýmsar spurningar.

Í fyrsta lagi hvort kaupin veiti VÍS óbeina ríkisábyrgð á skuldbindingum sínum. Ef halla færi undan rekstri fyrirtækisins er hætt við að það hefði veruleg áhrif á rekstur Landsbankans og líklegt að ríkissjóður yrði þá að hlaupa undir bagga með einum eða öðrum hætti. Þessi vitneskja lánardrottna gæti leitt til þess að fyrirtækið fengi notið betri kjara á lánamarkaði en önnur tryggingafyrirtæki. Hættan er því sú að með kaupunum sé ríkið að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja á tryggingamarkaði.

Í öðru lagi hafa réttlætingar forsvarsmanna Landsbankans fyrir kaupunum komið mér spánskt fyrir sjónir þegar helsta réttlæting fyrir kaupunum er sú að með þeim sé stofnunin að styrkja stöðu sína vegna fyrirsjáanlegrar erlendrar samkeppni á þessum markaði. Í ljósi nauðsynjar á erlendri samkeppni á þessum markaði tel ég undarlegt að ríkið taki með þessum kaupum þátt í að byggja múra í því skyni að koma í veg fyrir eða hamla gegn nauðsynlegri samkeppni á þessu sviði.

Í þriðja lagi eru það svo BIS-reglurnar en ég og fleiri eigum erfitt með að skilja hvernig stofnun sem nýverið sótti um stuðning til eiganda síns getur nú án stuðnings skuldsett sig sem nemur rúmlega þeirri fjárhæð sem síðast var lögð til hennar í formi víkjandi lána án þess að skerða sína eiginfjárstöðu. Ég segi ekki annað en mikill er máttur forsvarsmanna bankans.

Að lokum, virðulegi forseti, það sem gerir þetta mál enn sérkennilegra eru svo örlög hins ágæta stjórnmálamanns hæstv. fjmrh., sem á sínum tíma var frægur fyrir baráttu sína undir slagorðinu ,,báknið burt``, en hlýtur nú þau örlög í faðmi helmingaskiptastjórnarinnar að verða lykilmaður í því að ríkisvæða tryggingamarkaðinn.