Staðan í samningamálum

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 13:34:19 (4626)

1997-03-19 13:34:19# 121. lþ. 93.91 fundur 259#B staðan í samningamálum# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:34]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem er uppi varðandi almenna kjarasamninga.

Ég flutti í haust frv. til laga um að lágmarkslaun á Íslandi skyldu vera fyrir fulla dagvinnu 80 þús. kr. á mánuði. Rökstuðningurinn fyrir málinu var þessi: Lág laun hafa leitt til fátæktar á Íslandi. Lág laun hafa leitt til of langs vinnutíma á Íslandi. Lág laun hafa leitt til fólksflótta frá Íslandi og það hefur ekki náðst sá árangur hjá aðilum vinnumarkaðarins sem viðunandi er.

Nú blasir við sú staðreynd að Dagsbrúnarfulltrúar felldu undirritaðan kjarasamning í gærkvöldi vegna þess að ekki náðist fram að hækka lágmarkslaun í 70 þús. kr. nú þegar eða á næstu mánuðum eins og fram hefur komið hjá formanni Dagsbrúnar. Hagkerfinu mun blæða hratt út ef víðtæk verkföll skella á. Þess vegna óska ég eftir, herra forseti, að hv. félmn. taki nú þegar frv. um lágmarkslaun til umfjöllunar og afgreiði það. Það felur í sér að laun með orlofi verða 80 þús. kr. Um það getur orðið sátt við íslenskt verkafólk á lægstu launum og ekki annað. Þetta verður að gerast nú á næstu 2--3 dögum og ljúka með afgreiðslu þingsins.

Herra forseti. Í þessari umfjöllun er ég ekki að sakast við ríkisstjórnina. Hún hefur sett fram tillögur til að greiða fyrir samningum þó svo þær kalli á ýmsar breytingar, eins og hæstv. forsrh. hefur viðurkennt, svo sem varðandi vaxtabætur og barnabætur. Ég tel þess vegna að ríkisstjórnin hafi ekki brugðist hlutverki sínu í þessu máli.

Þetta frv., herra forseti, hefur verið til umfjöllunar hjá fjölmörgum aðilum í þjóðfélaginu og fengið jákvæðar undirtektir, já reyndar flestum nema ASÍ sem taldi að eftir væri að framkvæma á því nákvæma útfærslu. En það er ekki hlutverk þessa frv. Reyndar get ég líka tekið fram að ég óskaði ekki umsagnar VSÍ. Ég veit skoðun framkvæmdarstjóra þess. Hann sagði í sjónvarpsþætti fyrir nokkrum mánuðum að það væri unnt að verja það siðferðilega að lágmarkslaun væru 50 þús. kr. Ég taldi því ekki ástæðu til að eyða dýrmætum tíma hans í umfjöllun um málið. Þess vegna ítreka ég kröfu mína um að félmn. hefji nú þegar vinnu við frv., afgreiði það og létti af því oki sem við blasir fyrir íslenskt þjóðfélag.