Stimpilgjald

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 17:15:41 (4613)

1997-03-18 17:15:41# 121. lþ. 92.15 fundur 386. mál: #A stimpilgjald# (kaupskip) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:15]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni merkilegt mál og er synd að ekki skuli vera fleiri við umræðuna, að ég tali nú ekki um hæstv. ráðherra. Ég vildi gjarnan heyra sjónarmið hæstv. ráðherra gagnvart þessu frv. og hvort hann telur að sú fullyrðing standi að ekki verði um neitt raunverulegt tekjutap ríkisins að ræða.

Alþb. hefur í umræðum hér oft lagt áherslu á nauðsyn þess að kaupskip sem hér eru í rekstri sigli undir íslenskum fána og vakið athygli á réttarstöðu þeirra sjómanna sem eru á kaupskipum undir erlendum fánum. Nægir að minna á það að Guðrún Helgadóttir, þingmaður Alþb., tók þessi mál nokkuð oft upp hér á þingi.

Við fyrstu sýn og miðað við þá ræðu sem hv. þm. flutti áðan og þau skilaboð sem í henni fólust frá samtökum sjómanna og þá útgerðarmanna, um að breyting yrði á varðandi mönnun skipa og öryggismál sjómanna ef frv. yrði samþykkt á Alþingi, þá vil ég við 1. umr. lýsa því yfir að mér finnst þetta vera hið þarfasta mál og vonandi að Alþingi afgreiði það með þessum hætti eða öðrum þeim sem tryggir að kaupskip okkar verði undir íslenskum fána.