Staðan í samningamálum

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 13:45:05 (4631)

1997-03-19 13:45:05# 121. lþ. 93.91 fundur 259#B staðan í samningamálum# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:45]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Varðandi það frv. sem hv. þm. Gísli S. Einarsson gat um, þ.e. lögbindingu 80 þús. kr. lágmarkslauna, þá var getið sérstaklega um í því frv. að aðilum vinnumarkaðarins var gefið svigrúm, mig minnir í fimm mánuði, til að komast að þessari niðurstöðu. Það er skoðun okkar almennt að það eigi að gera kjarasamninga á vinnumarkaðnum. Það var rökstutt ítarlega í frv. að þetta væri ráð sem yrði að grípa til ef menn gætu ekki komist eðlilega að þessari niðurstöðu vegna þess að það eru fjölmörg rök sem mæla með því að lágmarkslaun séu lögbundin í landinu. Það getur leitt til aukinnar framleiðni og aukinnar hækkunar launa við núverandi aðstæður. Þetta þekkist því víða og það eru mörg skilyrði nú uppfyllt að einmitt þetta skref gæti orðið til hagsbóta hér í efnahagsumhverfinu. Vitaskuld er áhyggjuefni hvernig málum kjarasamninga er komið núna, en ég vil að það komi skýrt fram að Dagsbrún og Framsókn, ég veit ekki betur, skrifuðu undir með fyrirvara um sína stóru samninganefnd, sem er þeirra samninganefnd, þannig að afgreiðsla þeirra í nótt var fullkomlega eðlileg og lögmæt. Ég veit ekki til þess að hægt sé að hártoga það á nokkurra handa máta þó að nýju lögin séu eins og þau eru. En málið er það brýnt að vitaskuld ber að taka það upp og það er sú krafa sem hér var gerð. Það á að taka þetta frv. upp í ljósi breyttra aðstæðna sem nú ríkja. Þetta mál var brýnt, þetta mál var skynsamlegt en nú er þetta þingmál Gísla S. Einarssonar og annarra þingmanna jafnaðarmanna orðið lífsnauðsyn í okkar þjóðlífi.