Staðan í samningamálum

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 13:49:53 (4633)

1997-03-19 13:49:53# 121. lþ. 93.91 fundur 259#B staðan í samningamálum# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram að ég er mjög andvígur því að skipa launum með lögum og ég tel að það sé aðila vinnumarkaðarins að semja um kaup og kjör og ríkisvaldið eigi ekki að blanda sér í það með því að setja löggjöf.

Ég ætla ekki að blanda mér í störf félmn. hvort hún tekur þetta frv. fyrir. Ég geri ráð fyrir því að að sjálfsögðu eins og með önnur mál sem þangað berast, þá verði þau tekin þar og rædd.

Varðandi gildi þessa samnings sem gerður var í nótt, þá vitnaði hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir rétt í lagatextann um stéttarfélög og vinnudeilur. Ég hef ekki séð þessar undirskriftir en það er náttúrlega ljóst að hafi verið skrifað undir samning gildir samningurinn frá undirskrift og þar til hann hefur hlotið afgreiðslu í almennri atkvæðagreiðslu í viðkomandi félögum. Ég veit hins vegar ekki hvort það mundi breyta neinu. Ég hygg að það hafi komið í ljós á þessum fundi sem haldinn var í nótt eða gærkvöldi að veruleg andstaða sé gegn þessum samningi og þá hlýtur hún væntanlega að koma fram í almennri atkvæðagreiðslu. Almenna atkvæðagreiðslan er til þess að almennir félagsmenn geti tjáð sig um meginákvarðanir.

Varðandi útspil ríkisstjórnarinnar þá hefur það komið fram að útspil ríkisstjórnarinnar var svar við kröfu ASÍ, að ríkisstjórnin er tilbúin til að útfæra hugmyndir um vaxtabætur með öðrum hætti en var í þessu tilboði. Það liggja fyrir yfirlýsingar frá forsrh. og mér um það. Það hefur engin hótun verið sett fram um lífeyrissjóðina. Það er allt saman stormur í vatnsglasi og tilbúningur því að það verður ekkert hróflað við samtryggingarhugsjón lífeyrissjóðanna og þeir munu halda sínum 10%.