Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:08:58 (4640)

1997-03-19 14:08:58# 121. lþ. 93.1 fundur 375. mál: #A húsaleigubætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:08]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs út af þessum almennu vangaveltum félmrh. um það að velta til peningum af ríkinu og yfir á sveitarfélögin og öfugt. Það er dálítið skrýtið. Sveitarfélögin voru á móti því að ríkið yfirtæki vinnumiðlunina. Nú á að selja sveitarfélögunum það. Sveitarfélögin eiga að þakka fyrir að það skyldi hafa verið gert.

Síðan ákvað ríkisstjórnin núna um daginn, án þess að tala við sveitarfélögin sem slík, þó það hafi kannski verið talað við formann Sambands ísl. sveitarfélaga, þá er það ekki nóg í þessu dæmi, að lækka útsvör á svetarfélögunum í landinu upp á verulegar upphæðir. Það var ekkert talað um það við sveitarfélögin. Ég stóð hér upp, herra forseti, í framhaldi af orðum hæstv. ráðherra til að hvetja til þess að þessi mál verði sett í eðlilegan og faglegan farveg, en menn hætti að láta dynti augnabliksins ráða því hvað snýr upp og hvað niður í þessum efnum.