Stimpilgjald

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 17:21:38 (4615)

1997-03-18 17:21:38# 121. lþ. 92.15 fundur 386. mál: #A stimpilgjald# (kaupskip) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:21]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu vekur upp spurningar um skattlagningar yfirleitt. Hér er farið fram á undantekningu frá lögum um stimpilgjöld til þess að lokka til landsins skattstofn sem hefur flúið undan of mikilli skattlagningu. Skattstofninn, þ.e. skráning skipa, hefur vikið til útlanda vegna þess að skatturinn er of hár. Hvað þá um innlend fyrirtæki sem þurfa að borga þennan skatt? Hvað þá um innlend fyrirtæki sem þurfa að keppa við erlend fyrirtæki um fé og vinnuafl nú á dögum þar sem hvort tveggja er orðið mjög fljótandi?

Það hefur margoft verið rætt að stimpilgjaldið er mjög óréttlátur skattur og það er ekki stofnað eitt einasta ríkisfyrirtæki þessa dagana, og ég nefni þá hlutafélagavæðingu bankanna sem liggur hér fyrir Alþingi, að það sé ekki undanþegið stimpilgjaldi. Sama á við um þau fyrirtæki sem við höfum fengið hingað erlendis frá vegna stóriðju, þau eru yfirleitt undanþegin stimilgjaldi. Það sem ætti að hugleiða er hvort ekki mætti sleppa stimpilgjaldinu yfirleitt.

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að ræða um það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom inn á, sem er mjög athyglivert. Það er að á þeim skipum sem sigla hingað til lands sem leiguskip, og borga þar af leiðandi ekki þetta gjald sem við erum að tala um, er fólk sem er með miklu lægri laun heldur en innlendir sjómenn. Þetta er náttúrlega staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Það eru ekki sömu laun alls staðar í heiminum. Þær skyrtur og þau föt sem við göngum í, hv. þm., eru mjög líklega saumuð af fólki sem hefur miklu lægri laun heldur en við erum að tala um, og þannig nýtum við okkur þessi lágu laun nú þegar.

Í kaupskipaflotanum er í mjög auknum mæli farið að nota láglaunafólk til þess að starfa á þeim skipum og þau eru þá skráð undir hentifánum. Þannig að við nýtum þessi lágu laun í gegnum lægri farmgjöld, vegna minni launakostnaðar skipafélaganna. Þetta er vandi sem við eigum við að glíma á mjög mörgum sviðum. Við erum með samkeppni á flestum sviðum við erlend fyrirtæki og þau fara til Austurlanda þar sem eru lág laun, nýta lágu launin til að koma hingað inn. Ég nefni t.d. fataiðnaðinn. Þetta er því ekkert einstakt dæmi sem hér er verið að ræða.

Ég hygg að þó stimpilgjöldunum yrði sleppt í sambandi við þessi skip mundu þau ekkert frekar koma hingað til lands vegna þess að lágu launin sem skipafélögin greiða í dag eru svo mikil búbót fyrir þau, miðað við þau laun sem íslenskir sjómenn vilja fá og eiga að fá, að það munar miklu meira um það heldur en nokkurn tímann um stimpilgjaldið. Ég held því að ekki sé nóg að laga stimpilgjaldið. Við þurfum að laga umhverfi skipafélaganna að öðru leyti og við þurfum að laga umhverfi íslenskra fyrirtækja yfirleitt hvað varðar skattlagningu og alls konar opinberar kvaðir sem eru umtalsverðar. Þá fyrst geta íslensk fyrirtæki farið að keppa við erlend og borga þau góðu laun sem við viljum sjá hjá landsmönnum okkar.