Stimpilgjald

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 17:32:58 (4617)

1997-03-18 17:32:58# 121. lþ. 92.15 fundur 386. mál: #A stimpilgjald# (kaupskip) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:32]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við erum komin út í mjög mikla umræðu sem fer langt út fyrir það sem tilefni gafst til. En þetta er í sjálfu sér þörf umræða.

Varðandi það sem ég sagði um að það yrði að búa flotanum og íslenskum fyrirtækjum skilyrði þá vil ég nefna að íslenskir fiskimenn standa hverju landi á sporði í framleiðni og afkastagetu. Íslenski fiskiskipaflotinn getur keppt við lágu launin hvar sem er í heiminum. Ég geri ráð fyrir að íslenskir fiskimenn afli miklu meiri og séu ódýrari á hvert kíló af fiski sem þeir draga úr sjó heldur en fólkið með lágu launin.

En varðandi það sem hv. þm. sagði um velferðarákvæðið í samningum við þessi lönd þá er það ákaflega tvíeggjað sverð og þarf að beita með mikilli varúð. Það er nefnilega þannig að ef maður t.d. segði að þetta fólk ætti ekki að hafa nema einhver lágmarkslaun þá mundi maður auka atvinnuleysi í viðkomandi löndum. Og það er atvinnuleysið sem heldur laununum niðri en ekki eitthvað annað. Ef við mundum t.d. banna þessu fólki að vinna á skipum sem sigla til Íslands þá mundum við um leið loka fyrir lífsbjörg þeirra manna sem fara fjarri heimilum sínum, frá Póllandi og víðar að úr heiminum, til þess að afla sér lífsviðurværis með siglingum til Íslands. Þetta er mjög alvarlegur hlutur. Það er oft þannig að þau ákvæði sem menn ætla að beita til velferðar slá gegn þeim sem ætlað er að vernda. Það er því mjög vandmeðfarið. Hins vegar tel ég að barnaþrælkun sé þvílíkur blettur á mannkyninu að það eigi að taka slík ákvæði inn í samninga og við eigum ekki að kaupa föt eða annað sem framleitt er með þrælkun barna.