Læsivarðir hemlar í bifreiðum

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 17:02:09 (4610)

1997-03-18 17:02:09# 121. lþ. 92.14 fundur 209. mál: #A læsivarðir hemlar í bifreiðum# þál., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:02]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar undirtektir hjá Guðmundi Hallvarðssyni og tek undir að í raun og veru ætti að skoða í enn ríkari mæli hvaða öryggisbúnaður ætti að vera undanþegin álagningu. Af því að ég vísaði til Norðurlandanna er ljóst að það eru nokkrir aðrir öryggisþættir undanþegnir álagningu. Reynslan hefur sýnt það hér að við þurfum að vera með eitthvert afmarkað mál og reyna að höfða til stjórnvalda með það. Þess vegna var í fyrra verið að fara fram með þessi tvö mál, læsivarða hemla og öryggispúðana. En mér finnst athyglisvert fyrir okkur að á meðan þjóðir í kringum okkur eru uppteknar af því að skapa öryggi í umferðinni og búa þegnum sínum ákveðið öryggi með því að beita skattlagningunni þá erum við mjög lokuð fyrir þessum vinnubrögðum. Það er mjög sérstakt að nú hef ég flutt þessa tillögu áður og hún var til umfjöllunar í efh.- og viðskn. þegar verið var að fjalla um breytingu á vörugjöldum í fyrra. Ég tók eftir því að það náði mjög vel til þingmanna þegar verið var að leggja áherslu á að það yrði að lækka verð á stóru bifreiðunum vegna þess að stórar fjölskyldur þyrftu stóra bíla, sem er hárrétt, og að það þyrfti líka að skoða það að jafna verðinu þannig að fjölskyldufólk gæti keypt dýrari bílana af því að almennt væru þeir öruggari. Þetta náði mjög vel í gegn til þingmanna og á þessi rök féllst efh.- og viðskn. og breytti í samvinnu við ráðherrann vörugjöldunum og skiptingu gjaldflokkanna en það að búa allar þær bifreiðar sem er að finna og eru til sölu og flæða inn á markaðinn, þær sem eru bæði minni einfaldari og ódýrari sem er alveg ljóst að margir þurfa og munu kaupa. Allt unga fólkið sem er að sökkva í skuldir og sem er kannski bara þriggja manna fjölskylda fer ekki í að kaupa sér stóran dýran bíl til að búa við öryggi. Þetta fólk mundi kunna að meta það ef einfaldar litlar bifreiðar væru búnar ákveðnum öryggisbúnaði sem skapaði fjölskyldum þeirra meira öryggi af því að ríkið væri með þá stefnumörkun að reyna að skapa þegnum sínum öryggi.

Mér finnst það miður að við þessa umfjöllun í fyrra skuli hafa verið sleppt úr svona mikilvægum þáttum. Mér finnst líka miður hvað lítið er staldrað við þessi mál hjá okkur. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið sem voru sett fram bæði í Noregi og Danmörku. Danirnir sögðu að það væri ekki tekinn einstaklingur inn á skurðarborð í andlitsaðgerð öðru vísi en að kostnaður við aðgerðina hlaupi á tugum þúsunda danskra króna, þá erum við að tala um hundruð þúsunda íslenskra kr. Þeir eru að tengja saman slysin sem verða og kostnað heilbrigðisþjónustunnar fyrir utan sársaukann, sorgina og annað þegar illa fer þegar fólk kemur meira eða minna skaddað út úr bifreiðaslysi, ég tala nú ekki um þegar dauðsföll verða. Ég vildi óska þess að við þessa umræðu hefði verið fjöldi þingmanna sem hefði haft áhuga á að ræða umferðaröryggismál og hvernig við getum beitt okkur betur í því efni. Hér hef ég komið með upplýsingar um að einn þáttur, öryggisbremsur, hleypur úr innkaupsverðinu úr 80 þús. kr. upp í 176 þús. fyrir aðgerðir og skattlagningu stjórnvalda. Við getum gert mjög mikið átak í þessum efnum ef vilji er fyrir hendi. Þannig að með þessum góðu undirtektum Guðmundar Hallvarðssonar vona ég að hann hafi orð á þessu við félaga sína sem sitja í efh.- og viðskn. Og þar sem einn fulltrúi nefndarinnar situr hér þá vona ég að þessi varúðarorð mín hafi líka náð til hans.