Stimpilgjald

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 17:50:37 (4620)

1997-03-18 17:50:37# 121. lþ. 92.15 fundur 386. mál: #A stimpilgjald# (kaupskip) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan gera litla athugasemd við það sem hv. þm. sagði um skatta fyrirtækja. Ég nefndi í fyrri ræðu minni skatta og annað opinbert umhverfi fyrirtækja og þá á ég við opinbera þjónustu, t.d. hvernig tollurinn er og hvernig hann vinnur, menntakerfið, hvernig það býr til fólk með góða menntun og fjármálakerfið, sem við erum einmitt að ræða þessa dagana á hinu háa Alþingi, hversu góða þjónustu það veitir íslenskum fyrirtækjum. Allt þetta samanlagt gerir íslenskum fyrirtækjum betur kleift að keppa við erlend fyrirtæki og þar á meðal fyrirtæki sem nýta sér mjög lág laun.

Það eru mörg fyrirtæki sem eru í samkeppni, ekki bara skipaútgerðirnar. Það er kaffibrennsla, það er alls konar iðnaður, það er sælgætisiðnaðurinn --- hann er í samkeppni við erlend fyrirtæki sem ekki þurfa að borga stimpilgjald. Það eru því ekki bara skipaútgerðirnar og skipaskráning sem þyrfti að vera laus við þessa skattlagningu heldur fyrirtæki almennt.

Varðandi það að hv. þm. hafi ekki séð lægra vöruverð eftir að tíðkaðist að nota ódýrara vinnuafl til að flytja vörur til landsins þá vil ég benda á það að fatnaður sem við klæðumst, við hv. þm. sem og aðrir landsmenn, væri sennilega margfalt dýrari ef hann væri ekki framleiddur í þessum löndum sem eru með lág laun, og þannig njótum við mjög víða þessara lágu launa beint og óbeint í mjög ríkum mæli. En sem betur fer er atvinnuleysið að minnka í þessum vanþróuðu löndum sem eru með lágu launin og þar með hækka launin í þeim löndum og þessi launamunur mun minnka.