1997-03-18 16:13:04# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:13]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Fyrst um lífeyrismálin. Undirbúningur þess frv. sem hér hefur verið nokkuð til umræðu hefur nú tekið um eitt og hálft ár. Í dag er það svo að menn geta lagt inn í séreignarlífeyrissjóði og það telst gildur lífeyrissparnaður samkvæmt lögum. Ég staðhæfi það hér að með þeirri lagabreytingu, með þeim lögum sem við ætlum að setja í vor ef það tekst, þá erum við að styrkja lífeyriskerfi landsmanna. Ég vil að það komi hér fram.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson og Svavar Gestsson spurðu hvað yrði um opinbera starfsmenn. Um þá gilda sérstök lög. Það hefur ekki verið gengið frá neinu í því efni að breyta þeim, en það gæti orðið samkomulag um það í framtíðinni ef opinberir starfsmenn vilja skipta sínum lífeyrissparnaði öðruvísi en þeir gera í dag.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson minntist á samkeppnisstöðuskýrsluna og það er ánægjulegt fyrir mig því að ég þekki hana ágætlega. Ég tel að það sé ekki rangt að styrkja fyrirtæki sem síðan eigi að einkavæða, ég tel það ekki rangt. Ég mundi telja rangt af hálfu ríkisins að veikja slík fyrirtæki áður en þau væru einkavædd. Og ég vil segja það hér að persónulega tel ég að þeir atburðir sem hér hafa gerst ættu að ýta undir einkavæðinguna og flýta henni fremur en hitt.

Hv. þm. Svavar Gestsson minntist á það að framkvæmdastjóri Sjálfstfl. væri að fylgjast með umræðum og með vinnumönnum sínum. Má ég benda honum á að hér er mættur Ingi R. Helgason á pallana, stjúpi hv. þm. í a.m.k. ýmsum málum Alþb. og gamla Sósíalistaflokknum, þannig að það hallar ekki á með okkur vinunum í þessum efnum.

Að lokum ætla ég að segja að það sem skiptir auðvitað máli í þessum umræðum öllum er að langtímasparnaður hér á landi aukist í framtíðinni. Það er það sem skiptir sköpum fyrir íslenska þjóð.