Læsivarðir hemlar í bifreiðum

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 16:59:20 (4609)

1997-03-18 16:59:20# 121. lþ. 92.14 fundur 209. mál: #A læsivarðir hemlar í bifreiðum# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:59]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þessa þáltill. sem þeir fjórir hv. þm. hafa flutt varðandi hemla í bifreiðum. Það er vissulega líka annar öryggisbúnaður sem sjálfsagt og eðlilegt er að tryggja að almenningur festi kaup á frekar en gert hefur verið. Þegar fólk er að kaupa sér nýjar bifreiðar horfir það oftar en ekki á verðið að sjálfsögðu og vill kannski frekar kaupa sér sjálfskipta bifreið heldur en bifreið sem er búin miklum og góðum öryggisbúnaði eins og hér hefur verið farið ítarlega í. Það er nú svo að verðið á þeim öryggisbúnaði sem möguleiki á að fá með bifreiðum sem fluttar eru til landsins nemur allt frá 7% upp í 10% af bílverðinu. Ég held að með tilliti til þess sem hefur verið að gerast í umferðarmenningu okkar Íslendinga sé mikil nauðsyn á að gera átak í að búa fjölskyldubifreiðar þeim öryggisbúnaði sem hér hefur verið talað um, vegna þess líka að það mun skila sér, eins og hv. ræðumaður kom inn á áðan. Það mun skila sér til samfélagsins í fækkun slysa og minni kostnaði vegna árekstra. Veðrabrigði eru snögg hér yfir vetrartímann og fljótt að skipta úr ágætis færð hér á höfuðborgarsvæðinu yfir í mikla hálku og því samfara miklar ógöngur í umferðinni. Ég tel því að þetta sé hið besta mál. Ég tek undir það með 1. flm., hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, að hér er vissulega mál sem þingmenn eiga að gefa góðan gaum að og vinna að framgangi þess.

Ég endurtek og tek undir það sem 1. flm. sagði áðan að þetta mun beint og óbeint skila sér til samfélagsins aftur. Við eigum vissulega að stuðla að því, það er okkar mál svo mjög sem þingmenn almennt hafa horft til öryggisþátta og viljað leggja sitt af mörkum til þess að umferðaröryggi verði svo gott sem mögulegt er.